Skólareglur og skólasókn

Skólareglur

Uppeldis- og samskiptastefna Giljaskóla er Uppeldi til ábyrgðar (Restitution), í daglegu tali Uppbygging, en fræðast má um meginviðmið hennar á öðrum stað í skólanámskránni. Með Uppbyggingunni er lögð áhersla á uppbyggileg samskipti og kennslu sjálfsaga. Stefnt er að því að finna leiðir til lausnar á ágreiningsmálum með því að skoða hvernig við stjórnumst af innri hvötum frekar en ytri og finna út hver við viljum vera. Stefnan er lögð til grundvallar við úrlausn ágreinings- og agamála.

Skólareglur Giljaskóla eru unnar í samræmi við lög um grunnskóla (nr. 91/2008, 30. grein) og reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Þar er kveðið á um að grunnskólar skuli setja skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum þar sem úrræði og viðbrögð taki mið af persónuþroska og hæfni nemenda og stuðli sem best að jákvæðri hegðun.

Markmið skólareglna Giljaskóla eru að allir nemendur geti þroskað hæfileika sína og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans. Viðfangsefni allra í skólasamfélaginu er að byggja upp góðan starfsanda og jákvæðan skólabrag þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigði og jákvæðni einkenna öll samskipti. Ennfremur að stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti. Starfsfólk skóla og foreldrar þurfa að leitast við að vera nemendum góðar fyrirmyndir.

Í reglugerð um ábyrgð og skyldur segir m.a. „Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.“ Skólareglur gilda í skólanum, íþróttahúsum, sundstöðum, félagsmiðstöðvum og í öllum ferðum á vegum skólans en auk þess þurfa nemendur að fara eftir sérreglum sem gilda á þessum stöðum.

Umsjónarkennari kynnir nemendum skólareglur og ræðir mikilvægi þeirra. Á hverju hausti er farið vel yfir reglurnar en jafnframt eru þær rifjaðar upp síðar eftir efnum og aðstæðum.

Hlutverk nemenda er að:

 • leggja sig fram og gera sitt allra besta

 • sýna áhuga, metnað og seiglu í námi

 • sýna virðingu, tillitssemi og kurteisi

 • fara að fyrirmælum alls starfsfólks

 • vera stundvísir og hafa nauðsynleg gögn meðferðis

 • skapa og virða vinnufrið

 • fara vel með og bera ábyrgð á eigum sínum og annarra

 • vera til fyrirmyndar.

Öryggisreglur – Nemendur skulu aldrei:

 • beita ögrunum, andlegu- eða líkamlegu ofbeldi

 • koma með eða beita bareflum/vopnum eða eldfærum

 • reykingar og öll notkun tóbaks, þ.m.t. nef- og munntóbaks auk rafsígaretta, er óheimil í húsnæði og á lóð skólans sem og notkun áfengis og annarra vímugjafa. Sömu reglur gilda um ferðalög og aðra viðburði í nafni skólans. Sjá nánar Lög um tóbaksvarnir.

 • vera með síma í búningsklefum eða önnur tæki sem taka má myndir á

 • klifra á handriðum í skólanum eða henda einhverju fram af svölum.

Almennar reglur – Nemendur eiga að:

 • temja sér heilbrigðar og hollar lífsvenjur og koma með hollt nesti í skólann. Þeir eiga hvorki að neyta sælgætis né gosdrykkja í skólanum nema við sérstök tækifæri. Orkudrykkir eru aldrei leyfðir.

 • fara úr útiskóm og setja í hillur í forstofu og hengja yfirhafnir á snaga við kennslustofur

 • nýta frímínútur til útiveru og klæðast eftir veðri. Útivera í frímínútum er frjálst val fyrir 8.-10. bekk.

Almennar reglur – Nemendur mega EKKI:

 • vera í snjókasti nema á afmörkuðu svæði á túninu norðan við íþróttamiðstöðina. Annars staðar er það stranglega bannað. Aldrei má kasta í áttina að skólanum eða í þá sem ekki eru þátttakendur í leik á snjókastssvæði

 • yfirgefa skólalóð á skólatíma án leyfis.

