Foreldrasamstarf

Foreldrum og skóla ber að hafa samstarf samkvæmt grunnskólalögum, Lög um grunnskóla nr. 91/2008. Um þetta má m.a. lesa í 2. gr., 18. gr. og 19. gr.

Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi barna sinna og ber að sjá til þess að þau séu móttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn annast. Hlutverk grunnskólans er í samvinnu við heimilin að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.

Í samvinnu við heimilin skal skólinn leggja áherslu á að efla siðferðisvitund og ábyrga hegðun nemenda. Skapa þarf jákvæðan starfsanda og leysa mál friðsamlega, af umburðarlyndi og virðingu við alla sem eiga í hlut. Samstarf heimila og skóla sem byggist á gagnkvæmri virðingu og trausti, samábyrgð og góðri upplýsingamiðlun stuðlar að velferð nemenda. Starfsfólk skóla og foreldrar þurfa að leitast við að vera nemendum góðar fyrirmyndir.

Skólinn leggur grunn að samstarfi heimilis og skóla frá upphafi skólagöngu. Heimili og skóli vinna í sameiningu að þroska og velferð barna. Mikilvægt er að kennarar og foreldrar beri gangkvæmt traust hver til annars og geti rætt í trúnaði um málefni barnsins.  Með góðu samstarfi aflar kennari upplýsinga um hæfileika barns, skapgerðareinkenni og áhugamál. Foreldrar kynnast innviðum skólastarfsins og eru betur í stakk búnir til þess að taka virkan þátt í námi barnsins. Slíkt stuðlar að meira öryggi og vellíðan barna og foreldra og þar með betri árangri í námi og velgengni í starfi. Niðurstöður rannsókna sýna fram á ótvíræða fylgni góðs gengis nemenda í skóla og samstarfs heimilis og skóla.

Samskipti foreldra og kennara

Umsjónarkennari er í samskiptum við foreldra um mál er snerta einstaka nemendur, heimanám, ástundun og annað sem eingöngu snýr að starfi bekkjarins.  Boðið er upp á formleg foreldraviðtöl tvisvar á skólaárinu, í lok október eða byrjun nóvember og í lok janúar eða byrjun febrúar. Koma foreldrar og nemendur þá í skólann á fund umsjónarkennara.  Umsjónarkennari og foreldrar hafa einnig samband símleiðis, með tölvupósti eða hittast eftir atvikum á fundi í skólanum.  

Í upphafi skólaársins er starfsáætlun skólans og starfið í hverjum bekk kynnt á svo kallaðri námskynningu. Aðrir fundir kunna að verða þar sem rætt er um ákveðin málefni.   

Þurfi foreldri að ná sambandi við kennara er hægt að senda tölvupóst og óska eftir fundi. Einnig geta foreldrar hringt á skrifstofu skólans og lagt fyrir skilaboð um að kennari hringi í sig. Kennari hringir að jafnaði eftir kennslu dagsins ef því verður við komið.  

Kennari svarar tölvupósti foreldra eins fljótt og því verður við komið. Foreldrar geta ekki gengið að því vísu að tölvupóstur sem þeir senda kennara verði lesinn samdægurs eða fyrir upphaf næsta skóladags. 

Foreldrar eru beðnir um að hringja ekki í kennara utan dagvinnutíma, nema brýna nauðsyn beri til.  

Námfús (namfus.is) er upplýsingasíða skólans fyrir foreldra. Kennarar senda upplýsingar um starfið í föstudagspóstum til foreldra. Heimasíða skólans er fyrst og fremst upplýsinga- og fréttasíða skólans fyrir foreldra. List- og verkgreinar eru með sínar eigin upplýsingasíður á Instagram, slóðirnar má finna á heimasíðu Giljaskóla. Facebooksíður einstakra bekkjardeilda eða árganga eru nokkrar. Þær nýtast helst til að koma myndum og upplýsingum af ýmsu tagi fljótt milli foreldra.  

Foreldrar eiga að geta sinnt flestum erindum sínum við skólann í gegnum Námfús. Foreldrar geta, í samráði við kennara, heimsótt skólann og fengið að taka þátt í skólastarfinu. Foreldrum er boðið á ýmsar skemmtanir eða viðburði. Sérstök fræðsla um skólamál er fyrir foreldra yngstu barnanna, vorið áður en skólaganga hefst og á fyrsta skólaárinu. Skólaráð fundar reglulega með skólastjórnendum. Starf foreldrafélags og bekkjarfulltrúa er skipulagt af foreldrafélagi. 

Foreldrafélagið
Hlutverk foreldrafélaga er að vera samstarfsvettvangur foreldra m.a. til þess að efla tengsl heimila og skóla, veita upplýsingar og fræðslu og byggja upp félagsstarf í bekkjardeildum. Foreldrafélagið er með pósthólf á skrifstofu skólans og geta foreldrar komið erindum til félagsins þangað. Félagið stuðlar að virkri starfsemi í bekkjarráðum, skilgreinir og samræmir hlutverk bekkjarfulltrúa þannig að allir foreldrar taki þátt í starfi með börnunum og sér til þess að bekkjarfulltrúar ásamt kennara fylgi foreldrasamstarfinu eftir milli árganga. . Að hausti skrifa foreldrar sig fyrir verkefni sem þeir bera ábyrgð á. Hver bekkur hefur möppu fyrir foreldrasamstarfið sem inniheldur m.a. hugmyndabanka yfir möguleg verkefni, góðar greinar og ráð um uppeldismál, nafnalista og heimilisföng yfir nemendur og aðstandendur, bekkjarfulltrúa og skiptingu verkefna fyrir veturinn.

Foreldraráð
Foreldraráð starfar í samræmi við grunnskólalög. Hlutverk þess er að fjalla um atriði sem varða innra starf skólans fylgjast með skólanámskrá og öðrum áætlunum skólans, að þeim sé framfylgt og þær kynntar foreldrum. Foreldraráð fundar með skólastjórnendum nokkrum sinnum yfir veturinn. Tvo fundi skal halda ásamt kennararáði og fulltrúa nemenda. Fulltrúar foreldraráðs taka þátt í ýmis konar stefnumótandi vinnu sem er á döfinni hverju sinni. Ráðið skilar umsögn um skólastarfið og skólanámskrá til skóla og skólanefndar. Foreldraráð er með pósthólf á skrifstofu skólans og geta foreldrar komið erindum til ráðsins þangað.

Fulltrúar foreldra í foreldraráði má sjá hér

Ágreiningsmál
Ef foreldrum þykir eitthvað athugavert í starfi skólans skulu þeir ræða við viðkomandi kennara, ef það leysir ekki vandann þá við deildarstjóra viðkomandi stigs og síðan skólastjórnendur. Ef um er að ræða ágreining við skólann skal ræða við sviðsstjóra fræðslusviðs Karl Frímannsson að Glerárgötu 26 eða senda erindi til skólanefndar Akureyrarbæjar / Ingibjörg Isaksen, formaður. Foreldrar geta einnig aflað upplýsinga um ýmislegt er varðar uppeldi og menntun hjá landssamtökunum Heimili og skóli. Samtökin gefa m.a. út tímarit og ýmiskonar efni um foreldrasamstarf. Veffang http://www.heimiliogskoli.is/.