Fréttir

Áheitahlaup til styrktar UNICEF

Áheitahlaup Giljaskóla til styrktar verkefna UNICEF fór fram 28. maí. Safnaðist 301.040 kr. Einhverjir kusu að leggja beint inn á reikning UNICEF fyrst það var í boði. Höfum ekki yfirlit hve mikið það var til viðbótar. Frábært framlag frá nemendum og aðstandendum :)
Lesa meira

Skólaslit Giljaskóla þriðjudaginn 8. júní 2021

Þá er þetta skólaár senn liðið. Skólaslit Giljaskóla verða þriðjudaginn 8. júní. Þau verða með ögn breyttu sniði eins og í fyrra, þar sem við búum enn við fjöldatakmarkanir vegna covid-19. Því er ekki unnt að bjóða foreldrum nemenda í 1. - 9. bekk með á skólaslitin að þessu sinni. Skólaslit 1. - 9. bekkjar og sérdeildar Nemendur mæta í íþróttasal Giljaskóla en fara síðan í stofur til að kveðja bekk og umsjónarkennara. Nemendur í 1. - 3. bekk mæta á sal kl. 9:00 Nemendur í 4. - 6. bekk og 1. - 9. bekk sérdeildar mæta á sal kl. 9:30 Nemendur í 7. - 9. bekk mæta á sal kl. 10:00 Útskrift 10. bekkjar Útskrift 10. bekkjar verður í íþróttasalnum kl. 16:00. Myndataka af útskriftarnemum og kennurum fer fram í íþróttasalnum fyrir athöfn (um 15:30). Eftir athöfnina verður kaffi í matsalnum fyrir útskriftarnema og foreldra/forráðamenn.
Lesa meira

Fræðsluráð veitir viðurkenningar

Á miðvikudaginn 2. júní veitti fræðsluráð Akureyrarbæjar viðurkenningar þeim sem hafa skarað sérstaklega fram úr í skólastarfi. Þrír starfsmenn frá Giljaskóla, þær Steinunn Línbjörg, Thelma Snorra og Inga Dís hlutu viðurkenningu fyrir nemendastýrð námssamtöl. Inga Dís fékk einnig viðurkenningu fyrir nýstárlega kennsluhætti og skapandi verkefni. Óskum við þeim innilega til hamingju. Hér má sjá frétt um þennan viðburð á heimasíðu Akureyrarbæjar
Lesa meira

Unicef hreyfingin

Í dag fór fram áheitahlaup Giljaskóla til styrktar verkefna UNICEF. Það voru kátir krakkar sem hlupu í blíðskaparveðri og margir náðu markmiðum sínum og gott betur. Allir þeir sem tóku þátt í hlaupinu fengu svokallaðan "heimspassa" og límmiðarnir inn í honum eru til marks um hversu marga hringi viðkomandi fór. Þeir sem hétu á sín börn geta sett peninginn í umslagið sem fór heim í vikunni og nemendur koma með það í skólann og skila til sinna umsjónarkennara. Einnig er hægt að leggja beint inn á reikning UNICEF og eru upplýsingar varðandi það hér fyrir neðan. Þess ber að geta að áheitin eru meira til gamans og ef að fólk vill styrkja gott málefni þá má senda pening í umslagi eða leggja inn burtséð frá hlaupum.
Lesa meira

Unicef hreyfingin næstkomandi föstudag

Næstkomandi föstudag munum við í Giljaskóla taka þátt í UNICEF - hreyfingunni, sem er áheitahlaup til styrktar Unicef. Þessa vikuna munu nemendur koma heim með áheitablöð fyrir Unicef hreyfinguna. Um er að ræða áheitahlaup, þar sem nemendur safna áheitum til styrktar Unicef sem vinnur að því að tryggja aðgang allra að bóluefni. Hlaupið sjálft fer svo fram næstkomandi föstudag, þar sem nemendur hlaupa ákveðinn hring og því fleiri hringir sem farnir eru því meiri peningur safnast. Ár hvert leggur Unicef áherlsu á ákveðið málefni og ekki kemur á óvart að málefni ársins í ár eru bólusetningar. Fjallað verður um málefnið í skólanum auk þess sem nemendum gefst kostur á að horfa á stutt myndband frá Unicef um mikilvægi bólusetninga og réttindi barna gagnvart þeim. Við hvetjum aðstandendur til að kynna sér það líka, myndbandið má finna hér.
Lesa meira

