Nám og kennsla

Við skipulag kennslu er haft að leiðarljósi að mæta námsþörfum nemenda, að þeir tileinki sér þekkingu, leikni og jákvætt viðhorf  og öðlist þá hæfni sem stefnt er að í námi. Lögð er áhersla á skapandi verkefni og að koma til móts við nemendur á forsendum hvers og eins. Skapandi verkefni byggjast á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Sköpun stuðlar að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi. Sköpun er mikilvægur grunnur að því að horfa til framtíðar og móta sér framtíðarsýn, taka þátt í mótun lýðræðissamfélags og skapa sér hlutverk innan þess. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpunargleði leiðir til námsáhuga þegar börn og ungmenni skynja merkingu viðfangsefnanna og gildi þeirra. 

Í Giljaskóla er unnið er að því að flétta grunnþættina sex inn í allt skólastarfið. Viðfangsefni og verkefni eru valin af kostgæfni, hæfilega krefjandi til að gera öllum nemendum kleift að ná hámarks námsárangri. Í Giljaskóla er markvisst reynt að stuðla að samvinnu nemenda. Nemendum er gerð grein fyrir viðfangsefnum og markmiðum þeirra og leiðum til að uppfylla þau. Á grundvelli sameiginlegra gilda sköpum við hvetjandi námsumhverfi þar sem notaðar eru fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir. 

Teymiskennsla - teymisvinna

Árangursrík skólaþróun kallar á að kennarar vinni saman að því að rýna í starf sitt og leita leiða til að bæta það og starf skólans í heild. Rannsóknir hafi sýnt betri námsárangur í skólum þar sem að kennarar vinna saman, ígrunda og ræða nám og árangursríkar náms- og kennsluaðferðir. 

Í Giljaskóla er lögð áhersla á að kennarar starfi í teymum. Teymiskennsla er þegar kennarar bera sameiginlega ábyrgð á nemendahópi árgangs og vinna saman að undirbúningi náms, kennslu og námsmats. Litið er á kennara eins árgangs sem kennarateymi. Markmið teymiskennslu felast m.a. í skapa meiri sveigjanleika og svigrúm fyrir kennara að koma til móts við þarfir nemenda. Í fundaskipulagi skólans er gert ráð fyrir að kennarateymi hafi tíma til að þróa sig sem kennarateymi.  

Náms- og kennsluáætlanir

Námsáætlanir með markmiðum byggðar á aðalnámskrá grunnskóla eru sameiginlegur grunnur undir nám og kennslu í Giljaskóla. Kennarar gera skriflegar námsáætlanir, bæði til lengri og skemmri tíma, sem þeir meta reglulega og endurskoða að vori. Í námsáætlunum setja kennarar fram markmið, námsefni, kennsluaðferðir og námsmat í hverri námsgrein. Við upphaf hverrar annar vinna kennarar einnig ítarlega kennsluáætlun fyrir hverja námsgrein. Í kennsluáætlunum eiga að koma m.a. fram þau efnisatriði sem kennd verða, tenging við grunnþætti, tímarammi, ásamt skrá yfir námsefni. Námsáætlanir Giljaskóla eru birtar á heimasíðu skólans, www.giljaskoli.is. Þar geta foreldrar og nemendur nálgast upplýsingarnar. Námsáætlun sem tekur til heils vetrar þarf að vera tilbúin í upphafi skólaársins. Að vori metur kennari hvernig til hefur tekist að vinna samkvæmt námsáætlun vetrarins. Skólastjórnendur fylgjast með gæðum námsáætlana og skilum.