Tölvunotkun unglinga komin upp úr öllu valdi

Tölvunotkun nú á dögum er orðin hrikalega mikil. Það er hreint út sagt hálf ógnvekjandi að sjá hvað það er mikið af unglingum sem sitja í tölvunni alla daga og horfa á þætti eða spila ávanabindandi leiki eins og og legue of legends eða world of warcraft. Töluverð hætta virðist vera á einangrun og vanvirkni síðar í lífinu ef ástundun tölvuleikja fer fram úr hófi og verður að fíkn. Tölvunotkun hefur þó ekki alltaf slæmar afleiðingar í för með sér. Hér á eftir mun ég taka dæmi um jákvæða og neikvæða tölvunotkun.

Ef við pælum í því þá er mjög margt fólk alltaf í tölvunni, allstaðar og nánast hvenær sem er komumst við í tölvu. Það er reyndar margt jákvætt við tölvur líka eins og til dæmis öll forrit sem auðvelda þér vinnu og einfalda hluti sem má einfalda. Einnig er hægt að gera margar sniðugar æfingar í tölvum sem þjálfa heilann sem er mjög jákvætt. Hægt er að læra margt mjög nýtilegt varðandi forritun og slíkt sem getur einnig verið mjög atvinnuskapandi í framtíðinni. Þannig að heilt yfir er tölvan svo sem ekkert slæm og ætti ekki að þurfa vera vandamál. En hún getur verið mjög ávanabindandi og sumir bara höndla það ekki.

En hver er þá raunverulegi vandinn við tölvunotkun og hvenær telst hún óhófleg? Jú, vandinn er meðal annars sá að það koma sífellt nýrri og nýrri og betri og betri tölvur á markaðinn og slík þróun fær fólk  til að vilja alltaf prófa þetta nýja. Fólkið er alltaf að prófa nýjar tölvur og eyðir miklum tima í það. Tölvan og það sem hægt er að gera í henni getur verið mikill tímaþjófur. Einn helsti tímaþjófurinn eru tölvuleikirnir. Þeir geta orsakað gríðarlega mikil og margþætt vandamál. Margir tölvuleikir eru gerðir með það í huga að sá sem er að spila þá vilji ekki hætta, hann finni bara einhverja löngun til að halda endalaust áfram. Slík spilamennska getur þróast út í fíkn þar sem spilarinn tilheyrir gervisamfélagi netleiksins sem hann er þátttakandi í og upplifir sig missa af því sem þar gerist ef hann er fjarri tölvunni. Fjallað hefur verið um það í samfélaginu að leikir af því tagi hafi þau áhrif á suma, sérstaklega unga karlmenn, að þeir hætti að stunda nokkuð annað og einangri sig frá umheiminum smám saman. Það getur orðið verulegur vandi síðar meir þar sem félagsleg og verkleg vangeta háir þeim í okkar daglega lífi. Þessir aðilar tolla oft illa í vinnu vegna áunnar fíknar sinnar og hafa lítinn sem engan áhuga á að tilheyra samfélaginu sem þeir í raun búa í. Ég sá eitt sinn frétt í frá Bandaríkjunum sem studdi þetta en þar var talað um vaxandi atvinnuleysi og örorku ungra karlmanna þar sem undirliggjandi vandi var spilun slíkra tölvuleikja.  Ég rak einnig augun í rannsókn tveggja grunnskólakennara frá 2013. Rannsóknin snérist um áhrif of mikillar tölvunotkunar á unglinga og námsárangur. Unglingarnir voru 119 á aldrinum 14-16 ára. Það er skemmst frá því að segja að niðurstöðurnar voru ekki sérlega jákvæðar og ber þar helst að nefna að 45% unglinganna töldu sig eyða of miklum tíma í tölvunni og að stór hluti þeirra væri haldinn vægri tölvufíkn. Eins kom fram að samhliða aukinni tölvunotkun verði námsárangur slakari, hreyfingaleysi og einkenni frá stoðkerfi meira ásamt óreglulegum svefnvenjum (1). Ekki er þetta þó eina notkunin sem tekur tíma frá fólki. Ég vil líka nefna alla þessa sjónvarpsþætti sem hægt er að hlaða niður á netinu. Þeir eru „grilljón.“ Þar með myndi ég segja að almennt væri það vandamál hvað maður getur hlaðið miklu niður. Ef fólk þyrfti að fara út í búð og kaupa alla þætti og dvd-myndir þá myndi það gera miklu minna af því og þar með horfa minna á sjónvarpið eða tölvuskjáinn. Svo er það snjallsímanotkunin sem er sennilega  að verða útbreiddasta vandamálið og það hjá fólki á öllum aldri. Fólk og þá  sérstaklega unglingar eru alltaf með símann sinn hjá sér. Þeir verða oft alveg hrikalega stressaðir ef þeir hafa ekki símann og eru nánast háðir honum. Fólk er hætt að tala saman, það bara situr hlið við hlið og er i símanum.

En hvað er hægt að gera við þessu öllu?  Það er hægt að banna niðurhal til dæmis. Það er þó mjög ólíklegt að það gerist. En það er þó möguleiki. Einnig er hægt að banna síma í skólum. Þá myndu krakkar minnka notkunina töluvert mikið. Fræðsla getur mögulega haft á hrif og þá kannski í formi stuttra auglýsinga sem vekja fólk til umhugsunar. Slíkt hefur maður séð á netinu. Annars er svo sem ekkert sem fólk getur gert annað en að setja sér sjálfum bara reglur sem er það lang auðveldasta sem hægt er að gera. Þar sem þú gætir bara sjálfur sett þér mörk um hvað þú værir mikið í tölvunni á hverjum degi og hve mikið þú notar símann. Hve marga þætti þú horfir á á einni viku. Nú er ég sjálfur til dæmis að reyna að minnka tölvunotkun mína og mér finnst að það þurfi bara að vera eitthvað meira að gera á daginn, sérstaklega fyrir þá sem ekki eru í íþróttum. Það eina sem er í boði fyrir unglinga er á kvöldin eins og opin hús. Það er ekkert að gerast á daginn. Það væri fínt að hægt væri að stunda eitthvað uppbyggilegt á daginn.

Ég hef nú farið yfir kosti og galla tölvunotkunar og þegar á heildina er litið má segja að tölvunotkun hafi bæði sína kosti og galla. Hægt er að hafa af henni mikið gagn og gaman en einnig er auðvelt að verða háður henni og nota hana til tilgangslausra og jafnvel neikvæðra athafna ss. spilun netleikja sem eru ekki líklegir til að þroska fólk mikið. Mikilvægt er að fræða ungt fólk um skaðsemi óhóflegrar tölvunotkunar, hvar mörkin liggja og hvað er hægt að gera í því. Einnig er mikilvægt að boðið sé upp á eitthvað uppbyggilegt að gera fyrir unglinga á daginn.

Halldór Mar Einarsson 10. JAB

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.

 

Heimildaskrá:
1. Björgvin Sigurbjörnsson og Reynir Hólm Gunnarsson, (2013).Tölvur og unglingar : tölvufíkn og áhrif of mikillar tölvunotkunar á heilbrigði og námsárangur unglinga. Tekið af netinu