Líf og fjör hjá 10. bekk

Nú styttist í annan endann á skólagöngu nemenda í árgangi 2005. Þau hafa átt annríkt í vetur við að afla fjár fyrir útskriftarferð sem farin verður fyrir skólalok. Í síðustu viku héldu þau vel heppnuð böll fyrir yngri nemendur skólans og undir lok þessarar viku var haldin árshátíð hjá unglingastigi skólans. Stuttmyndasýningar voru haldnar, en nemendur unglingadeildar vinna árlega handrit að stuttmyndum og búa til stuttmyndir. Ýmis verðlaun voru veitt eftir stuttmyndasýningu. Árshátíðin var með breyttu sniði vegna samkomutakmarkana. Fyrst var kvöldverður nemenda 10. bekkjar með starfsfólki og svo var haldið ball sem var bundið þeim takmörkunum að einungis 100 nemendur máttu sækja það. Því var ekki unnt að bjóða nemendum annarra skóla að þessu sinni. Ballið var samt sem áður vel heppnað, nemendur skemmtu sér vel og stóðu nemendur 10. bekkjar sig frábærlega í öllum undirbúningi og frágangi. Á dögunum fóru svo nemendur 10. bekkjar austur fyrir Vaðlaheiði og dreifðu áburði og birkifræjum og gróðursettur birkiplöntur við gangnamunna Vaðlaheiðarganga. Sjá frétt og myndir á fb síðu Vaðlaheiðarganga.
Lesa meira

Spilavist unglingastigs

Efnt var til hinnar árlegu félagsvistar unglingastigs Giljaskóla þann 17. maí sl. Þá komu saman allir nemendur í 8., 9. og 10. bekk og spiluð vist upp á gamla mátann. Venja er að spilað sé saman í aðdraganda jóla en vegna fjöldatakmarkana í desember varð að fresta spilamennskunni fram á vorið.
Lesa meira

Skólahreysti

Grunnskólar á norðurlandi kepptu sín á milli í Skólahreysti á Akureyri þriðjudaginn 4. maí. Giljaskóli sendi lið til keppni og fyrir hönd skólans kepptu þau: Upphýfingar og dýfur: Viktor Smári Armbeygjur og hreystigreip: María Sól Hraðabraut: Bergur Örn og Emilía Mist Varamenn: Freydís Jóna og Ingþór Bjarki Þau stóðu sig frábærlega og má nefna að María Sól vann sínar greinar nokkuð örugglega. Giljaskóli endaði í 4. sæti og erum við ákaflega stollt af okkar fólki :)
Lesa meira

Skólahreysti - bein útsending á RÚV í kvöld kl. 20!

Bein útsending verður frá Skólahreysti í kvöld kl. 20:00 á RÚV. Keppendur Giljaskóla eru: Upphýfingar og dýfur: Viktor Smári Sveinsson Armbeygjur og hreystigreip: María Sól Jónsdóttir Hraðabraut: Bergur Örn Ægisson og Emilía Mist Gestsdóttir. Við óskum þeim góðs gengis og hvetjum alla til að horfa á. Áfram Giljaskóli!
Lesa meira

Höldum áfram góðum sóttvörnum

Kæru foreldrar / forráðamenn barna í Giljaskóla Við þurfum áfram að vera á varðbergi gagnvart covid-19. Hér í skólanum reynum okkar besta til að gæta sóttvarna en við þurfum nauðsynlega ykkar samvinnu í þessum efnum áfram. Höfum þrennt alltaf í huga: 1. Ef nemandi sýnir einkenni sem gætu tengst Covid -19, vinsamlega haldið honum heima. 2. Ef einhver fjölskyldumeðlimur er á leið í sýnatöku, vinsamlega sendið börnin ekki í skólann fyrr en niðurstaða er fengin. 3. Látið ritara vita ef um er að ræða veikindi sem tengjast Covid-19. Eins og flestir vita er nú komið eitt virkt smit á Akureyri og því þurfum við að herða okkur og vera vel vakandi. Við biðjum ykkur því að ítreka við börnin ykkar að þau verða að spritta hendur við komu í skólann og þegar þau fara í matsal. Sjá nánar frétt RÚV: https://www.ruv.is/frett/2021/04/29/eitt-smit-stadfest-a-akureyri
Lesa meira