Réttindaskóli UNICEF

Jafnrétti, lýðræði og mannréttindi eru grunnþættir menntunar. Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær.

Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.

Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

Giljaskóli var valinn sem Réttindaskóli UNICEF vorið 2019. Með því skuldbinda starfsmenn skólans sig til að leggja áherslu á að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.  

Réttindaskólar byggja á eftirfarandi grunnforsendum:

  • Þekking á réttindum barna

  • Barna- og ungmennalýðræði

  • Eldmóður fyrir réttindum barna

  • Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi

  • Samstarf með hliðsjón af réttindum barna

Grunnforsendur Barnasáttmálans verða útgangspunktur í allri ákvarðanatöku í skóla- og frístundastarfi Réttindaskólanna. Réttindaskólar njóta handleiðslu UNICEF við innleiðinguna og starfandi verður stýrihópur innan skólans. 

Heimasíða Réttindaskóla UNICEF

Greinagerð vegna innleiðingar Réttindaskóla UNICEF í Giljaskóla

Tenglar á fréttir af heimasíðu :

Réttindaskóli UNICEF

Heimsókn bæjarfulltrúa

Aðgerðaáætlun