Heilsuvernd skólabarna í Giljaskóla er á vegum HSN Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Heilsuvernd grunnskólabarna | Heilbrigðisstofnun Norðurlands (hsn.is)
Skólahjúkrunarfræðingur er Helga María Hermannsdóttir.
Netfang: helgam@giljaskoli.is
Viðverutími:
mánudaga: 8-14:30 þriðjudaga 8-13 miðvikudaga 8-14 fimmtudaga 8-12:30
Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd.
Markmiðið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk
heilsuverndar skólabarna vinnur í náinni samvinnu við foreldra, skólastjórnendur, kennara
og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi. Farið er með
allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þjónusta heilsuverndar skólabarna er skráð í rafræna
sjúkraskrá heilsugæslunnar.
Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar.
Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu og Embættis
landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna. Heilsuvernd skólabarna (throunarmidstod.is)
Heilbrigðisfræðsla
Skipulögð heilbrigðisfræðsla er veitt í öllum árgöngum og er áherslan á að hvetja til
heilbrigðra lífshátta. Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar í tölvupósti um fræðsluna. Þá gefst
þeim kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig hægt er að nýta það í
daglegu lífi.
1. bekkur – ‚Líkaminn minn‘ - Forvörn gegn kynferðislegu ofbeldi og Hjálmanotkun
2. bekkur – Tilfinningar
3. bekkur – Verkefnabók um 6H heilsunnar (Hamingja, Hollusta, Hreinlæti, Hreyfing, Hvíld)
4. bekkur – Kvíði og Slysavarnir
5. bekkur – Samskipti
6. bekkur – Kynþroski og Endurlífgun
7. bekkur – Endurlífgun og Bólusetningar
8. bekkur – Líkamsímynd og Hugrekki
9. bekkur – Kynheilbrigði og Bólusetning
10. bekkur – Geðheilbrigði, Endurlífgun og Ábyrgð á eigin heilsu
Markmið hverrar fræðslu eftir árgöngum er hægt að sjá á Heilsuveru.
Skimanir
Skimað er fyrir ákveðnum heilbrigðisvandamálum og eru skimanir framkvæmdar í 1., 4., 7.
og 9. bekk. Þær felast í mælingu á hæð, þyngd og sjónskerpu. Nemendur í öðrum árgöngum
eru skimaðir eftir þörfum. Ef frávik reynist í skimun er ávallt haft samband við forráðamann.
Heilsueflandi viðtöl um lífsvenjur og líðan
Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk ræðir skólahjúkrunarfræðingur við nemendur
um líðan og lífsvenjur. Markmið viðtalanna er að styrkja vitund nemenda um eigið heilbrigði
og líðan. Einnig að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur.
Bólusetningar
Bólusetningum er ætlað að verja einstaklinginn gegn alvarlegum smitsjúkdómum.
Í 7. bekk er bólusett við mislingum-Mislingar | Heilsuvera, hettusótt-Hettusótt | Heilsuvera og rauðum hundum-Rauðir hundar | Heilsuvera (ein sprauta) og HPV (Human papiloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini. HPV bólusetning er gefin tvisvar með 6 mánaða millibili.
Í 9. Bekk er bólusett við barnaveiki-Barnaveiki | Heilsuvera, stífkrampa-Stífkrampi | Heilsuvera, kíghóstaKíghósti | Heilsuvera- og mænusótt-Mænusótt | Heilsuvera (ein sprauta).
Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til foreldra með upplýsingum um tímasetningu. Gott er að nemendur komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning fer fram.
Hafið samband við skólahjúkrunarfræðing ef:
• Nánari upplýsinga er óskað
• Talið er að barn sé ekki að fullu bólusett
• Óskað er eftir því að barn sé ekki bólusett
Það er á ábyrgð foreldra að láta bólusetja börn sín.
Hagnýtar upplýsingar
Veikindi og slys
Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp. Þurfi nemandi að
fara á heilsugæsluna eða slysadeild skulu foreldrar fara með barninu. Því er mikilvægt að
skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í þá á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til
að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af heilsuvernd skólabarna.
Langveik börn
Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingur viti af börnum sem eru með fötlun eða langvinnan
og/eða alvarlegan sjúkdóm, s.s. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki, blæðingarsjúkdóma eða aðra
alvarlega sjúkdóma. Þessum börnum sinnir heilsuvernd skólabarna í samráði við foreldra.
Lyfjagjafir - Samkvæmt tilmælum landlæknis um lyfjagjafir í grunnskólum eru sérstakar
vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Dreifibréf Nr. 7/2010. Lyfjagjafir í grunnskólum (landlaeknir.is)
Höfuðlús
Höfuðlús birtist reglulega í skólum landsins og er mikilvægt að foreldrar kembi hár barna
sinna reglulega yfir skólaárið. Rétt er að láta skólann vita ef lús finnst í hári barns og
skólahjúkrunarfræðingur getur leiðbeint varðandi lúsasmit - Höfuðlús | Heilsuvera