Nám og kennsla

Allir nemendur geta tekið framförum í námi. Við skipulag kennslu er haft að leiðarljósi að mæta þörfum nemenda, að þeir tileinki sér þekkingu, leikni og jákvætt viðhorf og öðlist þá hæfni sem stefnt er að í námi. Lögð er áhersla á að efla almenna námshæfni (lykilhæfni) í gegnum þverfagleg og skapandi verkefni. 

Skapandi verkefni byggjast á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Þau stuðla að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011). 

Í Giljaskóla er markvisst stuðlað að því að nemendur læri að vinna saman. Lögð er áhersla á áhugavekjandi viðfangsefni þar sem kennari leiðbeinir nemendum og í gegnum leiðsögn sína stuðlar að auknum námsáhuga nemenda, eflingu námsvitundar og sjálfstæði í námi. 

Góðir kennsluhættir:

  • stuðla að auknu sjálfstæði nemenda í námi og trú þeirra á eigin getu.

  • leggja áherslu á að nýta styrkleika nemenda í námi og mæta þörfum nemenda.

  • skapa nemendum val um margvíslegar námsaðferðir og leiðir að markmiðum.

  • skapa ríkuleg tækifæri fyrir nemendur að læra saman í gegnum markvissa samvinnu og samræðu.

  • fela í sér fjölbreyttar námsmatsaðferðir þar sem nemandinn er virkur þátttakandi í mati á eigin framförum.

  • fela í sér regluleg leiðsegjandi samtöl kennara og nemenda.

  • veita nemendum tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum um viðfangsefni og skipulag í námi.

  • fela í sér stöðuga þróun við nýtingu tækni í námi og leit að nýjum leiðum.

  • eru skapandi, fjölbreyttir  og virkja áhugahvöt nemenda.

Teymiskennsla

Teymiskennsla felur í sér sameiginlega ábyrgð tveggja eða fleiri kennara á námi og líðan nemenda, kennslu og samstarfi við nemendur og foreldra þeirra. Teymið ígrundar og þróar starfshætti sína á markvissan hátt. Teymiskennsla er mikilvægur þáttur í markvissri skólaþróun, því hún stuðlar að betri árangri en hver og einn einstaklingur er fær um að ná og felur jafnframt í sér sameiginleg námstækifæri. 

Teymiskennsla í Giljaskóla er þegar kennarar í teymi:

  • byggja upp traust og styðja hverjir aðra

  • bera sameiginlega ábyrgð á tilteknum nemendahópi

  • vinna saman að skipulagi og undirbúningi náms og kennslu

  • vinna saman að kennslu nemendahópsins og deila með sér verkum

  • nýta kennslurýmið á skapandi og fjölbreyttan hátt með þarfir nemenda í huga 

  • nýta fjölbreyttar hópaskiptingar til að mæta námslegum og félagslegum þörfum nemenda

  • þekkja styrkleika hvers annars og nýta þá í samstarfinu

  • ígrunda og þróa aðferðir sínar og læra saman og hver af öðrum

Að mæta þörfum nemenda

Hugmyndin um menntun fyrir alla felur í sér áherslu á að mæta námslegum þörfum hvers og eins. Við námsaðlögun er horft til fjögurra þátta við skipulag kennslu: 

  • Markmið náms: hvað ætlast er til að nemendur kunni, skilji og geti gert að lokinni námseiningu. 

  • Námsferlið: hvernig stuðlað er að því að nemandi tileinki sér þá þekkingu, leikni og hæfni sem  stefnt er að.

  • Afrakstur náms: hvernig nemendur birta hæfni sína.

  • Tilfinningalegir og félagslegir þættir: hvernig við uppfyllum þarfir nemenda fyrir öryggi, viðurkenningu og að tilheyra hópi eða bekkjarsamfélagi. Í þessu felast m.a. samskipti nemenda og kennara, skipulag námsumhverfis, bekkjarbragur, hvatning, samræður, hópaskiptingar, sætaskipan.

Námsaðlögun getur falið í sér aðlögun á einum eða fleiri af þessum þáttum og tekur mið af námsforsendum, áhuga og námssniði nemenda. 

Námsaðlögun getur falið í sér gerð einstaklingsnámskrár þegar nemandi vinnur nær alfarið með aðlöguð námsmarkmið. Einstaklingsnámskrá er unnin af kennurum í samráði við barn og foreldra.