Markmið: Að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri sýn nemenda á lífið og vinna gegn hvers kyns sjálfseyðandi hegðun.
Námsráðgjafi skólans gegnir hlutverki forvarnarfulltrúa. Forvarnarfulltrúi skipuleggur forvarnarstarf skólans og hefur yfirumsjón með því. Hann sér um að forvarnaráætlun sé framfylgt, er virkur í gagnasöfnun og dreifir þeim upplýsingum sem við á. Hann aðstoðar starfsfólk við samþættingu forvarna við annað skólastarf, s.s. kennslu, félagslíf o.fl. Hann vinnur og endurmetur stefnumörkun skólans í forvörnum og sér um neyslu- og viðhorfskönnun meðal nemenda. Forvarnarfulltrúi tekur þátt í að samstilla krafta þeirra sem vinna gegn áfengis- og fíkniefnaneyslu í umhverfi nemenda. Hann er í nánu samstarfi við tengilið félagsmiðstöðva bæjarins og grípur inn í mál nemenda þar sem íhlutunar er þörf og stýrir því í farveg til réttra aðila. Forvarnarfulltrúi gætir fyllsta trúnaðar. Hann stýrir forvarnarneti sem skal myndað af kennurum, skólastjórnendum, foreldrum, skólahjúkrunarfræðingi, félagsþjónustu, forvarnarfulltrúa Akureyrarbæjar, lögreglu, skólaskrifstofu og kirkju.
Forvarnir eru einnig á hendi umsjónarkennara. Umfjöllun meðal yngstu nemendanna (1.-5. bekk) skal miðast við heilsufræði og heilsueflingu. Umfjöllun meðal eldri nemenda (6.-10. bekk) skal miðast við áhrif og skaðsemi hinna ýmsu fíkniefna bæði andlega, líkamlega og félagslega svo og menningarlega þætti sem tengjast neyslu. Fræðsla fyrir nemendur fer einkum fram í lífsleiknikennslu þar sem áhersla er lögð á að efla félags-, tilfinninga-, persónu- og siðgæðisþroska nemenda. Nemendum skal kynnt hvert hægt sé að leita ef þeir þurfa á aðstoð að halda.
Forvarnaráætlun Akureyrarbæjar
Akureyrarbær hefur sett saman Velferðaráætlun forvarna 2013-2015. Forvarnastefna Akureyrarbæjar miðar að því að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna og tryggja uppeldisskilyrði þeirra. Mikilvægt er að líta á forvarnir í víðu samhengi. Foreldrar gegna lykilhlutverki í forvörnum og því er mikilvægt að ná til þeirra og styðja þá í hlutverki sínu. Akureyrarbær styrkir og veitir börnum og ungmennum fjölbreytta þjónustu. Æskilegt er að ná sem mestri samvinnu um forvarnir við alla sem vinna með börnum og ungmennum. Til þess að forvarnir skili árangri þarf starfið að vera markvisst og faglegt.
Aðgerðaáætlun forvarnastefnu er ætlað að styðja við þá aðila sem vinna með börnum og ungmennum. Aðgerðaáætlun felur í sér almennar og sértækar aðgerðir og endurspeglar þær áherslur sem lagaðar eru í forvarnamálum.
Leiðarljós forvarnastefnu Akureyrarbæjar:
- Foreldrar gegna lykilhlutverki
- Jákvæð og sterk sjálfsmynd - virðing fyrir sjálfum sér og öðrum
- Heilbrigðir lífshættir - heilsueflandi samfélag
- Greiður aðgangur að íþrótta-, lista- og tómstundastarfi
Forvarna- og félagsmálaráðgjafar á vegum Rósenborgar bera ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd forvarna- og félagsmiðstöðvastarfs fyrir börn og unglinga í samræmi við markaða stefnu í forvarnamálum á hverjum tíma. Ráðgjöfunum er ætlað að sinna almennu og sértæku forvarnastarfi í nánu samstarfi við grunnskólana og aðra sem koma að málum barna og unglinga s.s. félagsþjónustu og barnavernd. Þannig að hver grunnskóli hefur sinn forvarna- og félagsmálaráðgjafa sem tengilið og náinn samstarfsmann. Forvarna- og félagsmálaráðgjafar Rósenborgar mynda með sér forvarnateymi sem hefur yfirsýn yfir stöðu mála.
Foreldrar gegna lykilhlutverki
Að búa börn og ungmenni undir lífið er mikið ábyrgðarhlutverk og eru foreldrar mikilvægustu mótunaraðilar barna sinna. Þeir gegna lykilhlutverki í öllu forvarnastarfi.
Foreldrar eru börnum fyrirmynd um hegðun, hvort sem þeir eru meðvitaðir um það eða ekki. Þetta á bæði við um það sem þeir segja og gera. Foreldrar hafa mest áhrif á líf og líðan barna sinna og eru mikilvægustu leiðbeinendur þeirra. Grunnurinn að heilbrigðum lífsháttum er lagður strax við upphaf lífsgöngu en bíður ekki unglingsáranna. Góð tengsl, umhyggja og aðhald frá foreldrum minnka líkur á að unglingar leiðist út í óæskilega hegðun.
Að kaupa áfengi fyrir unglinga og virða ekki útivistartímann eru slæm skilaboð til barna okkar.
Akureyrarbær leggur áherslu á fræðslu og ráðgjöf til foreldra í uppeldismálum til að efla og styrkja fjölskylduna. Jafnframt að treysta enn frekar samvinnu heimila, skóla og frístundastarfs.
Jákvæð og sterk sjálfsmynd – virðing fyrir sjálfum sér og öðrum
Sterk sjálfsmynd einstaklings hefur áhrif á breytni hans. Því er mikilvægt að börn og ungmenni hafi jákvæða og sterka sjálfsmynd. Börnum og ungmennum er mikilvægt að vera örugg með sjálf sig og geta tekið gagnrýni og hrósi því það auðveldar þeim að takast á við lífið. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi sjálfsvirðingar. Sterk sjálfsmynd barna og ungmenna hefur jákvæð áhrif á hegðun þeirra, líðan, námsárangur og tómstundaþátttöku. Því er mikilvægt að allt samfélagið beri þá ábyrgð að leggja sitt af mörkum til að efla sjálfsmynd og sjálfsvirðingu barna og ungmenna.
Í Giljaskóla nýtum við Uppbyggingarstefnuna til að vinna að þessum þáttum.
Börnum og ungmennum þarf að standa til boða leiðsögn og fræðsla þar sem lögð er áhersla á að þjálfa þau í að takast á við erfiðleika og þekkja eigin tilfinningar. Góðar fyrirmyndir skipta miklu máli þegar kemur að því að leiðbeina börnum og ungmennum að virða fjölbreytileika mannlífsins og sérstöðu hvers og eins. Einelti er samfélagsmein sem ber að vinna gegn. Þannig verður samfélagið sterkara og færara um að hlúa sérstaklega að þeim sem með einum eða öðrum hætti standa höllum fæti.
Lesa má um þessar velferðaráætlanir á vef Akureyrarbæjar:
Velferðaráætlun forvarna 6-9 ára
http://www.akureyri.is/static/files/Rosenborg/Forvarnir/6-9-ara.pdf
Velferðaráætlun forvarna 10-12 ára
http://www.akureyri.is/static/files/Rosenborg/Forvarnir/10-12-ara.pdf
Velferðaráætlun forvarna 13-15 ára
http://www.akureyri.is/static/files/Rosenborg/Forvarnir/13-15-ara.pdf