Samstarf við önnur skólastig

Samstarf við framhaldsskóla 

Skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði í tíu ár, en getur verið skemmri, sbr. Lög um grunnskóla, 32. gr. Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6-16 ára, er skylt að sækja grunnskóla.

Er grunnskólanámi lýkur skal nemandi fá skírteini er votti að hann hafi lokið námi samkvæmt grunnskólalögum. Í skírteini skal skrá vitnisburð nemanda á lokaári í grunnskóla í því námi er hann lagði stund á.

Skólastjóri metur hvort nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla. Heimilt er að útskrifa nemanda úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið, enda uppfylli nemandi námskröfur grunnskóla í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár. Í aðalnámskrá grunnskóla skal nánar kveðið á um útfærslu þessarar greinar. Ákvörðun skólastjóra í þessu efni lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga. Foreldri getur kært synjun um útskrift úr grunnskóla samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr.

Nemendur eiga rétt til að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni. Skólastjóri í grunnskóla veitir nemenda heimild til slíks náms utan skólans samkvæmt viðmiðum sem sett skulu í aðalnámskrá. Foreldrar nemenda bera þann kostnað.

Nemendur sem eru að ljúka grunnskóla eiga rétt á skólavist í framhaldsskóla. Á Akureyri starfa tveir framhaldsskólar; Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Nemendum í 10. bekk er boðið í heimsókn  í  skólana til að kynna sér hvað þeir bjóða uppá.

Námsráðgjafar í grunnskólum leggja flestir fyrir könnum á áhugasviði nemenda í gegnum forrit sem kallast Bendill og þykir það hafa gefið góða raun við að aðstoða nemendur við val sitt.

Í MA er almenn braut sem skiptist í hraðlínu og stoðlínu. Á hraðlínu koma nemendur beint úr 9. bekk og námsefni 10. bekkjar er að einhverju leyti fléttað inn  í námsefni 1. bekkjar MA. Nemendur á hraðlínu eru í fámennari bekk en tíðkast í öðrum 1. bekkjum og meiri umsjón er með þeim. Á stoðlínu eru nemendur sem ekki hafa að öllu leyti uppfyllt inntökuskilyrði á bóknámsbrautir og fá þeir stuðning í því fagi sem þeir standa höllum fæti. Allir nemendur á hraðlínu fá síðan þrjá heimanámstíma á viku með kennara.

Nemendur eiga kost á að stunda fjarnám við framhaldsskóla og geta þeir fengið þá áfanga metna sem í stað valgreinar.  Síðustu tvö ár nemendur í 10. bekk grunnskólana á Akureyri getað valið um nokkrar valgreinar sem kenndar hafa verið í VMA s.s. rafiðn, tréiðn, sjónlistum og aðhlynningu. 

Um innritun nemenda með sérþarfir í framhaldsskóla sjá bls. 18 í kafla um stoðþjónustu.        

Á vefsíðum MA, www.ma.is, og VMA, www.vma.is, er fjallað um innritun nýnema. Það er gott að kynna sér það með góðum fyrirvara. Báðir skólarnir bjóða upp á forinnritun á tímabilinu mars-apríl og síðan er lokainnritun um svipað leyti og útskrift grunnskólanna er.

Samstarf við leikskóla og skil á upplýsingum milli leik- og grunnskóla

Til þess að auðvelda börnum að brúa bilið milli leik- og grunnskóla er Giljaskóli í samstarfi við leikskólana Kiðagil og Tröllaborgir. Verkefnið kallast "Trítlað yfir brúna". Elstu nemendur leikskólanna og yngstu nemendur grunnskólans, 1. bekkur, hittast með jöfnu millibili yfir veturinn. Þeir skiptast á heimsóknum, vinna sameiginleg verkefni og leika sér saman. Leikskólanemar kynnast skólanum og því starfi sem þar fer fram. Þeir taka m.a. þátt í kennslustundum, nestistímum, frímínútum, gefst kostur á að heimasækja bókasafnið auk þess sem þeim er boðið að horfa á nemendasýningar á árshátíð 1.-7. bekkja. Leikskólanemarnir vita því nokkurn veginn hvað það er sem bíður þeirra í grunnskólanum.

Á hverju vori funda aðilar leik- og grunnskóla þar sem verðandi grunnskólanemendum er fylgt úr hlaði. Um er að ræða upplýsingar sem nauðsynlegt er að fylgi nemendum frá leikskóla til grunnskóla og  varða velferð barns og gengi þess í skóla. Leikskólakennarar segja stuttlega frá þeim nemendum sem væntanlegir eru í skólann og farið er yfir stöðu þeirra. Væntanlegir kennarar í 1. bekk heimsækja leikskólana í þessum tilgangi. Þetta upplýsingaferli getur náð til fleiri leikskóla en hverfaskólanna tveggja þar sem tilvonandi nemendur Giljaskóla geta komið víða að. Þessar upplýsingar hafa reynst okkur í skólanum gagnlegar.