Fréttir

03.06.2019

Erasmus Plus verkefni í Giljaskóla

Á vordögum 2018 hlaut Giljaskóli styrk á vegum Erasmus Plus til tveggja ára vegna þátttöku í verkefni á þeirra vegum. Umsóknin var unnin af fjórum kennurum skólans, þeim Önnu Maríu Þórhallsdóttur, Astrid Hafsteinsdóttur, Söndru Rebekku og Sigrúnu Magnúsdóttur. Verkefnið sem sótt var um sneri að þátttöku á námskeiði í þvermenningarlegri verkefnastjórnun sem haldið var á Krít dagana 7. - 12. apríl 2019. Markmið námskeiðsins var að þjálfa verkefnastjóra yfir verkefnum á vegum Erasmus Plus og var Giljaskóli eini skólinn á Íslandi sem sótti um námskeiðið að þessu sinni.
03.06.2019

GILJASKÓLI OG NAUSTASKÓLI FYRSTU RÉTTINDASKÓLARNIR Á AKUREYRI

Réttindaskóli er hugmyndafræði sem UNICEF á Íslandi heldur utan um en þar er lögð áhersla á að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Nú á vordögum hófst undirbúningur vegna innleiðingar Réttindaskóla UNICEF á Akureyri og fyrstu skólarnir sem taka þátt eru Giljaskóli og Naustaskóli. Grunnforsendur Barnasáttmálans verða útgangspunktur í allri ákvarðanatöku í skóla- og frístundastarfi Réttindaskólanna. Framundan er skemmtileg vegferð skólasamfélagsins.
29.05.2019

Fræðsluráð afhendir viðurkenningar

Fræðsluráð Akureyrarbæjar boðaði til samverustundar í Hofi, mánudaginn 27. maí, þar sem nemendum og starfsfólki leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í námi og starfi, skólaárið 2018-2019. Óskað var eftir tilnefningum frá skólasamfélaginu um nemendur, starfsfólk eða verkefni sem talin voru hafa skarað fram úr í starfi skólanna á síðasta skólaári. Valnefnd, sem skipuð var fulltrúum frá fræðsluráði, Samtökum foreldra og Miðstöð skólaþróunar við HA fór yfir allar tilnefningar og lagði fram tillögu til fræðsluráðs til samþykktar. Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs, bauð gesti velkomna og kynnti atriði frá Tónlistarskólanum en það var Árni Dagur Scheving, nemandi í Tónlistarskólanum á Akureyri, sem lék á flygil Bohemian Rhapsody eftir Freddy Mercury. Að því loknu afhenti Ingibjörg Isaksen, formaður fræðsluráðs, viðurkenningar. Að dagskrá lokinni var gestum boðið að þiggja veitingar.