Samskipti foreldra og kennara

Umsjónarkennari er í samskiptum við foreldra um mál er snerta einstaka nemendur, heimanám, ástundun og annað sem eingöngu snýr að starfi bekkjarins. Boðið er upp á formleg foreldraviðtöl tvisvar á skólaárinu, í lok október eða byrjun nóvember og í lok janúar eða byrjun febrúar. Koma foreldrar og nemendur þá í skólann á fund umsjónarkennara.  Umsjónarkennari og foreldrar hafa einnig samband símleiðis, með tölvupósti eða hittast eftir atvikum á fundi í skólanum.  

Í upphafi skólaársins er starfsáætlun skólans og starfið í hverjum bekk kynnt á svo kallaðri námskynningu. Aðrir fundir kunna að verða þar sem rætt er um ákveðin málefni.   

Þurfi foreldri að ná sambandi við kennara er hægt að senda tölvupóst og óska eftir fundi. Einnig geta foreldrar hringt á skrifstofu skólans og lagt fyrir skilaboð um að kennari hringi í sig. Kennari hringir að jafnaði eftir kennslu dagsins ef því verður við komið.  

Kennari svarar tölvupósti foreldra eins fljótt og því verður við komið. Foreldrar geta ekki gengið að því vísu að tölvupóstur sem þeir senda kennara verði lesinn samdægurs eða fyrir upphaf næsta skóladags. 

Foreldrar eru beðnir um að hringja ekki í kennara utan dagvinnutíma, nema brýna nauðsyn beri til.  

Mentor (mentor.is) er upplýsingasíða skólans fyrir foreldra. Kennarar senda upplýsingar um starfið í föstudagspóstum til foreldra. Heimasíða skólans er fyrst og fremst upplýsinga- og fréttasíða skólans fyrir foreldra. List- og verkgreinar eru með sínar eigin upplýsingasíður á Instagram, slóðirnar má finna á heimasíðu Giljaskóla. Facebooksíður einstakra bekkjardeilda eða árganga eru nokkrar. Þær nýtast helst til að koma myndum og upplýsingum af ýmsu tagi fljótt milli foreldra.  

Foreldrar eiga að geta sinnt flestum erindum sínum við skólann í gegnum Mentor. Foreldrar geta, í samráði við kennara, heimsótt skólann og fengið að taka þátt í skólastarfinu. Foreldrum er boðið á ýmsar skemmtanir eða viðburði. Sérstök fræðsla um skólamál er fyrir foreldra yngstu barnanna, vorið áður en skólaganga hefst og á fyrsta skólaárinu. Skólaráð fundar reglulega með skólastjórnendum. Starf foreldrafélags og bekkjarfulltrúa er skipulagt af foreldrafélagi. 

Ágreiningsmál

Ef foreldrum þykir eitthvað athugavert í starfi skólans skulu þeir ræða við viðkomandi kennara, ef það leysir ekki vandann þá við deildarstjóra viðkomandi stigs og síðan skólastjórnendur. Ef um er að ræða ágreining við skólann skal ræða við sviðsstjóra fræðslusviðs Karl Frímannsson að Glerárgötu 26. Foreldrar geta einnig aflað upplýsinga um ýmislegt er varðar uppeldi og menntun hjá landssamtökunum Heimili og skóli. Samtökin gefa m.a. út tímarit og ýmiskonar efni um foreldrasamstarf. Veffang: http://www.heimiliogskoli.is/