Fréttir

Skólahreysti - bein útsending á RÚV í kvöld kl. 20!

Bein útsending verður frá Skólahreysti í kvöld kl. 20:00 á RÚV. Keppendur Giljaskóla eru: Upphýfingar og dýfur: Viktor Smári Sveinsson Armbeygjur og hreystigreip: María Sól Jónsdóttir Hraðabraut: Bergur Örn Ægisson og Emilía Mist Gestsdóttir. Við óskum þeim góðs gengis og hvetjum alla til að horfa á. Áfram Giljaskóli!
Lesa meira

Höldum áfram góðum sóttvörnum

Kæru foreldrar / forráðamenn barna í Giljaskóla Við þurfum áfram að vera á varðbergi gagnvart covid-19. Hér í skólanum reynum okkar besta til að gæta sóttvarna en við þurfum nauðsynlega ykkar samvinnu í þessum efnum áfram. Höfum þrennt alltaf í huga: 1. Ef nemandi sýnir einkenni sem gætu tengst Covid -19, vinsamlega haldið honum heima. 2. Ef einhver fjölskyldumeðlimur er á leið í sýnatöku, vinsamlega sendið börnin ekki í skólann fyrr en niðurstaða er fengin. 3. Látið ritara vita ef um er að ræða veikindi sem tengjast Covid-19. Eins og flestir vita er nú komið eitt virkt smit á Akureyri og því þurfum við að herða okkur og vera vel vakandi. Við biðjum ykkur því að ítreka við börnin ykkar að þau verða að spritta hendur við komu í skólann og þegar þau fara í matsal. Sjá nánar frétt RÚV: https://www.ruv.is/frett/2021/04/29/eitt-smit-stadfest-a-akureyri
Lesa meira

Fræðsluefni um rafhlaupahjól og notkun þeirra frá Samgöngustofu

Vinsældir rafhlaupahjóla hafa aukist að undanförnu hér á landi og höfum við hjá Samgöngustofu tekið saman upplýsingar um notkun þeirra og öryggi á www.samgongustofa.is/rafhlaupahjol. Við hvetjum kennara til að ræða við nemendur sína, sýna myndina, fara yfir fræðsluefnið og taka þetta til umræðu í skólanum. Þá óskum við eftir ykkar aðstoð við að koma þessu á framfæri á heimasíðu skólans, senda áfram til forsjáraðila, foreldrafélaga, nemendafélaga, starfsfólks skóla og frístundaheimila.
Lesa meira

Frá Giljaskóla

Í ljósi nýrra upplýsinga um hertar sóttvarnarreglur á landsvísu sem taka gildi á miðnætti er skólanum lokað. Nemendur í Giljaskóla eru því komnir í páskafrí. Frístund verður einnig lokuð þennan sama tíma. Þriðjudagurinn 6. apríl er skipulagsdagur. Nánari upplýsingar um skólahald eftir páska verður sent út þegar þær liggja fyrir. Gleðilega páska
Lesa meira

Árshátíðardagar 1. - 7. bekkjar og sérdeildar í Giljaskóla

Nú standa yfir árshátíðardagar í Giljaskóla. Þeir eru með breyttu sniði að þessu sinni vegna sóttvarnarráðstafana og því eru ekki foreldrasýninar eða kaffihlaðborð, Hátíðin var samt haldin hjá nemendum og starfsfólki og í gær voru fjölbreytt, metnaðarfull og skemmtileg atriði sýnd á nemendasýningm. Nemendur sérdeildar gerðu líflegt og skemmtilegt tónlistarmyndband, 1. - 3. bekkur sýndi Tröll í þremur hlutum, 4. bekkur kynnti okkur fyrir Bakkabræðrum, 5. bekkur sýndi Ávaxtakörfuna, 6. bekkur var með skemmtilegt taktfast dansatriði og 7. bekkur sýndi stutt skemmtileg myndbrot og sungu síðan vinalag við fallegan texta Ingunnar Sigmarsdóttur skólasafnskenara Giljaskóla. Mikil stemning var í húsinu og gleðin við völd :) Í dag vinna nemendur á stöðvum í blönduðum hópum og enda skóladaginn á diskói í íþróttasal skólans.
Lesa meira

