Fréttir

16.09.2021

Valgreinar hefjast á miðstigi

Í dag fór af stað kennsla í valgreinum hjá 5. - 7. bekk. Það eru umsjónarkennarar stigsins sem bjóða upp á valið ásamt öðrum kennurum og samstarfsaðilum. Hver valgreinalota stendur yfir í 5 vikur og fer kennsla fram í tvöfaldri kennslustund eftir hádegi á fimmtudögum. Stefnt er að 4-5 valgreinalotum yfir skólaárið. Í fyrstu valgreinalotunni er áhersla lögð á að bjóða upp á mikla útiveru og hreyfingu og mun framboðið taka breytingum á skólaárinu. Markmið með því að bjóða upp á val á miðstigi er: að gefa nemendum tækifæri til að velja sér áhersluþætti í skólastarfinu. að auka blöndun milli árganga og gefa nemendum þannig tækifæri til að opna á félagsleg tengsl. að gefa nemendum tækifæri á að dýpka þekkingu sína og víkka sjóndeildarhringinn í samræmi við áhuga þeirra. að efla vinnugleði, gefa nemendum kost á að velja sér viðfangsefni og auka þannig lýðræði í skólastarfi. Fyrsti valtíminn fór mjög vel af stað, enda veðrið gott og nemendur afar spenntir og jákvæðir fyrir þessari nýbreytni. Hér er hægt að skoða valsíðuna, en hún verður uppfærð áður en val fyrir næstu lotu hefst. Nemendur hafa fengið tækifæri til að koma með tillögur að valgreinum og munu kennarar skoða þær vandlega áður en undirbúningur fyrir næstu lotu hefst.
10.09.2021

Hvalaþema í 4. bekk

Undanfarnar tvær vikur hafa nemendur í 4. bekk verið að læra um hvali í Byrjendalæsi samþætt við aðrar námsgreinar. Unnin hafa verið verkefni tengd markmiðum í ýmsum námsgreinum og mikil skapandi vinna farið fram. Nemendur hafa smíðað sér hvalasmjörhníf í smíðum og málað skuggamyndir af hvölum í sjónlistum. Nemendur hafa aflað sér allskyns upplýsinga og útbúið veggspjöld sem þeir munu kynna í dag, föstudag. Tæknin hefur að vanda verið mikið nýtt. Áhugi nemenda á viðfangsefninu hefur verið mikill og skilað það magnaðri vinnu. Hvalirnir munu prýða ganga skólans okkur til yndisauka.
07.09.2021

Hvatningarátakið Göngum í skólann hefst á morgun

Á morgun, miðvikudaginn 8. september, hefst hvatningarátakið GÖNGUM Í SKÓLANN. Við erum búin að skrá okkur til leiks og þar sem við erum heilsueflandi skóli viljum við hvetja foreldra, nemendur og starfsfólk til virkrar þátttöku. Ýmis fræðsla og hvatning fer fram í skólanum en við hvetjum foreldra til að nýta tækifærið til að hvetja börnin til að koma með virkum hætti í skólann, þ.e.a.s. gangandi, hjólandi eða með strætó. Einnig gefur þetta gott tækifæri til umferðarfræðslu, en í því skyni bendum við á fræðsluefni á umferd.is Þá geta foreldrar geta nýtt hvatninguna til að ganga og hjóla með börnunum um nærumhverfið, til að kynnast skemmilegum leiðum og stígum. Eins getur verið gaman og fróðlegt að fara í strætóferðir um bæinn í þeim tilgangi að hvetja börnin til að nýta sér þessar fjölbreyttu leiðir til að komast á milli staða í framtíðinni. Nýtum okkur þetta tækifæri til að auka fræðslu og hreyfingu. Áfram Giljaskóli!