Fréttir

Hvatningarátakið Göngum í skólann hefst á morgun

Á morgun, miðvikudaginn 8. september, hefst hvatningarátakið GÖNGUM Í SKÓLANN. Við erum búin að skrá okkur til leiks og þar sem við erum heilsueflandi skóli viljum við hvetja foreldra, nemendur og starfsfólk til virkrar þátttöku. Ýmis fræðsla og hvatning fer fram í skólanum en við hvetjum foreldra til að nýta tækifærið til að hvetja börnin til að koma með virkum hætti í skólann, þ.e.a.s. gangandi, hjólandi eða með strætó. Einnig gefur þetta gott tækifæri til umferðarfræðslu, en í því skyni bendum við á fræðsluefni á umferd.is Þá geta foreldrar geta nýtt hvatninguna til að ganga og hjóla með börnunum um nærumhverfið, til að kynnast skemmilegum leiðum og stígum. Eins getur verið gaman og fróðlegt að fara í strætóferðir um bæinn í þeim tilgangi að hvetja börnin til að nýta sér þessar fjölbreyttu leiðir til að komast á milli staða í framtíðinni. Nýtum okkur þetta tækifæri til að auka fræðslu og hreyfingu. Áfram Giljaskóli!
Lesa meira

Giljaskóli verður 1:1 skóli frá 5. bekk

Giljaskóli hefur síðustu árin markvisst aukið við tæknibúnað skólans. Skólinn steig á dögunum það stóra skref í innleiðingu á tækni að allir nemendur skólans frá 5. bekk eru komnir með eitt tæki á mann til afnota í skólastarfinu. Hver nemandi í 5. - 7. bekk hefur nú til umráða sinn iPad og nemendur 8. - 10. bekkjar hafa hver sína Chromebook tölvu. Í 1. - 4. bekk deila tveir nemendur einum iPad. Við erum afar ánægð með þessa þróun hjá okkur og teljum við okkur nú hafa aukna möguleika til að mæta þörfum nemenda og stuðla að framþróun í skólastarfi. Með spjaldtölvuinnleiðingunni gefast aukin tækifæri til að: - einstaklingsmiða nám og mæta þörfum hvers og eins. - auka ábyrgð og sjálfstæði nemenda í námi með hjálp tækninnar. - nemendur birti hæfni sína á fjölbreyttan hátt. - auka aðgengi að upplýsingum. - efla samskipti og samvinnu með tæknilegum úrlausnum. - útvíkka námsumhverfi nemenda. - efla læsi í víðum skilningi. Að nemendur geti notað tæknina, fundið það sem þeir þurfa þegar þeir þurfa, geta greint upplýsingarnar, búið til efni fyrir aðra og hugað að þeirri siðferðilegu ábyrgð sem þetta flókna umhverfi krefst. Í Giljaskóla er mikil áhersla lögð á upplýsingatækni og er m.a. starfandi sérstakur verkefnastjóri sem stýrir uppbyggingu á stafrænni tækni ásamt því að styðja við kennara í ferlinu. Kennarar skólans hafa síðustu árin byggt upp góðan þekkingargrunn á því að nýta tækni til kennslu og náms og er það okkar trú að þetta framtak skili sér í því að við munum útskrifa okkar nemendur með þá færni sem þarf til að takast á við nám og starf í stafrænum heimi.
Lesa meira

Upplýsingar vegna covid smits

Í kvöld fengum við upplýsingar um að starfsmaður í starfsmannateymi 6. bekkjar hafi greinst með covid. Eftir skoðun og rakningu í samstarfi við smitrakningarteymi Almannavarna er niðurstaðan sú að nokkrir úr hópi starfsfólks og nemenda fara í sóttkví. Þeir einstaklingar hafa allir fengið upplýsingar um það. Aðrir nemendur og starfsfólk sem tengjast árganginum þurfa að viðhafa svokallaða smitgát og vera þar með mjög vel vakandi fyrir minnstu einkennum og fara í sýnatöku ef þeirra verður vart. Aðrir þurfa hvorki að viðhafa smitgát eða sóttkví, en við biðjum ykkur eftir sem áður að vera mjög vel vakandi fyrir einkennum og alls ekki senda börnin í skólann ef þau hafa eftirtalin einkenni: Hósti Hiti Hálssærindi Kvefeinkenni Andþyngsli Bein- og vöðvaverkir Þreyta Kviðverkir, niðurgangur, uppköst Skyndilegt tap á lyktar- og bragðskyni Höfuðverkur Eins og áður þurfum við að taka höndum saman og hjálpast að í þessu mikilvæga verkefni. Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri
Lesa meira

Skólasetning 23. ágúst

Skólasetning Giljaskóla verður mánudaginn 23. ágúst. Vegna sóttvarnaraðgerða mun skólasetning skólastjóra fara fram í kennslustofum nemenda með rafrænum hætti. Nemendur 2. - 10. bekkjar og sérdeildar mæta í kennslustofur kl. 9:00. Gert er ráð fyrir að skólasetning taki hálfa til eina klukkustund. Vegna þessara aðstæðna getum við því miður ekki boðið foreldrum að vera með. Nemendur 1. bekkjar og foreldrar þeirra hafa verið boðaðir í viðtöl hjá umsjónarkennurum 23. og 24. ágúst.
Lesa meira

Áheitahlaup til styrktar UNICEF

Áheitahlaup Giljaskóla til styrktar verkefna UNICEF fór fram 28. maí. Safnaðist 301.040 kr. Einhverjir kusu að leggja beint inn á reikning UNICEF fyrst það var í boði. Höfum ekki yfirlit hve mikið það var til viðbótar. Frábært framlag frá nemendum og aðstandendum :)
Lesa meira

