Nám og kennsla

Grunnþættir menntunar

Sú menntastefna sem birt er í aðalnámskrá grunnskóla 2011 er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eru leiðarljós við námskrárgerðina. 

Nám til framtíðar

Þessir grunnþættir eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi,
jafnrétti og sköpun. 

Til hvers grunnþættir? 

Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það.

Grunnþættirnir byggjast á því viðhorfi að unnið sé bæði að samfélagslegum markmiðum og markmiðum er varða menntun sérhvers einstaklings. Þeir eru samfélagsmiðaðir þar sem þeim er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti og lýðræði og að vinna að því samfélagið fái vel menntað og heilbrigt fólk, bæði til þátttöku í að breyta samfélaginu til betri vegar og til þeirra starfa sem unnin eru í samtímanum.

Grunnþættirnir fléttast inn í allt skólastarf 

Hugmyndirnar að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir skulu vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða, bæði hvað varðar þá þekkingu og leikni sem börn og ungmenni skulu afla sér. Námssvið geta verið sérhæfing í viðfangsefnum skólastarfs þvert á námsgreinar og skólastig.

Tengsl og eðli grunnþáttanna 

Grunnþættir menntunar eru settir fram sem sex þættir. Þeir tengjast þó innbyrðis í menntun og skólastarfi og eru háðir hver öðrum. Með því að hugsa út frá þeim má skapa meiri heildarsýn um 

skólastarfið. Þeir byggjast á þeirri hugmynd að ekki geti orðið virkt lýðræði án læsis á hvers konar táknkerfi og samskiptakerfi samfélagsins. Þeir eru einnig byggðir á því að virkt lýðræði þrífist aðeins ef jafnframt er stuðlað að hvers konar jafnrétti milli einstaklinga og hópa í samfélaginu. Mannréttindi allra verða ekki tryggð nema stuðlað sé að heilbrigði og velferð hvers og eins og baráttu gegn mismunun og hvers konar ofbeldi, þar með töldu einelti. 

Sjálfbærni snýst um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Sjálfbærni felur í sér virðingu fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti ekki bara í nútíma heldur og gagnvart komandi kynslóðum. Þannig er óhugsandi að unnt sé að stuðla að mannréttindum án þess að jafnframt sé leitað eftir sjálfbærni og jafnvægi í þróun samfélagsins. Sjálfbærni er einnig háð því að hugað sé að jafnrétti þjóðfélagshópa. Lýðræði og mannréttindi og heilbrigði og velferð felast þannig í sjálfbærni en eru jafnframt sjálfstæðir grunnþættir menntunar. 

Menntun til sjálfbærni, jafnréttis, lýðræðis- og mannréttinda miðar að því að börn og ungmenni skilji samfélagið eins og það er og hefur þróast. Jafnframt miðar þessi menntun að því að börn og ungmenni verði fær um að taka þátt í að móta samfélagið og öðlist þannig sýn til framtíðarinnar og hugsjónir til að beita sér fyrir. Með því að nota orðin og orðasamböndin sjálfbærnimenntun, lýðræðis- og mannréttindamenntun og jafnréttismenntun er ekki endilega verið að mótað nýjar námsgreinar eða ný námssvið heldur eru orðin notuð til vísbendingar um námsefni og viðhorf sem leggja skal áherslu á. 

Sköpun er nauðsynlegur þáttur í allri menntun og nær þannig til allra annarra grunnþátta. Sköpun er mikilvægur þáttur í öllu námi og starfi, ekki einungis í listmenntun. Allir grunnþættirnir eiga sér rætur í gagnrýninni hugsun, ígrundun, vísindalegum viðhorfum og lýðræðislegu gildismati. 

Þótt grunnþættirnir séu samtvinnaðir hefur hver þeirra sín sérkenni. Þá má þannig nota til að halda utan um markmið skólakerfisins í heild og sérstakar áherslur hvers skóla eða skólastigs. Grunnþættirnir eru þó ekki nýtt flokkunarkerfi námsþátta heldur skilgreindir til þess að skerpa markmið skólanna og tengja þau saman. Flest atriði skólastarfs má fella undir fleiri en einn grunnþátt og mörg þeirra undir hvern þeirra sem er.

