Börn í fjarlægum löndum

Börnin okkar 2023 - Ibrahim og Tralia

Í desember vorum við með söfnun fyrir börnin okkar, Ibrahim og Traliu. Við náðum að safna 100.199 kr
Hér má sjá jólakort sem við fengum frá þeim des. 2023

Ibrahim Famba er fæddur árið 2009 og býr í Úganda. Hann á heima hjá móður sinni ásamt þremur systkinum. Móðirin vinnur við garðyrkjustörf ásamt því að þvo þvott fyrir annað fólk. Tekjurnar dugar ekki til að bæði framfleyta fjölskyldunni og borga skólagjöld svo við aðstoðum fjölskylduna með því að borga þau fyrir Ibrahim. Móðir hans er mjög þakklát fyrir það. Uppáhaldsíþróttin hans er fótbolti og rauður er uppáhaldsliturinn. Við höfum styrkt hann frá árinu 2017.

Tralia Nersty er fædd 29 júní árið 2016. Hún býr á Filippseyjum. Hún býr hjá foreldrum sínum ásamt einni systur. Pabbi hennar vinnur láglaunavinnu sem verkamaður en móðirin sér um heimilið. Þau leigja íbúð og það kostar mikið. Foreldrarnir hafa ekki tök á að greiða kostnað við skólagöngu hennar og við í Giljaskóla styrkjum Traliu svo hún geti fengið menntun. Tralia Nersty á sér þann draum að verða læknir.

Börnin okkar 2019 - 2022 Ibrahim og Kevine

Frétt af söfnun fyrir árið 2021 má finna hér

Frétt af söfnun fyrir árið 2020 má finna hér 

Börnin okkar 2018 - 2019 Ibrahim og Kevine

Í desember vorum við með söfnun fyrir börnin okkar, Ibrahim og Kevine.
Við náðum að safna 114.597 kr. 
Hér má sjá jólakort sem við fengum frá þeim.

Börnin okkar 2017 - 2018 Ibrahim og Kevine

Í desember vorum við með söfnun fyrir börnin okkar, dreng að nafni Ibrahim Famba Mohamed og stúlku, Kevine Jenneth Akello. Þau búa bæði í Uganda og fá styrk frá okkur svo þau geti gengið í skóla og fengið þar máltíð og heilsugæsluþjónustu. Við þurftum að safna 84 þúsund til að styrkja þau í eitt ár en við gerðum enn betur, náðum 105.348 kr. Mismunurinn er geymdur á bók þar sem misvel gengur að safna milli ára og gott að eiga smá varasjóð.

Við fengum póst frá starfsfólki ABC á Íslandi þar sem þau eru innilega þakklát fyrir það sem við í Giljaskóla erum að gera og senda bestu kveðjur til nemenda og starfsfólks skólans.

Við sendum Ibrahim og Kevine jólakort og smá pakka með ritföngum.

Einnig fengum við jólakveðju frá þeim.

 

Börnin okkar 2016 - 2017
Styrktarfjárhæð er 8. þúsund á mánði fyrir stelpurnar og fer söfnun fram í lok hvers árs fyrir komandi ár.

Frá 2012 höfum við styrkt stelpu í Indlandi sem heitir Venkateswaramma. Hún er fædd árið 2005 og býr á heimili Litlu ljósanna. Hún kemur frá mjög fátæku heimli, faðir hennar er látinn og móðir hennar getur ekki séð fyrir henni. Við hjálpum henni að eiga betra líf með því að greiða fyrir hana skólagöngu og fulla framfærslu í heimavistarskóla.

Jólakort frá henni:

Frá því í sumar 2016 höfum við styrkt Kevine Jenneth Akello sem býr í Uganda. Hún er fædd árið 2008. Hún býr hjá móður sinni og þrem bræðrum, faðir er látinn. Móðir er með HIV og mjög fátæk svo hún hefur ekki efni á að senda börnin í skóla. Við stykjum Kevine svo hún geti farið í skóla og þar fær hún eina máltíð, einnig fær hún heilsugæsluþjónustu.

