Heimanámsstefna

Heimanámsstefna – í endurskoðun

Áhugi sem foreldrar sýna á námi barna sinna getur skipt sköpum varðandi námsárangur barnanna. Einfaldasta leiðin fyrir foreldra til að fylgjast með er að setjast reglulega niður með barni sínu og aðstoða það við heimanámið. Í byrjun skólagöngu er mikilvægast að hlusta á barnið lesa, hvetja það við ritun, hjálpa því að fletta upp í orðabók, hlýða yfir margföldunartöfluna o.s.frv. Foreldri þarf ekki nauðsynlega að kunna námsefni vel til að aðstoða við heimanámið, það er hvatningin og áhuginn sem mestu máli skiptir. Ef barnið lendir í vandræðum og enginn á heimilinu áttar sig á hvað á að gera er ágætt að skrifa athugasemd til kennarans svo að hann átti sig á stöðunni og geti brugðist við ef þörf krefur.  

Markmið með heimanámi nemenda í Giljaskóla er að barnið læri að sýna sjálfsaga, læri að vinna sjálfstætt, þjálfun í mikilvægum námsþáttum og undirbúningur undir kennslustundir. Ekki er síðra að ýta undir jákvæð samskipti og skapa samræður um það sem börnin eru að gera á daginn. Góð og jákvæð samskipti foreldra og barna meðan á heimanáminu stendur hafa mikil áhrif á námsárangur.  

Taka þarf mið af einstaklingsþörfum við skipulagningu heimanáms. Foreldrar geta óskað eftir auknu heimanámi og ef þeir eiga í vandræðum með að fá börn sín til að læra heima biðjum við þá að hafa samband við skólann og í sameiningu hjálpumst við að við að leysa málið farsællega.  

Heimanám á yngsta stigi 

Megináherslan er á heimalestur. Nemendur eiga að lesa heima, fimm sinnum í viku, og foreldrar þurfa að fylgjast með og skrá niður það sem lesið var og kvitta fyrir. Góð færni í læsi er undirstaða alls annars náms og því afar mikilvægt að þeirri þjálfun sé vel sinnt frá upphafi. Með lestri og samræðum er einnig byggt undir hugtakaskilning og orðaforða sem styður við alla tjáningu og samskipti en það verða enn mikilvægari þættir í nánustu framtíð og ráða úrslitum fyrir velgengni í samskiptum, námi og á vinnumarkaði. 

 Heimanám vikunnar er að jafnaði sent heim á föstudegi og skilað til baka föstudaginn þar á eftir. Það á ávallt að vera í sérstakri heimanámsmöppu sem auðveldar kennara og foreldrum að halda utan um það.

 Nemendur í grunnskóla eru í fullri vinnu í skólanum. Allt heimanám fyrir utan heimalestur er aukavinna og má líta á sem sýnishorn á vinnu nemenda í skólanum. Ef foreldrar óska eftir auknu heimanámi bendum við á gagnvirkt námsefni á vef Menntamálastofnunar, mms.is. Heimanám birtist inni á Mentor vikulega og á föstudögum senda umsjónarkennarar póst með ýmsum upplýsingum. 

Heimanám á miðstigi 

Meginmarkmið með heimanámi á miðstigi er að ljúka vinnu sem ekki tókst að ljúka í skólanum og stundum einnig undirbúningur undir kennslustundir. Jafnframt er það æfing í sjálfstæðum vinnubrögðum og leið fyrir foreldra til að fylgjast með námi barna sinna.  Miðað er við að heimanám á virkum dögum geti að hámarki orðið 30-40 mínútur á dag. Lestur er áfram hluti af daglegu heimanámi eins og á yngsta stigi. Nemendur í grunnskóla eru í fullri vinnu í skólanum. Það er því mikilvægt að íþyngja þeim ekki um of með aukavinnu í heimanámi. Ef foreldrar óska eftir auknu heimanámi bendum við á gagnvirkt námsefni á vef Menntamálastofnunar, mms.is. Heimanám birtist inni á Mentor vikulega og á föstudögum senda umsjónarkennarar póst með ýmsum upplýsingum. 

Heimanám á unglingastigi 

Markmið með heimanámi á unglingastigi er að nemendur vinni frekar með þá námsþætti sem verið er að vinna með í skólanum og fái þannig aukið tækifæri til að byggja upp og dýpka þekkingu sína og hæfni. Kennarar leitast við að stilla heimanámi í hóf á hverjum degi enda er skóladagur unglinga langur. Mikilvægt er að íþyngja nemendum ekki um of með heimavinnu og taka tillit til ólíkra þarfa nemenda.  Ef foreldrar óska eftir auknu heimanámi bendum við á gagnvirkt námsefni á vef Menntamálastofnunar, mms.is. Heimanám birtist inni á Mentor og á föstudögum senda umsjónarkennarar póst með ýmsum upplýsingum. 

Á álagstímum skal gæta þess að heimavinnu sé stillt í hóf.

Heimanámsstefna verður endurskoðuð skólaárið 2019-2020