Sýn skólans

Sýn skólans - úr skólanámskrá

Stefna Giljaskóla„Skilvirkni skóla snýst um mun fleira en háar einkunnir. Nám og áhugi á námi; persónuþroski og sjálfsmynd; lífsleikni; greining á vandamálum; námstækni; sjálfstæð og skapandi hugsun; siðferðilegur styrkur og metnaður; allt skiptir þetta jafn miklu eða meira máli fyrir velgengni heldur en góðar einkunnir í hefðbundnum námsgreinum.  (McGaw o.fl., 1992). Sýn Giljaskóla tekur mið af því hvað kemur einstaklingi best að tileinka sér til að ná árangri í lífinu. Skólinn vill, í góðu samstarfi við foreldra, stuðla að því að nemendur hans nái árangri í námi á öllum skólastigum, efli siðferðilegan styrk og metnað, eigi farsæl samskipti við samferðamenn, vini, og fjölskyldumeðlimi og njóti sín í þeim störfum sem þeir taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Til að ná góðum árangri leggjum við sérstaka áherslu á þessi lífsgildi:

Metnaður – Víðsýni – Ábyrgð – Virðing – Lífsgleði – Kærleikur

Fyrri þrjú lífsgildin höfða meira til hefðbundins náms og starfsaga en síðari þrjú til samskipta, félags- og tilfinningaþroska og ræktunar heilbrigðra lífsskoðana. Til að undirbyggja góðan námsárangur þarf Metnað, Víðsýni og Ábyrgð. Metnað til að gera vel og nýta hæfileika sína. Víðsýni til að skilja og taka tillit til annarra einstaklinga og virða ólíkar hefðir og menningu. Maður þarf að axla ábyrgð á eigin vinnu og framkomu en kenna ekki öðrum einstaklingum eða aðstæðum um það sem miður fer.Enginn nær árangri ef honum líður illa. Til að tryggja vellíðan og öryggi leggjum við því áherslu á Virðingu, Lífsgleði og Kærleika. Ef samskipti mótast af kærleika og virðingu er skapaður jarðvegur til að hver og einn geri sitt besta og geti notið þess að þroskast og læra. Það á ekki síður við um starfsmenn og þá sem fullorðnir eru en börnin sem eru að byrja í skólanum. Glaður skóli er góður skóli. Við gerum öll mistök en við verðum að fyrirgefa þau og láta lífsgleði lita dagleg samskipti. Án gleði nýtist ekki orkan sem í okkur býr. Lífsglaður einstaklingur blómstrar hins vegar og nýtir getu sína til fulls. Giljaskóli er að feta sig í þessa átt. Lífsgildin eiga að endurspeglast í vinnubrögðum og viðmóti starfsmanna, viðfangs­efnum nemenda, vinnubrögðum og hegðun nemenda innan sem utan skólans og samskiptum milli nemenda, kennara og foreldra. Við látum nemendur fjalla um lífsgildin, rannsaka þau og skilja. Einkunnarorðin „Gerum okkar besta“ endurspegla viljann til að læra og breytast, gera að sjálfsögðu mistök, en ætíð með viðmiðið um að gera betur en áður. Ekki að gera betur en aðrir, heldur betur en við höfum sjálf gert hingað til.

Starfsviðmið

Til að auka líkur á góðu samstarfi starfsmanna eru eftirfarandi viðmið sett á blað. Þeim er ætlað að vera áminning til allra um eigið mikilvægi við að styrkja starfsmannahópinn. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkur hennar og styrkleiki skólans er undir því kominn að hver og einn geri sitt besta í að byggja upp hópinn með því að vera hvetjandi og bjartsýnn.

Við erum:

 1. hreinskilin en jafnframt tillitssöm;virk í umræðum, gagnorð og reynum að skilja röksemdir og  skoðanir annarra;
 2. einbeitt við að fylgja eftir sameiginlegum ákvörðunum;
 3. reiðubúin að læra af mistökum okkar;
 4. sannfærð um að ná megi góðum árangri þótt stundum kunni að miða hægt;
 5. hvetjandi og látum eigið viðmót og vinnubrögð endurspegla trú á nemendur, foreldra og starfsmenn;
 6. tilbúin að fyrirgefa hverju öðru og sjálfum okkur ef við gerum mistök;
 7. ekki ásakandi gagnvart nemendum, foreldrum, kennurum, stjórnendum eða yfirvöldum heldur leitum nýrra og betri leiða í samstarfi við þá;
 8. gefandi og fundvís á stóra og smáa hluti sem má þakka og hrósa fyrir;
 9. jákvæð og bjartsýn þegar við ræðum við aðra um starfsmenn og skólann;
 10. fyrst og síðast með þarfir nemenda í fyrirrúmi;
 11. reiðubúin að breyta eigin viðhorfum og vinnubrögðum til að hafa áhrif á líðan og árangur nemenda sem og okkar sjálfra;
 12. einstaklingar sem læra og þar af leiðandi skóli sem lærir.
Framangreint lýsir áherslum skólans og jafnframt kröfum sem til starfsmanna eru gerðar. Margar leiðir geta eflt félagslega jafnt sem námslega stöðu nemenda og ekki dugir að velja einhverja eina. Starfsmenn þurfa að vera námfúsir og leitandi til að árangur verði betri frá einu ári til annars. Ekki síður þurfa þeir að vera styðjandi og hvetjandi í sínum hópi. Mistök, vonbrigði og ágreiningur eru hluti af þroskaferli hópsins og leit að betri leiðum en mega ekki skapa óeiningu og draga úr trú á að bæta megi árangur allra.Til allra starfsmanna eru gerðar þær kröfur að þeir skilji og styðji þessa sýn Giljaskóla og leggi sig fram um að verða virkur hluti af öflugri liðsheild sem veit hvað skiptir máli.·         „Skólar ofbjóða stundum þekkingarþrá og skilningsgáfu barna og unglinga, viljalífi þeirra og vinnuþrótti, á líkan hátt og meltingarfærum líkamans er misboðið með of mikilli fæðu, eða illmeltanlegu, næringarlitlu hrati. Meginið af því, sem kennt er í skólunum, gleymist fljótt og hefir litla þýðingu fyrir lífið. Þýðingarmesta nám mannsins er sjálfsrækt þess, sem í honum býr. Að leiðbeina við þá sjálfsrækt er þýðingarmesta hlutverk skólanna.“(Sigurjón Friðjónsson, Skriftamál einsetumannsins, 1929)