Jólakort frá henni:

Skólaárið 2013 - 2014

Bréf frá Vincent, mars 2014

 

Heimsókn frá ABC

Hér má lesa frétt um heimsókn starfsmanns frá ABC í Giljaskóla 9.janúar

 

Bréf frá Vincent

 

ABC börnin okkar og skólahlaupið 2012

Hlaupið var þann 26. september (myndir). Veðrið var fínt og hlupu krakkarnir einn til fjóra “skólahringi”, en einn hringur er um 2,5 km. Söfnunin sem er samhliða hlaupinu gekk vel og söfnuðust 104.476 krónur. Styrkur í eitt ár fyrir börnin tvö er nú 90.000 krónur og erum við mjög glöð að hafa náð þessari upphæð. Nú höfum við styrkt þessi börn í 6 ár og það er gaman að koma inn í bekkina og kynna söfnunina fyrir nemendum því mörgum finnst þeir þekkja til barnanna og hafa áhuga á að styrkja þau. Nú er Udaya að verða 18 ára gömul og hafa aðrir styrktaraðilar tekið við framfærslu hennar. Við höfum því fengið stúlku fædda árið 2005 sem heitir Venkateswaramma Manadapoti. Hún býr á heimili Litlu ljósanna á Indlandi, sjá meðfylgjandi mynd af dömunni.

Skólahlaupið 2012

Norræna skólahlaupið fer fram miðvikudaginn 26. september. Tilgangurinn með því er tvíþættur. Annarsvegar að taka þátt í samnorrænu hlaupi og hins vegar að safna fé til styrktar ABC hjálparstarfi. Frá árinu 2007 höfum við í Giljaskóla styrkt tvö börn. Það er strákur að nafni Vincent, fæddur árið 2000 og býr í Uganda. Hann býr hjá fjölskyldu sinni í mikilli fátækt og höfum við greitt fyrir skólagöngu hans og eina máltíð á dag. Stúlkan heitir Udaya, er fædd árið 1995 og býr á Heimili litlu ljósanna á Indlandi. Við höfum greitt fyrir búsetu og nám hennar þar.

Fyrir hlaupið fá allir nemendur skólans stutta kynningu á hjálparstarfinu sem við erum að taka þátt í, sjá myndir af krökkunum og söfnunarbaukar eru settir í allar stofur. Í fyrra var framfærsla þessara tveggja barna 90.000 krónur fyrir eitt ár. Ef allir nemendur og starfsfólk skólans leggja fram um 200 krónur náum við takmarkinu. Margt smátt gerir eitt stórt og vonumst við til að geta haldið áfram þessum stuðningi.

Skólahlauið 2011

Í dag hafa flestir bekkir fengið kynningu á börnunum tveimur sem nemendur og starfsmenn Giljaskóla styrkja í gegnum ABC hjálparstarf. Frá árinu 2007 höfum við styrkt eina stelpu og einn strák. Strákurinn heitir Vincent, er fæddur árið 2000 og býr í Uganda. Hann býr hjá fjölskyldu sinni í  mikilli fátækt og höfum við greitt fyrir skólagöngu hans og eina máltíð á dag. Stúlkan heitir Udaya, er fædd árið 1995 og býr á heimili Litlu ljósanna á Indlandi. Við höfum greitt fyrir búsetu og nám hennar þar.

Í tengslum við Norræna skólahlaupið, sem fer fram miðvikudaginn 14. september, höfum við hvatt nemendur og starfsmenn til að gefa smá aur í söfnunarbauka sem nú eru í öllum stofum. Við höfum miðað við 200-300 krónur.

Margt smátt gerir eitt stórt og vonumst við til að geta haldið áfram þessum stuðningi.

 

Gjöf frá nemendum Giljaskóla

Hópur nemenda í 10. bekk sem varð í 3. sæti í Best stærðfræðikeppninni í fyrra vildi að börnin sem við styrkjum í gegnum ABC hjálparstarf fengi afganginn af verðlaunaféinu. Þau voru búin að fara út að borða og eftir voru 7000 krónur sem renna í söfnunina okkar!

Þakkir til þeirra!

Skólahlaupið 2010

Hlaupið var þann 8. september klukkan 10.00. Nemendur og starfsfólk hljóp og gekk í góða veðrinu einn til fjóra “skólahringi” en hver hringur er um 2,5 km. Sjónvarpsstöðin N4 mætti á staðinn og fylgdist með, http://www.n4.is/tube/file/view/1226/. Söfunin gekk mjög vel og söfnuðust krónur 75.894,-  Það kostar krónur 76.800 að styrkja börnin tvö og það kom sér vel að eiga smá afgang frá því í fyrra. Á heimasíðu ABC barnahjálp er frétt um skólahlaupið og söfnunina sem við höfum nú staðið fyrir fjórum sinnum, sjá http://www.abc.is/

 

Skólahlaupið 2010
Í ár stefnum við að því að hlaupa skólahlaupið þann 8. september klukkan 10.00. Samhliða því munum við safna fé til styrktar krökkunum sem við styðjum í gegnum ABC hjálparstarf. Í fyrra kostaði krónur 76.800 að styrkja börnin tvö og vonum við að við getum haldið áfram að styðja tvö börn.

