Fréttir

01.12.2020

Skólahald næstu dagana

Nú hefur heilbrigðisráðherra gefið út að sóttvarnarráðstafanir verði óbreyttar til 9. desember. Við höldum því okkar fyrirkomulagi hér í Giljaskóla þangað til. Stundatöflur nemenda á unglingastigi eru aðgengilegar á heimasíðu skólans undir heimaskóli. Áfram munum við bjóða upp á mat og mjólkuráskrift fyrir nemendur í 1. - 7. bekk. Við leggjum okkur fram um að skapa gleði og góða stemningu hér í skólanum og hugum áfram vel að sóttvörnum. Saman klárum við þetta verkefni.
20.11.2020

Skólahald til og með 1. desember

Nú færumst við nær því að skólastarfið komist aftur í hefðbundið horf. Þó þurfum við að halda út aðeins lengur eða fram til 2. desember og sjá þá hver fyrirmæli sóttvarnaryfirvalda verða þá. Frá og með næsta mánudegi til og með 1. desember gerum við nokkrar breytingar á skipulaginu sem sjá má hér fyrir neðan:
20.11.2020

Giljaskóli hlýtur viðurkenningu sem réttindaskóli Unicef

Í dag, á alþjóðlegum réttindadegi barna, hlaut Giljaskóli viðurkenningu sem réttindaskóli UNICEF eftir rúmlega eins árs innleiðingarstarf. Vegna samkomutakmarkana var ekki hægt að halda upp á daginn á sal skólans eins og við hefðum helst kosið, en í staðinn var í hverjum bekk spilað stutt myndskeið með nokkrum orðum frá framkvæmdastjóra Unicef og skólastjóra. Unnin voru ýmis verkefni tengd barnasáttmálanum í öllum bekkjum. Fulltrúar nemenda í réttindaráði skólans fengu sérstaka viðurkenningu fyrir sín störf og allir árgangar fengu viðurkenningarskjal sem þeir skrifuðu undir. Loks var nemendum boðið upp á skúffuköku í tilefni dagsins. UNICEF hefur verið duglegt að deila ýmsu sniðugu frá starfinu í Giljaskóla á samfélagsmiðlum sínum en instagram reikninginn þeirra má nálgast hér. RÚV kom einnig í heimsókn og tók upp myndskeið og myndir og tók viðtöl við nokkra nemendur í réttindaráði. Við stjórnendur viljum þakka réttindaráði skólans og réttindaskólanefnd fyrir frábær störf í innleiðingarferlinu og við undirbúning þessa dags. Við gleðjumst sannarlega yfir þessum mikilvæga áfanga og vonum að starfshættir okkar munu bera merki réttindaskóla um ókomna tíð.