Nýir nemendur

Móttaka nýrra nemenda
Að vori er verðandi 1. bekkjar nemendum úr leikskólum bæjarins boðið í kynnisferð um skólann. Fulltrúar frá Giljaskóla hitta einnig leikskólakennara til að fræðast um nemendur. Skólinn fær skriflegar upplýsingar með nemendum í samráði við foreldra. Að auki er nemendum boðið í skólann ásamt foreldrum (í maí sama ár og skólaganga hefst). Foreldrum er kynnt skólastarfið og Frístund á meðan eldri nemendur skólans fylgja nýnemum um húsnæðið og kynna þeim aðstæður. Nemendur ljúka heimsókninni með samverustund í Frístund þar sem þeir vinna verkefni.
Að hausti eru foreldrar og nemendur boðaðir í viðtal til verðandi umsjónarkennara.
Haldinn er fræðslufundur fyrir foreldra í fyrsta bekk að hausti þar sem m.a. er boðið upp á súpu og brauð.
Fyrstu tveir skóladagarnir eru jafnan í styttra lagi og nemendum kynnt ýmislegt sem fylgir því að verða grunnskólanemandi. Foreldrar meta sjálfir hversu lengi þeir fylgja barni sínu eftir í skólann þessa fyrstu daga.
Umsjónarkennari ræðir við forráðamenn annarra nýrra nemenda sem koma í skólann. Hann fylgist með líðan nemandans og aflar upplýsinga frá fyrri skóla og foreldrum m.a. um námsgengi og félags- og tilfinningaþroska.
Ef um er að ræða nemanda með skilgreinda fötlun er fundað að vori með starfsmönnum skólateymis og foreldrum viðkomandi nemanda til undirbúnings skólagöngu.
Bekkjarfélögum er gerð grein fyrir fötluninni í samráði við foreldra barnsins.