Ásmundur Einar heimsækir Giljaskóla

Í dag, þriðjudaginn 23. mars, kom Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra í heimsókn til okkar í Giljaskóla. Tilefnið var að kynnast starfinu í Giljaskóla og heyra hvaða áhrif það hefur á skólastarfið að Giljaskóli sé orðinn Réttindaskóli Unicef. Þrír nemendur skólans, þau Brynja Dís, Ívan Elí og Kristinn Örn, fulltrúar úr réttindaráði skólans, gengu um skólann með ráðherra, sögðu frá skólastarfinu og svöruðu fyrirspurnum ásamt fulltrúum starfsfólks í réttindaráði og stjórnendum. Við þökkum Ásmundi Einari hjartanlega fyrir komuna!
Lesa meira

ABC söfnun í Giljaskóla

Nú er söfnun fyrir Ibrahim og Kevine er lokið. Við náðum markmiðinu, en það var að safna 84 þúsund krónum sem dugar til að greiða skólagjöld fyrir þau í eitt ár. Við gerðum aðeins betur en það, söfnuðum 93.542 kr. Það sem kom umfram verður geymt á reikningi og getur komið sér vel síðar. Í fyrra gátum við notað pening sem hafði safnast á reikninginn til að aðstoða fjölskyldur ABC barna í formi matarpakka, en Covid hafði haft þau áhrif að matur var dýr og erfiðara að nálgast hann.
Lesa meira

Stuttmyndadagar

Í næstu viku þriðjudaginn 16. mars - fimmtudagsins 18. mars verða stuttmyndadagar. Þá vinna nemendur unglingastigs í 6 hópum og gera jafnmargar stuttmyndir eftir handritum sem unnin voru í vetur. Á þriðjudag og miðvikudag verður unnið í stuttmyndum frá 8:10-13:00 og á fimmtudaginn frá 8:10-11:10 en eftir hádegið fer 8. bekkur í íþróttir, 9. bekkur í list- og verkgreinar og 10. bekkur í sund. Skyldumæting í valgreinar, stærðfræðival fellur niður.
Lesa meira

Samræmdum könnunarprófum í 9. bekk frestað

Í samræmdu könnunarprófi í íslensku í 9. bekk sem lagt var fyrir í morgun komu upp tæknileg vandamál í prófakerfi. Vandinn lýsti sér í því að nokkrir nemendur áttu erfitt með að komast inn í prófin eða duttu ítrekað út úr kerfinu. Allir nemendur Giljaskóla náðu þó að ljúka prófinu. Menntamálastofnun hefur ákveðið að fresta samræmdum könnunarprófum í stærðfræði og ensku í þessari viku og í Giljaskóla munu þau verða lögð fyrir í vikunni fyrir páskafrí.
Lesa meira

Stóra upplestrarkeppnin í Giljaskóla

Í morgun áttum við góða stund, þar sem nemendur úr 7. bekk tóku þátt í forkeppni Giljaskóla fyrir Stóru upplestrarkeppnina. Nemendur lásu textabrot úr bókinni Ys og þys út af öllu eftir Hjalta Halldórsson og ljóð úr nýjustu ljóðabók Þórarins Eldjárns, Fuglaþrugl og naflakrafl. Við mat á lestri er horft til ýmissa þátta, svo sem framburðar, raddstyrks, blæbrigða í lestri og hve nemendum tekst vel að túlka textann. Að lokum valdi dómnefndin þær Kolfinnu Stefánsdóttur og Matthildi Ingimarsdóttur sem fulltrúa Giljaskóla í lokakeppninni og Tinna Dís Axelsdóttir verður varamaður þeirra. Lokakeppnin mun fara fram í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri þann 10. mars næstkomandi.
Lesa meira