Áætlun gegn einelti

Stefnuyfirlýsing Giljaskóla um eineltismál
Starfsfólk Giljaskóla lýsir því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi er liðið í skólanum. Leitað er allra leiða til að fyrirbyggja einelti og áhersla lögð á að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Giljaskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af umhyggju, ábyrgð og lífsgleði. Stefnt að því að nemendur læri að setja sig í spor annarra, sýna umburðarlyndi og bera virðingu fyrir öðrum.

Hvað er einelti?
Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á öðrum, sem á erfitt með að verjast. Einelti getur birst í ýmsum myndum þótt algengast sé að flokka það í tvo flokka, andlegt og líkamlegt.

 

Einelti getur verið:

 • Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar eða skemmdarverk
 • Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni
 • Skriflegt: tölvuskeyti, sms–skilaboð, bloggsíðuskrif, krot og bréfasendingar
 • Óbeint: baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi
 • Efnislegt: eigum barnsins stolið eða þær eyðilagðar
 • Andlegt: þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

Einelti er ofbeldi sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér bæði fyrir þolanda og geranda. Andlegt ofbeldi, eða áreiti, hefur oft verri afleiðingar í för með sér en líkamlegt. Einelti hefur iðulega alvarleg áhrif á nám, líðan og félagsþroska einstaklinga.

Aðgerðateymi

Aðgerðateymi hefur umsjón með og sinnir faglegri forystu í eineltismálum innan skólans og veitir kennurum, nemendum og foreldrum leiðsögn.

Í aðgerðateymi eru:

 • Skólastjóri
 • Aðstoðarskólastjóri
 • Deildarstjóri
 • Skólaráðgjafi/sálfræðingur
 • Námsráðgjafi


Eineltisáætlun Giljaskóla