Grænfáni Giljaskóla

Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í skólastarfi má leggja áherslu á að margt smátt gerir eitt stórt, ekki þarf að bíða eftir stóru breytingunum til að geta fagnað þeim smærri. 

Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn. 

Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu.

Giljaskóli fékk afhentan Grænfánann föstudaginn 14.september 2012 frá Landvernd. Í tengslum við það verkefni var mótaður umhverfissáttmáli Giljaskóla.

Umhverfissáttmálinn felur i sér að nemendur og starfsmenn Giljaskóla einsetja sér að:

  • efla umhverfisvitund nemenda, starfsmanna og foreldra
  • fara vel með takmarkaðar auðlindir jarðarinnar
  • skila sem mestu til baka til jarðarinnar sem frá henni er komið
  • sýna náttúru og manngerðu umhverfi virðingu með góðri umgengni
  • ganga vel um skólahúsnæði, skólalóð og Giljarjóður
  • hvetja til umhverfisvæns ferðamáta í skólasamfélaginu okkar
  • fara vel með það sem við eigum og ekki kaupa eða keppast við að eignast það sem við höfum ekki þörf fyrir.