Sýn skólans og áherslur í skólastarfi

Sýn Giljaskóla tekur mið af því hvað kemur einstaklingi best að tileinka sér til að ná góðum árangri í lífinu. Metnaður, víðsýni og ábyrgð eru undirstaða góðs námsárangurs en virðing, lífsgleði og kærleikur höfða til félags- og tilfinningaþroska sem er nauðsynlegur fyrir farsæl samskipti í leik og starfi. Þessi sex lífsgildi eru notuð við ýmis tækifæri og unnið út frá þeim í daglegu starfi. Merki skólans hefur verið útfært á fána, veggspjöld og bréfsefni til að nemendur, starfsmenn og gestir hafi þau fyrir augum. Lífsgildin eiga að sjást í vinnubrögðum og viðmóti starfsmanna, viðfangsefnum nemenda, vinnubrögðum og hegðun nemenda innan sem utan skólans og samskiptum milli nemenda, kennara og foreldra.

Slagorð skólans: „Gerum okkar besta” endurspeglar þá afstöðu að við viljum læra og breytast, gera mistök að sjálfsögðu, en ætíð með viðmiðið um að gera betur en áður. Við þurfum ekki að gera betur en aðrir, heldur betur en við höfum sjálf gert hingað til.

Sú menntastefna sem birt er í aðalnámskrá grunnskóla 2011 er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eru leiðarljós við námskrárgerðina. Grunnþættirnir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. 

Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það. Hugmyndirnar að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir skulu vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða. Þótt grunnþættirnir séu samtvinnaðir hefur hver þeirra sín sérkenni.

Áherslur í Giljaskóla eru reistar á grunnþáttum menntunar. Flestar áherslur má fella undir fleiri en einn grunnþátt og mörg þeirra undir hvern þeirra sem er.