Heimsókn frá starfsmanni ABC

Á fimmtudaginn kom til okkar  Guðbjörg Hákonardóttir sem býr í Úganda og starfar fyrir ABC barnahjálp. Hún sýndi okkur myndir og sagði frá lífinu þar sem er töluvert frábrugðið okkar lífi. ABC rekur nokkra skóla í landinu og eru um 3500 börn styrkt til skólagöngu í þeim. Mörg barnanna eru styrkt af Íslendingum og við í Giljaskóla styrkjum strák að nafni Vincent. Það var gaman að heyra Guðbjörgu segja frá skólanum hans og hún var með myndir af honum. Nemendur voru mjög áhugasamir og forvitnir um margt. Skóladagurinn er mun lengri í Úganda en hér á landi og aðbúnaður í skólanum einfaldur og fábrotinn. Við fengum að heyra að í skóla sem í væru 700 nemendur væru til tvær smásjár og 10 gamlar tölvur. Nemendur fengu engar bækur með sér heim og í skólanum þurftu 5-7 nemendur að vera saman um eina bók. Sami matur var á boðstólnum alla daga, maísgrautur og baunir. Nemendur þurftu sjálfir að koma með ílát undir matinn og einnig klósettpappír til að nota á útikömrunum. Kamrarnir vöktu mikla athygli og ýmsar spurningar vöknuðu! Guðbjörg benti okkur á að börnin væru glöð og ánægð með það sem þau hefðu og að það að vera ríkur væri ekki endilega það að eiga fullt af hlutum og peningum.

Hér meðfylgjandi eru myndir sem Guðbjörg sýndi okkur

Hér má sjá yngstu börnin sitja á mottu í skólastofunni sinni.

Hér má sjá starfsmann skólans standa uppi á eldavélinni og sjóða einhverskonar graut handa nemendum skólans.

Takið eftir hve vatnið er skítugt sem fólkið er að ná sér í til drykkjar. Þau sjóða vatnið áður en þau drekka það en við myndum örugglega ekki vilja drekka þetta vatn!

Síðasta myndin er tekin í skólanum sem Vincent er í og þurfa nokkrir nemendur að vera saman með eina bók.