Jólin 2009
Krakkar í 3. og 8. bekk teiknuðu myndir handa þeim og ásamt þeim sendum við þeim bók um íslensk tröll.

Skólahlaupið 2009
Hlaupið var þann 9. september, eða 09.09.09! Veðrið lék við okkur og hlupu krakkarnir einn til fjóra “skólahringi”, en einn hringur er um 2 km. Söfunin gekk vonum framar og söfnuðust krónur 89.529.

Jólin 2008
Nemendur skólans sem eru jafngamlir Udaya og Vincent teiknuðu myndir handa þeim. Það voru nemendur í 3. og 8. bekk. Einnig sendum við þeim myndabók um Akureyri, kort af bænum okkar og Íslandskort.

Skólahlaupið 2008
Ákveðið var að endurtaka leikinn frá því í fyrra og sameina Norræna skólahlaupið og áheita hlaup fyrir börnin okkar tvö sem við styðjum í Úganda og Indlandi. Í ár söfnuðust krónur 71.722 og gátum við því styrkt þau annað ár. Við höfum fengið myndir af þeim og vaxa þau og dafna vel.

 

Í skólahlaupinu þann 12. september 2007 söfnuðu nemendur og starfsfólk Giljaskóla nærri 80.000,- krónum. Ákveðið var að styrkja tvö börn sem lifa við bágar aðstæður í fjarlægum löndum. Nú hefur skólinn “eignast” tvö börn og vonandi getum við með framlagi okkar bætt aðstæður þessara barna. Þetta eru ein stelpa og einn strákur, á sitt hvorum aldri og eiga þau heima í sitt hvoru landinu.

Udaya Lakshmi Gajjelagunta er 12 ára gömul stelpa sem býr á Indlandi. Hún er fædd þann 18. febrúar árið 1995. Hún er svo heppin að eiga bæði mömmu og pabba á lífi og einnig á hún einn bróður. Fjölskyldan hennar býr í kofa sem er búinn til úr leir og bambus með stráþaki og moldargólfi. Þar er ekkert rafmagn og hvorki klósett né rennandi vatn. Kofinn er aðeins eitt herbergi og þar sofa allir á gólfinu án ábreiðu og flugnanets. Matinn þurfa þau að elda úti og þau þurfa að ganga tvo kílómetra til að ná í vatn. Udaya fékk oft malaríu, fékk lítið að borða og gekk af og til í skóla.
Núna býr Udaya á Heimili litlu ljósanna sökum þess hve fátækir foreldrar hennar eru. Henni líður mun betur, er frískari, fær mat á hverjum degi og gengur í skóla.
Með framlagi okkar borgum við fyrir menntun og framfærslu á Heimili litlu ljósanna sem staðsett er í Gannavaram á suð-austurströnd Indlands.

Hér getið þið séð myndir og annað frá Heimili litlu ljósanna þar sem Udaya býr.

Vincent Obita er 7 ára gamall strákur sem býr í Úganda. Hann er fæddur þann 3. júlí árið 2000. Hann býr hjá foreldrum sínum, tveimur bræðrum og einni systur. Hann er yngstur systkinanna og fjölskyldan er mjög fátæk. Þó hann hafi liðið skort er hann heilsuhraustur en í Úganda eru sjúkdómar eins og eyðni, kólera, berklar og ýmsir magasjúkdómar mjög algengir. Fjölskyldan býr í litlum leirkofa með stráþaki og fær mat frá Sameinuðu Þjóðunum á hverjum degi, aðallega maís og baunir. Þau þurfa að sækja vatn í borholu og getur það tekið allt að 4-5 tíma.
Með framlagi okkar borgum við fyrir skólagöngu hans, læknishjálp og eina máltíð á dag.

Hér getið þið séð myndir og annað frá Rackoko - Pader héraði þar sem Vincent býr.

Við í Giljaskóla höfum hug á því að gera skólahlaupið að árlegu áheitahlaupi til þess m.a. að halda áfram að styrkja börnin okkar og gera jafnvel eitthvað meira. Það er trú okkar að með þessu séum við að sá fræum til nemenda Giljaskóla um að við þurfum að hugsa um minnstu bræður okkar í fjarlægum löndum. Þau koma okkur við og við getum haft áhrif þó við búum á hinu kalda Íslandi. Margt smátt gerir eitt stórt.