Foreldrasamstarf

Hlutverk grunnskólans er í samvinnu við heimilin að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Samstarf heimila og skóla sem byggist á gagnkvæmri virðingu og trausti, samábyrgð og góðri upplýsingamiðlun stuðlar að velferð nemenda. Starfsfólk skóla og foreldrar þurfa að leitast við að vera nemendum góðar fyrirmyndir.

Skólinn leggur grunn að samstarfi heimilis og skóla frá upphafi skólagöngu. Heimili og skóli vinna í sameiningu að þroska og velferð barna. Mikilvægt er að kennarar og foreldrar beri gangkvæmt traust hver til annars og geti rætt í trúnaði um málefni barnsins.  Með góðu samstarfi aflar kennari upplýsinga um hæfileika barns, skapgerðareinkenni og áhugamál.  Foreldrar kynnast innviðum skólastarfsins og eru betur í stakk búnir til þess að taka virkan þátt í námi barnsins. Slíkt stuðlar að meira öryggi og vellíðan barna og foreldra og þar með betri árangri í námi og velgengni í starfi. Niðurstöður rannsókna sýna fram á ótvíræða fylgni góðs gengis nemenda í skóla og samstarfs heimilis og skóla.