 • nota síma eða önnur tæki í kennslustundum, matsal eða þar sem truflun hlýst af. Starfsmenn geta við vissar aðstæður veitt undanþágu frá þessari reglu. Síma skal geyma í tösku, ekki í vasa

 • vera með snjallúr opin/virk á skólatíma

 • taka myndir, hljóð eða myndskeið án leyfis skólayfirvalda. Gildir það í öllu skólastarfi og hvar sem farið er á vegum skólans

 • vera með tyggigúmmí í kennslustundum. Í 8.-10. bekk hafa kennarar þó leyfi til að veita undanþágu frá þessari reglu. Óheimilt er að setja notað tyggjó undir skólaborð eða stóla

 • vera með ólæti í skólaakstri. Þeir eiga að fara í biðröð við skólabíl, spenna öryggisbelti, sitja kyrr í sætum meðan bíllinn er á ferð og sýna bílstjóra alltaf fyllstu kurteisi

 • trufla kennslustundir hjá öðrum þegar þeir eru ekki í tíma.

 • nota vél- eða rafknúin farartæki, reiðhjól, hjólabretti, hlaupahjól, línu- eða hjólaskauta á skólalóðinni á skólatíma og opnunartíma Frístundar. Nemendum er heimilt að koma á reiðhjólum, hjólabrettum og línuskautum í skólann og það alfarið á ábyrgð foreldra. Bent er á að mikil þrengsli eru á skólalóðinni og hætta er á að hjólin verði fyrir hnjaski. Skólinn tekur ekki ábyrgð á þessum tækjum og hvetur nemendur til að læsa hjólum sínum því brögð eru að því að ólæstum reiðhjólum sé stolið við skólann. Þá skal einnig minnt á lög um notkun reiðhjólahjálma fyrir öll börn undir 14 ára aldri og að í umferðarlögum er mælst til þess að börn undir 10 ára aldri séu ekki ein á ferð á hjólum í umferðinni. Þegar nemendur eru í skipulögðum hjólatúrum á vegum skólans þurfa þeir að vera með hjálma.  

 • skapa hættu fyrir sjálfa sig og aðra á hjólabrettasvæði / brettaparki. Foreldrar eru ábyrgir fyrir því að börn á bretti séu með hjálma.

 

Reglur Giljaskóla um notkun farsíma og tækja sem hafa ýmsa sömu eiginleika (snjallúr, spjaldtölvur o.fl.)

 • Öll notkun farsíma er óheimil í kennslustundum. Farsími skal geymdur í skólatösku, skáp eða annars staðar, ekki í fatnaði/vösum eða á borði. Farsími skal stilltur á flugstillingu þannig að hann hvorki hringi né sendi merki (hljóð eða titring).

 • Kennari getur heimilað notkun farsíma í kennslustund í námslegum tilgangi. Ef kennari leyfir hlustun á tónlist meðan unnið er má einungis hlusta á lagalista/play-lista og ekki vera að leita að lögum eða skipta um lög eða lista.

 • Farsímanotkun nemenda er óheimil  í matsal, Frístund, búningsklefum, íþróttasal.

 • Mynd- og hljóðupptökur eru ALLTAF óheimilar nema með sérstöku samþykki kennara eða stjórnenda.

 • Einungis 8. – 10. bekkur má nota farsíma í frímínútum.

 • Litið er svo á að farsímar/snjallúr yngstu nemenda skólans séu fyrst og fremst öryggistæki sem notist eftir skóla.

 • Farsímar eru ávallt á ábyrgð eigenda sinna.

 • Brjóti nemandi farsímareglurnar í kennslustund skal honum boðið að velja á milli þess að afhenda símann, sem verður geymdur á skrifstofu skólans til loka skóladags nemandans eða fara á skrifstofu skólans og bíða þar uns foreldri hefur komið í skólann til að ljúka afgreiðslu málsins.

Viðurlög og úrvinnsluleiðir

Viðurlögum er beitt eftir aðstæðum, eðli og alvarleika brots eða tíðni vægari brota en alltaf er brugðist hart við brotum á öryggisreglum. Viðurlög eru skráð í Mentor.

