Áfallahjálp

Í Giljaskóla hefur verið sett saman aðgerðaráætlun sem tekur til margvíslegra áfalla og gerir áfallateymi mögulegt að bregðast hratt og fumlaust við þegar áföll verða, bæði í upphafi og með eftirfylgd. Áætlunin tekur til áfalla sem nemandi, starfsmaður, forráðamenn eða systkini nemanda verða fyrir til dæmis af völdum:  

  • Dauðsfalla  
  • Slysa  
  • Alvarlegra og/eða langvarandi veikinda  
  • Eineltis, sjá sérstaka áætlun gegn einelti  
  • Annars sem samkvæmt mati áfallateymis veldur áfalli.

Áfallateymi

Við skólann starfar áfallateymi sem skipuleggur áfallahjálp meðal nemenda og starfsfólks skólans, lagar viðbrögð að aðstæðum hverju sinni og fer síðan yfir reynsluna til að læra megi af henni. Í áfallateymi/aðgerðateymi eru skólastjórnendur og námsráðgjafi. Hlutverk starfsmanna í áfallateymi er að sinna fyrstu skrefum í sálrænum stuðningi, hlusta og sýna hluttekningu, vísa á aðila sem leita má til og í einhverjum tilvikum að fylgja einstaklingi fyrstu skrefin í lausnaleit. Allir starfsmenn hafa það hlutverk að styðja við samstarfsmenn og nemendur í vanda, sé eftir því leitað, en hið formlega hlutverk liggur hjá starfsmönnum áfallateymis. 

Einstaklingar geta leitað til starfsmanna í áfallateymi vegna eigin vanlíðunar eða til að benda á samstarfsmenn eða nemendur sem þeir hafa áhyggjur af. 

Aðgerðaáætlun við áföllum í Giljaskóla má finna hér.