Foreldrasamstarf

Foreldrum og skóla ber að hafa samstarf samkvæmt grunnskólalögum.

Giljaskóli hefur markað sér stefnu um foreldrasamstarf sem tekur á þáttum sem varða uppeldi, samskipti, ákvarðanatöku og samstarf við samfélagið.

Samstarf heimilis og skóla

Í lögum um grunnskóla stendur:

 • Hlutverk grunnskólans er í samvinnu við heimilin að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun (2. gr).
 • Starfsmönnum skóla er skylt að efla samstarf heimilis og skóla (16. gr).
 • Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila (24. gr).
 • Í aðalnámskrá grunnskóla (1999) stendur: 

  Í grunnskólanum skal unnið að því í samvinnu við heimilin að búa nemendur undir líf og starf. Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Þetta sameiginlega verkefni heimila og skóla kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu (bls 14).
 • Almenn menntun felur í sér að leggja í samvinnu við heimilin rækt við heilbrigði og hollar lífsvenjur, að efla siðferðisvitund og stuðla að ábyrgri umgengni við allt líf og umhverfi (bls 16).

Samstarf skiptir máli
Skólinn leggur grunn að samstarfi heimilis og skóla frá upphafi skólagöngu. Heimili og skóli vinna í sameiningu að þroska og velferð barna. Mikilvægt er að kennarar og foreldrar beri gangkvæmt traust hver til annars og geti rætt í trúnaði um málefni barnsins. Með góðu samstarfi aflar kennari upplýsinga um hæfileika barns, skapgerðareinkenni og áhugamál og foreldrar kynnast innviðum skólastarfsins og eru betur í stakk búnir til þess að taka virkan þátt í námi barnsins. Slíkt stuðlar að meira öryggi og vellíðan barna og foreldra og þar með betri árangri í námi og velgengni í starfi. Niðurstöður rannsóka sýna fram á ótvíræða fylgni góðs gengis nemenda í skóla og samstarfs heimilis og skóla.

Uppeldi
Foreldrar eru ábyrgir fyrir uppeldi barna sinna en starfsmenn skólans eru þátttakendur í uppeldi og mótun nemenda.

Fræðsla
Að hausti ár hvert býður skólinn upp á fræðslufundi með foreldrum nemenda í 1., 5. og 8. bekk þar sem fjallað er um samstarf og samskipti og megináherslur hvers aldursstigs í þroska. Ennfremur er komið inn á hvað framundan er að loknu grunnskólanámi hjá þeim elstu.

Heimanám
Hverju barni er nauðsynlegt að foreldrar styðji og taki þátt í menntun þess. Stuðningur getur birst á ýmsan hátt, s.s. að foreldrar sjái til þess að börn þeirra fái næði til heimanáms, nauðsynlega hvíld og hollt fæði og mæti stundvíslega í skólann með þau gögn sem til er ætlast. Einnig er mikilvægt að rætt sé við börnin um atburði líðandi stundar, lesið fyrir þau eða þau hvött til lestrar. Ennfremur þarf að gefa þeim tækifæri til að taka þátt í menningarviðburðum og áhugamálum. Í gegnum heimanám gefst foreldrum tækifæri til að fylgjast með námsefninu sem skólinn býður upp á og námsframvindu barna sinna . Það gefur þeim möguleika á að bæta árangur sinn í námi. Markmið heimanáms er að:

 • Ljúka verkefni sem byrjað var á í skóla.
 • Rifja upp og byggja ofan á það sem þegar hefur verið kennt í skólanum.
 • Undirbúa vinnu fyrir kennslustund.
 • Kanna skilning.
 • Vinna sjálfstætt og auka sjálfsaga.
 • Skapa umræður á milli foreldra og barns sem stuðla að auknum skilningi beggja.

Hutverk kennara gagnvart heimanámi

 • Útskýrir væntingar sínar til heimanáms.
 • Kynnir foreldrum námsefni og námsleiðir.
 • Gefur greinargóðar upplýsingar um heimanámið s.s. í vikuáætlunum og tölvusamskiptum ( sjá mentor.is).

Samskipti
Samskipti heimilis og skóla hafa m.a. þann tilgang að miðla upplýsingum á báða bóga. Skólinn þarf að fá upplýsingar um breytingar sem verða hjá fjölskyldunni (s.s. skilnað foreldra, andlát í fjölskyldu og önnur áföll sem kunna að hafa áhrif á barnið, svo og veikindi og lyfjanotkun). Skólinn skal gefa upplýsingar um gengi barnsins; námslega, tilfinningalega og félagslega.

Samskipti fara fram með ýmsum hætti s.s.; foreldrafundir, bekkjarfundir, foreldra/nemenda viðtöl, símtöl, tölvusamskipti, heimasíða, fréttabréf, vikuáætlanir og notkun samskiptabókar.