Möguleg viðurlög eða úrræði þegar nemendur vilja ekki leiðrétta hegðun sína (í stafrófsröð):

 • áminning veitt

 • foreldrar koma í skólann með nemanda til fundar

 • foreldrar sitja kennslustundir tímabundið

 • gerður er skriflegur samningur milli foreldra, nemanda og skóla

 • kennari lætur foreldra vita af stöðu mála og ræðir framhaldið

 • máli vísað til skólastjórnenda

 • mál færist yfir til skólayfirvalda bæjarins eða barnaverndaryfirvalda

 • nemandi tekinn tímabundið úr aðstæðum

 • nemandi vinnur í einveru eða hegðunarveri (sjá kafla um hegðunarver aftar)

 • nemandi fær fylgdarmann (starfsmann eða foreldra) í frímínútum eða kennslustundum

 • nemenda boðin aðstoð námsráðgjafa eða skólaráðgjafa

 • nemanda vísað heim til næsta dags

 • nemanda vísað heim í allt að fimm daga

 • nemanda vísað úr skóla

 • nemandi sem brýtur skólareglur eða almenn lög á ferðalagi á vegum skólans verður sendur heim á kostnað foreldra.

 • nemandi sem notar síma eða önnur tæki í leyfisleysi fær hann val um að afhenda símann/tækið til geymslu á  skrifstofu það sem eftir er skóladags eða fara til skólastjórnanda. Hjá skólastjórnanda fær nemandinn val um að geyma símann á skrifstofu til loka skóladags eða fara heim og koma með foreldrum í viðtal. Þegar nemandi notar síma/tæki án leyfis er það skráð í Mentor

 • stundaskrá nemanda skert tímabundið.

ALVARLEGT BROT Á SKÓLAREGLUM EÐA LÖGBROT NEMENDA

Með alvarlegum brotum á skólareglm er m.a.a átt við: Alvarlegt ofbeldi, þjófnað, innbort í skóla (þar með talið í tölvukerfi), skemmdarverk, veggjakrot, tóbaksnotkun, veip, áfengis- og fíkniefnaneyslu, sölu og dreifingu fíkniefna.

Þegar ofangreind mál koma upp metur skólastjóri hverja af neðangreindum leiðum hann velur að fara:

LAUSNARLEIÐ SKÓLA

1. Starfsmaður tilkynnir skólastjórnanda um málið.

2. Skólastjórnandi tilkynnir foreldrum um málið og metur, í samráði við foreldra, hvort nemandi verði sendur heim meðan málið er til frekari skoðunar.

3. Ef samvinna næst ekki við foreldra getur komið til tímabundinnar brottvikningar nemanda á meðan ákvörðun er tekin um framhald málsins. Ef um brottvikningu er að ræða skal gæta stjórnsýslulaga nr. 93/1993, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upplýsingaskyldu.

4. Ef um ofbeldi er að ræða hefur skólastjórnandi samband við foreldra þolanda. Ef ekki er um kæru að ræða leitar skólastjórnandi heimildar foreldra til lausnar málsins innan skólans. Fundað með geranda og foreldrum hans um framhald málsins. Ráðgjöf og þjónusta sótt til fræðslusviðs og/eða fjölskyldusviðs Akureyrarbæjar. Tilkynning send til barnaverndar ef talin er þörf á.

5. Finnist ekki viðunandi lausn innan skólans er málinu vísað til fræðslusviðs. Hugsanlegt er að finna annað skólaúrræði.

AÐKOMA LÖGREGLU

1. Skólastjóri tilkynnir foreldrum um málið.

2. Skólastjóri tilkynnir lögreglu um málið og fer fram á rannsókn málsins.

3. Skólastjóri tilkynnir málið til barnaverndar. 4. Skólastjóri grípur til tímabundinnar brottvikningar nemanda ef hann metur þörf á því.

Um framhald máls fer samkvæmt niðurstöðu lögreglurannsóknar.

AÐKOMA BARNAVERNDAR - GRUNUR LEIKUR Á AÐ NEMANDI SÉ UNDIR ÁHRIFUM VÍMUEFNA Í SKÓLANUM / Á SKÓLALÓÐ EÐA GRUNUR UM VÍMUEFNANEYSLU EÐA DREIFINGU OG SÖLU.