Læsi

Læsi hefur löngum verið tengt við þá kunnáttu og færni sem fólk þarfnast til þess að geta fært hugsun sína í letur (ritað) og skilið prentaðan texta (lesið). Í skólum hafa menn litið svo á að færni á þessu sviði væri fyrst og fremst bundin við einstaklinga og hægt væri að mæla hana, sumir væru fluglæsir en aðrir treglæsir eða jafnvel ólæsir. Með tímanum hafa hugmyndir manna um læsi breyst. Læsi snýst um samkomulag manna um málnotkun og merkingu orða í málsamfélagi og er því félagslegt í eðli sínu. Það er háð hefð og er því ekki færni sem einstaklingar geta öðlast og beitt óháð stað og stund, menningu og gildum. Læsi krefst skriffæra, efnis til að skrifa á og miðils, t.d. bókar, til að koma ritsmíðinni á framfæri og snýst því að hluta til um tæknimiðla og verkkunnáttu. Tvær manneskjur kunna til dæmis að skilja tiltekinn texta á ólíkan máta þótt lestrartækni þeirra, hljóðkerfisvitund og orðaforða svipi mjög saman. Tölvur og stafræn samskiptatæki teljast víða ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks, heima jafnt sem á vinnustað, og þykja orðið sjálfsögð verkfæri í skólastarfi. Þótt þeim verkfærum, sem nota má í skólastarfi hafi fjölgað, dregur það þó engan veginn úr mikilvægi ritunar og lesturs í hefðbundnum skilningi. Sem fyrr skiptir það miklu máli að börn nái tökum á tiltekinni lestrar- og ritunartækni en athyglin beinist nú jafnframt að allri þeirri tækni sem nemendur geta notað í samskiptum, námi og merkingarsköpun – í þágu sjálfra sín og samfélagsins. 

Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.

Sjálfbærni

Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í skólastarfi má leggja áherslu á að margt smátt gerir eitt stórt, ekki þarf að bíða eftir stóru breytingunum til að geta fagnað þeim smærri. 

Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn. 

Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu.

Lýðræði og mannréttindi

Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær.

Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.

Mikilvægt er að í öllu námi, viðfangsefnum skólastarfsins og aðferðum sé tekið tillit til áhuga nemenda og ábyrgðar þeirra á eigin námi. Umhyggja fyrir fólki, dýrum, umhverfi er hluti lýðræðismenntunar.

Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir ráð fyrir samstarfi út fyrir veggi skóla engu síður en samstarfi í skólanum. Þannig þarf að gera ráð fyrir virku samstarfi við heimili barna og ungmenna og við æskulýðs- og íþróttastarf.

Jafnrétti

Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta og má þar nefna sldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni. 

Heilbrigði og velferð

Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.

Efla þarf færni nemenda í samskiptum, uppbyggingu sjálfsmyndar, ákvarðanatöku, markmiðasetningu og streitustjórnun. Nauðsynlegt er að þau öðlist skilning á þeim áhrifum sem menning, fjölmiðlar og tækni geta haft á heilsu og líðan. Markmið þess er meðal annars að styðja börn og ungmenni svo að þau geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði.

Leggja þarf áherslu á daglega hreyfingu og markvisst hreyfiuppeldi, og leggja þannig grunn að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð til lífstíðar. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Mörg áhugamál barna og ungmenna stuðla að heilbrigði og geta nýst í þessu samhengi. Með því að gefa áhugasviðum þeirra rými í skólastarfinu gefst tækifæri til að vinna út frá styrkleikum og áhuga, byggja upp jákvæða sjálfsmynd og efla þannig heilbrigði. Vinna þarf náið með foreldrum, heilsugæslu og aðilum úr nærumhverfinu því að slík samvinna er forsenda þess að góður árangur náist.

Sköpun

Sköpunarþrá á sér rætur í meðfæddri forvitni, athafnaþrá og stuðlar að frumkvæði einstaklingsins. Sköpunargleði leiðir til námsáhuga þegar börn og ungmenni skynja merkingu viðfangsefnanna og gildi þeirra. Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun er að sjá fyrir það óorðna og framkvæma það. Sköpun byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit. Glíman við viðfangsefnið og það að finna lausn getur verið umbun sköpunarinnar í sjálfu sér. Sköpun brýtur hefðbundin mynstur, reglur og kerfi og veitir nýja sýn á fyrirbæri og viðteknar hugmyndir. Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Sköpun stuðlar að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi. Sköpun er mikilvægur grunnur að því að horfa til framtíðar og móta sér framtíðarsýn, taka þátt í mótun lýðræðissamfélags og skapa sér hlutverk innan þess.