Valgreinar á unglingastigi

Gætu valgreinar á unglingastigi í grunnskólm á Akureyri  verið fjölbreyttari? Væri hægt að fá hugmyndir hjá unglingunum sjálfum hvað það er sem þeir vilja velja? Er kannski hægt að tengja valgreinarnar við atvinnulífið meira?

Ég ætla að fjalla um valgreinarnar á unglingastiginu en þó sérstaklega innanskólavalið. Innanskólavalið er ekki fjölbreytt og ekki margt áhugavert að velja finnst mér. Það er bara allt það sama. Heimilisfræði, smíðar, tauþrykk. Alltaf það sama á hverju ári. En ég ætla að segja hvernig val mér finnst vanta í skólann. Ljósmyndaval langar mig að prófa en það er utanskólaval og ég vil ekki fara í utanskólaval. Ég vil geta valið valgreinar innan skólans og ljósmyndaval er valgrein sem ég myndi vilja geta valið í innanskólavali. Mér finnst gaman að taka myndir en ég væri til í að læra betur á myndavél og læra betri tækni til að geta tekið betri myndir.

Ég myndi vilja að það yrði búin til ný valgrein þar sem allt sem við kemur hönnun yrði sett í einn valgreinapakka og það yrði innanskólaval. Þetta gæti verið skemmtileg viðbót við valgreinar á unglingastigi í Giljaskóla. Það væri t.d. hægt að vera með fjórar hönnunargreinar sem yrði ein valgrein og þær yrðu settar þannig upp að tvær greinar yrðu fyrir áramót og tvær eftir áramót. Þessi valgrein er gott dæmi um tengingu við atvinnulífið. Þarna væri hægt að fá lærða hönnuði hver á sínu sviði til þess að kenna þessa valgrein. Ég held að þessi valgrein gæti verið skemmtileg og höfðað til margra unglinga í Giljaskóla.

Annað sem ég vildi geta valið er val þar sem maður gæti valið að baka kökur og lært kökuskreytingar. Mér finnst gaman að baka og skreyta kökur, en ég held að það sé hægt að læra meira í þessu. Þarna myndi vera bakari eða kökuskreytingameistari (aftur tenging við atvinnulífið) sem myndi kenna og hver veit nema upprennandi kökuskreytingameistarar leynist hér í Giljaskóla.

Hér eru komnar nokkrar tillögur að innanskólavali sem mér finnst spennandi og góður kostur. Er ekki bara spurning um að fá tillögur frá okkur unglingunum um það hvað það er sem við viljum?

Lea Marín Arnarsdóttir 9.KJ