Að hausti boða umsjónarkennarar til funda með foreldrum þar sem ýmislegt er til umræðu s.s. starfið framundan, kynna námsáætlun og námsefni. Kosnir eru foreldrafulltrúar sem hafa umsjón með skipulagi félagsstarfs bekkjarins. Foreldrum gefst tækifæri til að ræða sameiginleg mál sem viðkoma nemendum. Foreldrafulltrúar kynna störf síðasta vetrar og ræða tillögur að starfi þess næsta og skipta verkefnum á milli foreldra (sjá eyðublað). Sem dæmi er starf með bekknum, félagsstarf, kynningu ákveðinna þátta í náminu og heimsóknir á vinnustaði.

Kennarar og foreldrar skrá netföng til möguleika á tölvusamskiptum. Upplýsingar um skólastarfið koma fram á heimasíðu skólans. Kennarar hafi samband við foreldra allra nemenda einu sinni á önn til að kanna hvernig gangi. Foreldraviðtöl eru í október og í febrúar. Umsjónarkennari eða foreldrar geta óskað eftir fundum um málefni einstakra nemenda eða nemendahópa eftir þörfum. Sameiginlegur foreldrafundur með umsjónarkennurum er undir lok skólaárs til þess að meta skólaárið og lagður grunnur að verkefnum næsta vetrar.

Skólinn gefur út skólanámskrá. Þar er að finna upplýsingar um skólastarfið í heild. Skólanámskráin er á heimasíðu skólans en foreldrar sem ekki hafa aðgang að neti geta fengið hana á skrifstofu skólans. Skólastjóri ber ábyrgð á útgáfu fréttabréfs um ýmislegt er varðar skólastarfið. Ritstjóri er Daníel Freyr Jónsson kennari. Fréttabréfið kemur út mánaðarlega að jafnaði auk frétta á heimasíðu skólans Umsjónarkennarar senda heim upplýsingar um bekkjarstarfið, vikuáætlanir og heimanám, ennfremur er hægt að nálgast þær upplýsingar á mentor.is

Skólinn er ætíð opinn foreldrum til að fylgjast með kennslu. Óskað er eftir því að foreldrar ræði við viðkomandi kennara um heimsóknartíma. Foreldrum ber að gæta trúnaðar um það sem þeir kunna að heyra eða sjá um nemendur eða skólasamfélagið. Einu sinni á vetri skipuleggur umsjónarkennari heimsóknir allra foreldra í bekkinn.

Foreldrafélagið
Hlutverk foreldrafélaga er að vera samstarfsvettvangur foreldra m.a. til þess að efla tengsl heimila og skóla, veita upplýsingar og fræðslu og byggja upp félagsstarf í bekkjardeildum. Foreldrafélagið er með pósthólf á skrifstofu skólans og geta foreldrar komið erindum til félagsins þangað. Félagið stuðlar að virkri starfsemi í bekkjarráðum, skilgreinir og samræmir hlutverk bekkjarfulltrúa þannig að allir foreldrar taki þátt í starfi með börnunum og sér til þess að bekkjarfulltrúar ásamt kennara fylgi foreldrasamstarfinu eftir milli árganga. . Að hausti skrifa foreldrar sig fyrir verkefni sem þeir bera ábyrgð á. Hver bekkur hefur möppu fyrir foreldrasamstarfið sem inniheldur m.a. hugmyndabanka yfir möguleg verkefni, góðar greinar og ráð um uppeldismál, nafnalista og heimilisföng yfir nemendur og aðstandendur, bekkjarfulltrúa og skiptingu verkefna fyrir veturinn.


Foreldraráð
Foreldraráð starfar í samræmi við grunnskólalög. Hlutverk þess er að fjalla um atriði sem varða innra starf skólans fylgjast með skólanámskrá og öðrum áætlunum skólans, að þeim sé framfylgt og þær kynntar foreldrum. Foreldraráð fundar með skólastjórnendum nokkrum sinnum yfir veturinn. Tvo fundi skal halda ásamt kennararáði og fulltrúa nemenda. Fulltrúar foreldraráðs taka þátt í ýmis konar stefnumótandi vinnu sem er á döfinni hverju sinni. Ráðið skilar umsögn um skólastarfið og skólanámskrá til skóla og skólanefndar. Foreldraráð er með pósthólf á skrifstofu skólans og geta foreldrar komið erindum til ráðsins þangað.

Fulltrúar foreldra í foreldraráði má sjá hér


Ágreiningsmál
Ef foreldrum þykir eitthvað athugavert í starfi skólans skulu þeir ræða við viðkomandi kennara, ef það leysir ekki vandann þá við deildarstjóra viðkomandi stigs og síðan skólastjórnendur. Ef um er að ræða ágreining við skólann skal ræða við sviðsstjóra fræðslusviðs Karl Frímannsson að Glerárgötu 26 eða senda erindi til skólanefndar Akureyrarbæjar / Ingibjörg Isaksen, formaður. Foreldrar geta einnig aflað upplýsinga um ýmislegt er varðar uppeldi og menntun hjá landssamtökunum Heimili og skóli. Samtökin gefa m.a. út tímarit og ýmiskonar efni um foreldrasamstarf. Veffang http://www.heimiliogskoli.is/.