Námsmat

Megintilgangur námsmats er að fylgjast með því hvernig sérhverjum nemanda tekst að ná námsmarkmiðum og örva hann til framfara.  Til þess þarf námsmat að vera hluti af daglegu starfi, einstaklingsmiðað, fjölbreytt, leiðsagnarmiðað og fela í sér sjálfsmat.  Auk þekkingar, leikni og hæfni tekur námsmat til viðhorfa, samskipta og vinnubragða.  Niðurstöður skulu notaðar til að endurskoða markmið og starfshætti nemenda og kennara og veita auk þess foreldrum, viðtökuskólum og yfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar. Allt námsmat nemenda birtist á mentor.is

Leiðsagnarmat

Í Giljaskóla er lögð áhersla á Leiðsagnarmat sem er annars vegar mat í þágu náms (e. assessment for learning) og hins vegar mat sem nám (e. assessment as learning). 

Mat í þágu náms byggist á því að matið er stöðugt og samofið námsferlinu, og upplýsingar eru nýttar af kennurum til að meta nám nemenda, veita nemendum tímanlega og lýsandi endurgjöf, styðja við nemendur og aðlaga nám og kennslu að þörfum þeirra. Matið miðar að því að veita nemandanum svör við þremur grundvallarspurningum: Hvert stefni ég? Hvar er ég núna? Hvernig held ég áfram? Mat sem nám byggist á því að matið er nám í sjálfu sér. Slíkt mat gerir ráð fyrir nemendum sem virkum þátttakendum og gagnrýnum aðilum sem rýna í matsupplýsingar, tengja þær við fyrri þekkingu og nýta þær til náms. Námsmatið verður ígrundandi ferli þar sem nemendur fylgjast með framvindu eigin náms og nýta endurgjöf af þessari ígrundun til að þróa skilning sinn á einstökum þáttum. Kennarar nota sjálfsmat nemenda sem aðferð til að hjálpa nemendum að efla námsvitund (e. metacognition) og stuðla að aukinni ábyrgð og sjálfstæði nemenda í námi.

Kennarar skipuleggja námsmat út frá þeim námsmarkmiðum sem unnið er með hverju sinni. Notaðar eru fjölbreyttar aðferðir til að meta hæfni nemenda, svo sem skimanir, mat á skriflegum úrlausnum, frammistöðumat, samræður, sjálfsmat nemenda, vettvangsathugun og fleira. Matið á að vera áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt. Nemendum skal hjálpað að efla námsvitund sína og færni til að mynda með sjálfsmati, markmiðssetningu, jafningjamati,  hugtakakortum, samræðum, námsmöppum og leiðarbókum. Námsmat á að taka tillit til sérþarfa nemenda. Geta skal þess sérstaklega ef um aðlagaða námskrá er að ræða. 

Námsmat er stöðugt í gangi og stefnt er að því að álag á nemendur og kennara sé tiltölulega jafnt á hverju tímabili. Í Giljaskóla eru að jafnaði þrjú matstímabil. Miðað er við að fyrsta og öðru tímabili ljúki með námsviðtölum byggðum á leiðsagnarmati í okt./nóv. og jan./feb. Þriðja tímabili lýkur að vori með lokamati. Á fyrsta matstímabili er áherslan mest á lykilhæfni. Á öðru matstímabili eru áherslur áfram á lykilhæfni en við bætist mat á hæfni innan námssviðs. Þriðja matstímabili lýkur með lokamati á hæfni innan námssviðs og mati á lykilhæfni.

Lykilhæfni í Giljaskóla

Í Giljaskóla hefur lengi verið lagt mat á skilgreinda lykilhæfni. Árið 2011 voru í aðalnámskrá grunnskóla skilgreindir fimm lykilhæfniþættir sem eru nýting miðla og upplýsinga, skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna, ábyrgð og mat á eigin námi og tjáning og miðlun. Þessa þætti má sjá kristallast í hæfniviðmiðum námsgreina. Í Giljaskóla voru lykilhæfniþættir lykilhæfni aðalnámskrár. Við þá endurskoðun var horft til hæfniviðmiða námsgreina og lykilhæfni aðalnámskrár sem heildar og gerð tilraun til að lyfta þeim þáttum sem við teljum mikilvæga í námi en birtast ekki nógu vel í hæfniviðmiðum námsgreina. Skilgreindir hafa verið 6 lykilhæfniþættir í Giljaskóla sem horft er til í námsmati. Þessir þættir eru ábyrgð, þrautseigja, frumkvæði og áræðni, samskipti og samstarf, námsvitund og tjáning. Sjá má nánari lýsingu á lykilhæfni í Giljaskóla hér í eftifarandi töflu.

Lýsing á lykilhæfniþáttum Í Giljaskóla eftir stigum

Matskvarði

Innan hvers námssviðs er sérstakur matskvarði skilgreindur í sex flokkum, A-D. Með honum er annars vegar lagt mat á hvernig nemendum gengur að ná hæfniviðmiðum hvers námssviðs og hins vegar lykilhæfni nemenda. Við lokamat að vori skal eftirfarandi kvarði notaður. Kvarðann má einnig nota við annað námsmat.