Stefna um nám og kennslu með upplýsingatækni í Giljaskóla

Nýting miðla og upplýsinga er skilgreind sem lykilhæfni í aðalnámskrá grunnskóla. Í Giljaskóla er lögð áhersla á að nýta tæknina með fjölbreyttum og skapandi hætti til að efla nám og kennslu. 

Stefna þessi er hluti af skólanámskrá Giljaskóla og í henni er greint frá því hvernig skólinn vinnur að markmiðum sínum um notkun upplýsingatækni í skólanum.

Stefnan skiptist í eftirfarandi fjóra áhersluþætti; 

 1. að efla nám og kennslu með upplýsingatækni 
 2. að hlúa að starfsþróun kennara
 3. að leitast við að allur búnaður sé eins og best verður á kosið. 
 4. að miðla þekkingu og stuðla að samvinnu á sviði upplýsingatækni 

 

 Að efla nám og kennslu með upplýsingatækni með því að:

 • stuðla að fjölbreytni í kennsluaðferðum og að upplýsingatæknin auki gæði og fjölbreytileika kennslu og náms.
 • notkun tækni í skólastarfi stuðli að skapandi starfi og nýsköpun.  
 • nemendur og kennarar nýti sér þá möguleika sem upplýsingatækni býður upp á í námi og kennslu. 
 • upplýsingatæknin styðji sérstaklega við nám nemenda með sérstakar þarfir í einstaklingsmiðuðu námi þeirra.
 • gæta að því að stundatöflur árganga stuðli að samkennslu og gefi tækifæri til samvinnu og uppbrots.
 • nemendur læri um netöryggi, samskipti á netinu, hætturnar sem fylgja stafrænum heimi og leikreglur á netinu.

 

Að hlúa að starfsþróun kennara með því að:

 • skapa tækifæri til að kennarar og annað starfsfólk geti lært saman (á dagvinnutíma og utan hans).
 • kennarar njóti fræðslu og stuðnings til að geta nýtt sér upplýsingatækni til kennslu. 
 • bjóða upp á skipulögð námskeið á skólatíma fyrir kennara og annað starfsfólk.
 • hvetja kennara og stjórnendur til að sækja námskeið í upplýsingatækni og skapa til þess svigrúm. 

 

Að leitast við að allur búnaður uppfylli þær gæðakröfur sem gerðar eru til hans og endurspegli þörf nemenda og kennara til að vinna með þá tækni sem nýtist skólastarfi með því að: 

 • stuðla að því að tækniumhverfi Giljaskóla bjóði upp á valkosti hvað varðar tækjabúnað. 
 • stjórnendur, kennsluráðgjafi og kennarar fylgist með nýjungum á sviði upplýsingatækni og kynni samstarfsfólki þegar svo ber undir.
 • þráðlaust net skólans geti annað öllum tækjum skólans og sé það öflugt að tengingin sé ekki hamlandi fyrir rafrænt skólastarf.
 • aðgengi kennara að búnaði sé með þeim hætti að það styðji vel við framþróun í skólastarfi. 
 • kennarar og nemendur hafi gott aðgengi að þeim búnaði sem nýtist í námi og kennslu. 

 

Að stuðla að miðlun þekkingar og samvinnu á sviði upplýsingatækni með því að: 

 • gefa tíma á skipulögðum fundartíma til að skapa umhverfi til samvinnu og fræðslu milli kennara.

 • taka virkan þátt í jafningjafræðslu og stuðningi í skólasamfélaginu í Eyjafirði, m.a. í gegnum #Eymennt. 

 • halda menntabúðir fyrir foreldra þar sem sú tækni sem notuð er í skólanum til náms og kennslu er kynnt.