1. Skólastjóri tilkynnir foreldrum um málið.

2. Skólastjóri tilkynnir málið til barnaverndar ef um grun er að ræða skv. 17. gr. barnaverndarlaga 2002, nr. 80. Tilkynnt til lögreglu ef grunur leikur á að nemandi stundi dreifingu eða sölu vímuefna.
3. Skólastjóri ákveður hvort vísa eigi nemanda úr skóla tímabundið meðan málið er óútkljáð í samráði við foreldra og barnavernd.

4. Ef nemandi er undir áhrifum vímuefna á skólatíma er haft samband við foreldra og barnavernd.

5. Teymi myndað um nemandann; heimili, skóli, forvarnarfulltrúi skólans og barnavernd.

6. Ef ágreiningur kemur upp milli foreldra og skóla skal leita til fræðslusviðs.

Hafi nemandi hegðað sér með þeim hætti að erfitt sé fyrir starfsmenn skólans að treysta honum til að fylgja reglum verður honum mögulega meinuð þátttaka í skólaferð eða farið fram á að foreldri komi með í ferðina.

Skólasókn og ástundun

Forföll, s.s. veikindi eða fjarvist vegna óveðurs, skal tilkynna við upphaf kennslu hvers dags. Forföll sem ekki eru tilkynnt samdægurs af forráðmanni nemanda eru skráð sem óheimil fjarvist. Langvarandi veikindi eða forföll skal staðfesta með læknisvottorði.

Forráðamenn nemenda geta sótt um tímabundna undanþágu frá skólasókn (leyfi) á sérstökum eyðublöðum. Umsjónarkennari veitir leyfi allt að tveimur dögum en lengra leyfi þarf að sækja um til stjórnenda. Í 15. grein grunnskólalaga segir: „Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu í samráði við umsjónarkennara, telji hann til þess gildar ástæður. Forráðamaður skal þá sjá til þess að nemandi vinni upp það sem hann kann að missa úr námi á meðan á undanþágu stendur.“

Nemendur sem að mati foreldra komast ekki í skólann vegna illviðris teljast vera í leyfi. Foreldrar þurfa að tilkynna skólanum ákvörðun sína í sambandi við slík óveðursleyfi.

Kennarar fylgjast með ástundun og hegðun nemenda og skrá eftirfarandi atriði í Mentor þegar tilefni er til:

 • án heimavinnu

 • án gagna

 • vinnur ekki í tíma

 • truflar kennslu eða sýnir ótilhlýðilega hegðun

 • vísað úr kennslustund

Um tvær síðasttöldu færslurnar skrifa kennarar einnig í dagbók.

Ef skólasókn nemenda er ekki viðunandi er nemanda og foreldrum fyrst gert viðvart, síðan eru þeir boðaðir á fund með umsjónarkennara þar sem farið er yfir stöðuna. Ef það ber ekki tilætlaðan árangur er málinu vísað áfram til skólastjórnenda.

Ef um alvarleg frávik í skólasókn er að ræða skal umsjónarkennari hafa samband við foreldra, ræða stöðuna og leita skýringa. Skólastjórnendur skulu upplýstir um málið. Miðað er við að 20-25% fjarvistir séu alvarlegar. Ef um mikil veikindaforföll er að ræða leitar skólahjúkunarfræðingur skýringa hjá foreldri/lækni.

Verði ekki ráðin bót á skólasókn í kjölfarið kallar umsjónarkennari foreldra og nemanda til viðtals með stjórnendum/eða öðrum ráðgjöfum innan skólans til að gera skriflegan saming með áætlun um úrbætur. Verði slíkur samningur brotinn skal reynt að leita lausna á öðrum fundi með skólastjórnendum og foreldrum.

Þyki sýnt að ekki sé hægt að leysa málið innan skólans, m.a. með aðkomu nemendaverndarráðs, er málinu vísað skriflega til skólayfirvalda eða barnaverndarnefndar.

Framangreint ferli er til viðmiðunar en við alvarleg brot er hægt að flýta ferlinu eða breyta því.

Ástundun nemenda og aðgerðir skóla

Grunnskólarnir á Akureyri hafa haft samvinnu um gerð eftirfarandi viðmiða vegna ástundunar og verður stuðst við þau viðmið í Giljaskóla þótt ekki sé gefin sérstök ástundunareinkunn.

Ástundunaryfirlit er sent heim í tölvupósti vikulega.