Skólaslit Giljaskóla þriðjudaginn 8. júní 2021

Þá er þetta skólaár senn liðið. Skólaslit Giljaskóla verða þriðjudaginn 8. júní. Þau verða með ögn breyttu sniði eins og í fyrra, þar sem við búum enn við fjöldatakmarkanir vegna covid-19. Því er ekki unnt að bjóða foreldrum nemenda í 1. - 9. bekk með á skólaslitin að þessu sinni. Skólaslit 1. - 9. bekkjar og sérdeildar Nemendur mæta í íþróttasal Giljaskóla en fara síðan í stofur til að kveðja bekk og umsjónarkennara. Nemendur í 1. - 3. bekk mæta á sal kl. 9:00 Nemendur í 4. - 6. bekk og 1. - 9. bekk sérdeildar mæta á sal kl. 9:30 Nemendur í 7. - 9. bekk mæta á sal kl. 10:00 Útskrift 10. bekkjar Útskrift 10. bekkjar verður í íþróttasalnum kl. 16:00. Myndataka af útskriftarnemum og kennurum fer fram í íþróttasalnum fyrir athöfn (um 15:30). Eftir athöfnina verður kaffi í matsalnum fyrir útskriftarnema og foreldra/forráðamenn.
Lesa meira

Fræðsluráð veitir viðurkenningar

Á miðvikudaginn 2. júní veitti fræðsluráð Akureyrarbæjar viðurkenningar þeim sem hafa skarað sérstaklega fram úr í skólastarfi. Þrír starfsmenn frá Giljaskóla, þær Steinunn Línbjörg, Thelma Snorra og Inga Dís hlutu viðurkenningu fyrir nemendastýrð námssamtöl. Inga Dís fékk einnig viðurkenningu fyrir nýstárlega kennsluhætti og skapandi verkefni. Óskum við þeim innilega til hamingju. Hér má sjá frétt um þennan viðburð á heimasíðu Akureyrarbæjar
Lesa meira

Unicef hreyfingin

Í dag fór fram áheitahlaup Giljaskóla til styrktar verkefna UNICEF. Það voru kátir krakkar sem hlupu í blíðskaparveðri og margir náðu markmiðum sínum og gott betur. Allir þeir sem tóku þátt í hlaupinu fengu svokallaðan "heimspassa" og límmiðarnir inn í honum eru til marks um hversu marga hringi viðkomandi fór. Þeir sem hétu á sín börn geta sett peninginn í umslagið sem fór heim í vikunni og nemendur koma með það í skólann og skila til sinna umsjónarkennara. Einnig er hægt að leggja beint inn á reikning UNICEF og eru upplýsingar varðandi það hér fyrir neðan. Þess ber að geta að áheitin eru meira til gamans og ef að fólk vill styrkja gott málefni þá má senda pening í umslagi eða leggja inn burtséð frá hlaupum.
Lesa meira

Unicef hreyfingin næstkomandi föstudag

Næstkomandi föstudag munum við í Giljaskóla taka þátt í UNICEF - hreyfingunni, sem er áheitahlaup til styrktar Unicef. Þessa vikuna munu nemendur koma heim með áheitablöð fyrir Unicef hreyfinguna. Um er að ræða áheitahlaup, þar sem nemendur safna áheitum til styrktar Unicef sem vinnur að því að tryggja aðgang allra að bóluefni. Hlaupið sjálft fer svo fram næstkomandi föstudag, þar sem nemendur hlaupa ákveðinn hring og því fleiri hringir sem farnir eru því meiri peningur safnast. Ár hvert leggur Unicef áherlsu á ákveðið málefni og ekki kemur á óvart að málefni ársins í ár eru bólusetningar. Fjallað verður um málefnið í skólanum auk þess sem nemendum gefst kostur á að horfa á stutt myndband frá Unicef um mikilvægi bólusetninga og réttindi barna gagnvart þeim. Við hvetjum aðstandendur til að kynna sér það líka, myndbandið má finna hér.
Lesa meira

Líf og fjör hjá 10. bekk

Nú styttist í annan endann á skólagöngu nemenda í árgangi 2005. Þau hafa átt annríkt í vetur við að afla fjár fyrir útskriftarferð sem farin verður fyrir skólalok. Í síðustu viku héldu þau vel heppnuð böll fyrir yngri nemendur skólans og undir lok þessarar viku var haldin árshátíð hjá unglingastigi skólans. Stuttmyndasýningar voru haldnar, en nemendur unglingadeildar vinna árlega handrit að stuttmyndum og búa til stuttmyndir. Ýmis verðlaun voru veitt eftir stuttmyndasýningu. Árshátíðin var með breyttu sniði vegna samkomutakmarkana. Fyrst var kvöldverður nemenda 10. bekkjar með starfsfólki og svo var haldið ball sem var bundið þeim takmörkunum að einungis 100 nemendur máttu sækja það. Því var ekki unnt að bjóða nemendum annarra skóla að þessu sinni. Ballið var samt sem áður vel heppnað, nemendur skemmtu sér vel og stóðu nemendur 10. bekkjar sig frábærlega í öllum undirbúningi og frágangi. Á dögunum fóru svo nemendur 10. bekkjar austur fyrir Vaðlaheiði og dreifðu áburði og birkifræjum og gróðursettur birkiplöntur við gangnamunna Vaðlaheiðarganga. Sjá frétt og myndir á fb síðu Vaðlaheiðarganga.
Lesa meira