Sérdeildin í Giljaskóla

Á Akureyri eru tvær sérdeildir, einhverfudeild í Síðuskóla og sérdeild Giljaskóla. Sérdeildin í Giljaskóla starfar samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Giljaskóli var hannaður og byggður með sérdeild fyrir fatlaða í huga og sérdeildin hefur verið að störfum þar síðan skólastarf byrjaði í Giljaskóla.

Í sérdeildinni eru sjö nemendur sem stunda allt sitt nám þar en svo tengjast önnur fjögur börn sérdeildinni á einhvern hátt. Þessi fjögur börn koma ekki öll úr Giljaskóla. Yngsti nemandinn er í fyrsta bekk og elsti í tíunda bekk og auk þess er einn nemandi á leikskólaaldri. Nemendur sérdeildarinnar þurfa öll eftirlit og aðstoð við athafnir daglegs lífs og geta flest lítið tjáð sig. Samkvæmt starfsfólkinu eru allir nemendurnir í sérdeildinni mjög góðir vinir.

Starfsmenn sérdeildar eru níu en fjöldi starfsmanna byggist á verkefnum sem unnin eru á hverju skólaári. Þekking starfsmannanna er fjölbreytt þar sem mismunandi starfsstéttir koma saman. Af þeim níu starfsmönnum sem vinna í deildinni eru þroskaþjálfar, leikskólakennarar, stuðningsfulltrúar, iðjuþjálfi, almennur kennari og sérkennari.

Hlutverk sérdeildarinnar er fyrst og fremst þjálfun barna með greindarfötlun og aðrar viðbótafatlanir. Einnig sér sérdeildin um ráðgjöf til foreldra, kennara og annarra sem tengjast þessum nemendum. Námsþarfir barna í sérdeildinni eru mismunandi og þess vegna er gerð einstaklingsnámskrá fyrir hvern og einn. Starfsmenn leggja mikla áherslu á það að börnin geti tjáð sig. Í sérdeildinni er mikið til af sniðugum hjálpartækjum sem hjálpa nemendum að tjá sig og segja hvað þeir vilja gera eða hvað þeim langar í. Þá eru helst notaðir rofar en einnig er líka mikið notað af myndum. Kennsla fer fram í sérdeild Giljaskóla, kennslustofum sérgreina, íþróttahúsi, þjálfunarlaug og Sundlaug Akureyrar.

Að mínu mati er sérdeildin mjög nauðsynleg og þar er unnið mjög gott starf. Þar skiptir mestu máli að nemendum líði vel, þeir fái að njóta sín í því sem þeir gera og að þeim finnist gaman. Það er mjög gaman að sjá hversu margar starfstéttir koma saman með þekkingu sem hlýtur að skila sér í fjölbreyttara starfi innan deildarinnar.

Að lokum vil ég þakka starfsfólki sérdeildarinnar fyrir aðstoðina við vinnslu þessarar greinar.

 

Líney Lilja Þrastardóttir 8. RK

 

Heimildaskrá

http://www.giljaskoli.is/is/skolinn/serdeild

Munnleg heimild fengin hjá starfsfólki sérdeildarinnar.