Öryggismál

Á leið í skólann

Mikil umferð er við skólann á morgnana enda standa tveir skólar Giljaskóli og leikskólinn Kiðagil hlið við hlið nánast á sömu lóðinni og verða að nota sömu aðkeyrslu. Mörgum börnum er ekið í skólann. Oft skapast því mikið öngþveiti og því er nauðsynlegt að fyllstu varúðar sé gætt við akstur að skólanum. Við leggjum áherslu á ekið sé að skólanum inn á bílastæði að norðan og út að sunnan við leikskólann. Útskot fyrir framan stétt er ætlað skólabíl og það á ekki nýta sem stæði heldur til þess að hleypa börnum út.

Bílastæðin við skólann eru einnig fyrir starfsfólk á leikskólanum Kiðagili. Á bílastæði sem merkt er með hjólastól á enginn að leggja nema hafa þar til gert merki. 

Leitast skal við að hafa öryggi barna í fyrirrúmi. Ákveðin hætta getur skapast á leið í skólann sérstaklega í dimmviðri og á vetrum. Bent er á mikilvægi þess að nota endurskinsmerki til að sjást betur við þessar aðstæður.

Óskað er eftir því að starfsfólk skólans og foreldrar sameinist um að finna börnunum auðveldustu leiðina í skólann, fræða þau um reglur í umferðinni og hvetja þau til að nota alltaf endurskinsmerki. Útivera og hreyfing er öll af hinu góða og því hvetjum við sem flesta til að koma gangandi í skólann.

Í upphafi  skóladags

Skólinn er yfirleitt opnaður kl. 7:30 að morgni þegar húsvörður kemur til starfa en skólaliðar hefja gangavörslu 7:45.  Nemendur fá í flestum tilvikum að fara inn í stofur sínar og geta unað þar við ýmis verkefni, s.s. lestur eða spil. Þar sem stofur eru læstar uns kennari mætir, t.d. á unglingagangi geta nemendur setið fyrir framan stofu eða í setkrókum. Í matsal er boðið uppá hafragraut frá kl 7:30 fyrir alla nemendur en síðan eiga nemendur unglingadeildar einnig kost á að fá graut í frímínútum milli  9:20-9:40.

Sérstök móttaka er fyrir nemendur sérdeildar. 

Frímínútnagæsla 

Frímínútur eru þrisvar að morgni og sinna starfsmenn eftirliti í frímínútum úti á skólalóðinni. Þrír til fjórir starfsmenn sinna almennri gæslu úti og tveir vegna sérdeildar. Nokkrir sjá um gæslu inni. Ennfremur er eftirlit  bæði úti og inni í tengslum við hádegishlé nemenda. Nemendur í 8.-10. bekk fá að vera í matsal eða Dimmuborgum í frímínútum, aðrir fara út. Verði foreldrar varir við það hjá börnum sínum að eitthvað fari úrskeiðis í frímínútum eða á ferðum úr og í skóla (stríðni eða annað áreiti) þá eru það vinsamleg tilmæli að gert sé viðvart strax þannig að hægt verði að bregðast við  áður en í óefni er komið. 

Neyðarupplýsingar

Á hverju hausti skulu umsjónarkennarar sjá til þess að foreldrar fylli út eða uppfæri upplýsingar um nemanda og aðstandendur í Mentor. Þar skulu koma fram upplýsingar um símanúmer, vinnustaði, netföng foreldra eða hvar sé hægt að ná í þá komi eitthvað uppá.  Einnig upplýsingar um við hvern skuli hafa samband ef ekki næst í foreldra. 

Einnig er mikilvægt að heimilisfang nemanda sé rétt skráð þegar skólinn á í samskiptum við heimili með umslagapósti. 

Slys eða veikindi

Beri slys að höndum eða barn veikist á skólatíma er hringt í foreldra eða ábyrgðarmann og óskað eftir að barnið verði sótt í skólann eða aðrar viðeigandi ráðstafanir gerðar. Grunnskólabörn á Akureyri eru slysatryggð í skólanum og á leið í og úr skóla. Slysakostnaður er greiddur að því marki sem hann fæst ekki greiddur úr tryggingum heimilisins eða frá Tryggingastofnun ríkisins. Akureyrarbær greiðir fyrstu komu á slysavarðstofu eða til annarra sérfræðinga. Eigin áhætta foreldra í slysatjóni er kr. 25.000 en engin þegar um tannbrot er að ræða. Um aðrar tryggingar en slysatryggingar er ekki að ræða af hálfu skóla á Akureyri.  Skólinn tekur ekki ábyrgð á og er ekki tryggður fyrir þjófnaði, skemmdum á fatnaði, fjármunum eða munum nemenda. Tjónþola ber að snúa sér til síns tryggingafélags eða lögreglu ef slík mál koma upp. Skólahjúkrunarfræðingur ber ábyrgð á skráningu slysa og heldur yfirlit um þau.