Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Giljaskóla

Jafnréttisáætlun Giljaskóla er gerð í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008. Jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar og Mannauðsstefna Akureyrarbæjar (https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/utgefid-efni/index/stefnur-og-aaetlanir) tengjast einnig jafnréttisvinnu skólans. Jafnréttisáætlunin nær annars vegar til starfsfólks og hins vegar til nemenda. 

Markmið

Giljaskóli leggur áherslu á jafnrétti einstaklinga með mannréttindi og margbreytileika að leiðarljósi. Stefna Giljaskóla er að allir, nemendur og starfsmenn, njóti jafns réttar án tillits til kyns. Kynbundinni jafnréttisáætlun Giljaskóla er ætlað að vera mikilvægur liður í gæðaumbótum í skólanum þar sem aukið jafnrétti tryggir betri nýtingu mannauðs. Kynbundin mismunun er óheimil í hvaða formi sem hún birtist og stefna skólans er að útrýma slíkri mismunun. Skólastarf í anda jafnréttis á einnig að taka mið af mismunandi námshæfileikum nemenda. Tækifæri nemenda eiga ekki að byggja á kynferði heldur áhuga, hæfileikum og færni.

Ábyrgð 

Skólastjóri ber ábyrgð á að jafnréttisáætlun sé unnin og hún uppfærð samkvæmt lögum á þriggja ára fresti. Hann skipar jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúa sem aðstoðar við framkvæmd stefnunnar og endurskoðun.  

Jafnréttisáætlun Giljaskóla tók gildi í janúar 2019. Samkvæmt 18. gr. jafnréttislaga skal endurskoða jafnréttisáætlanir á þriggja ára fresti. Næsta endurskoðun er því í nóvember/desember 2022.