Punktagjöf á önn (fyrir og eftir áramót) – Óheimilar fjarvistir og óstundvísi eru reiknaðar til punkta:

 • Ef nemandi/foreldri gera ekki strax athugasemdir við ástundunarfærsluna skoðast hún samþykkt. Fyrir fjarvist úr kennslustund fær nemandi 2 punkta.

 • Fyrir seinkomu fær nemandi 1 punkt.  

 • Komi nemandi 20 mínútum of seint eða meira fær hann fjarvist fyrir kennslustundina.

 

Punktar

Aðgerðir

10

Ef nemandi er kominn með 10 stig ræðir umsjónarkennari við nemandann og sendir upplýsingar um  skólasókn til foreldra/ forráðamanna.

20

Ef nemandi er kominn með 20 stig ræðir kennarinn aftur við  nemandann, leitar orsaka fyrir vandanum og leitar lausna með honum. Haft er samband við foreldra.

30

Ef  nemandi er kominn með 30 stig eru foreldrar boðaðir á fund með umsjónarkennara og stjórnanda þar sem  er leitað að leiðum til úrbóta.

40

Ef nemandi fer yfir 40 stig er málinu vísað til nemendaverndarráðs skóla sem  m.a. getur óskað eftir aðstoð fræðslu- og velferðarsviðs. Fagfólk þessara sviða vinnur áfram með málið í  samstarfi við skóla. Málastjóri skipaður úr röðum félags- eða skólaþjónustu.

60

Fari nemandi yfir 60 stig tekur  barnavernd við málinu. 

 

Um veikindi sem ekki eiga sér augljósar skýringar (eins og t.d. skýringar í læknisvottorði eða öðrum upplýsingum sem fyrir liggja):

▪ Umsjónarkennari / skólahjúkrunarfræðingur kallar eftir læknisvottorði fari veikindi fram yfir 10 daga samfellt. ▪ Umsjónarkennari vísar máli nemenda til nemendaverndarráðs fari veikindin yfir 15 daga á önn. Þar er metið til hvaða aðgerða skuli grípa og niðurstaðan skráð. Ef nemandi hefur sögu um veikindi í hverri viku skal fundað með forráðamönnum, umsjónarkennara og stjórnanda og farið yfir stöðuna og næstu skref ákveðin. ▪ Haldi ítrekuð veikindi áfram og viðunandi skýringar fást ekki skal nemendaverndarráð taka ákvörðun um hvort málinu verði vísað áfram til HSN og/eða tilkynnt til barnaverndar.

Leyfi nemanda í lengri tíma s.s. vegna æfinga eða ferðalaga

Umsókn um lengri leyfi nemanda þarf að vera skriflegt og samþykkt af skólastjóra. Taka þarf fram ábyrgð foreldra á námi barnsins og að þeir tryggi að nemandinn haldi námsáætlun skóla.

Viðbrögð vegna óviðunandi hegðunar í kennslustundum

Þegar nemandi sinnir námi sínu illa, gefur ekki vinnufrið eða sýnir aðra hegðun sem telst óviðunandi þá getur kennari vísað honum úr kennslustund(um) og til stjórnenda. Kennari hringir í ritara og sendir nemanda eða kemur með hann á skrifstofu skólans. Í kjölfarið verður nemandi ýmist látinn vinna í fundarherbergi eða á skrifstofu hjá stjórnanda. Hve lengi nemandi vinnur annars staðar fer eftir aðstæðum og sameiginlegu mati kennara og stjórnanda hverju sinni.

Það er í anda Uppbyggingar að nemendur læri að bera ábyrgð á eigin hegðun. Kennari gerir nemanda grein fyrir að það er undir honum sjálfum komið að velja milli þess að bæta hegðun strax eða fara úr hópnum. Nemandinn fær þannig alltaf tækifæri til að bæta sig áður en til brottvísunar kemur. Þegar gripið er til þessa ráðs er nemandi aðstoðaður við nám eftir því sem hann kýs og aðstæður leyfa. Kennari sem vísar nemanda úr tíma skráir ákvörðun sína í Mentor og sendir skráninguna til foreldra og stjórnenda.

 

Verklagsreglur vegna nemenda í grunnskóla með fjölþættan vanda