Til hvers eru greinaskrifin?

Allir nemendur á unglingastigi skrifa greinar sem skilað er til kennara. Á hverju ári eru skrifaðar tvær greinar, ein á haustin og ein um vorið. Önnur greinin á að fjalla um skólann en hin greinin er mismunandi eftir bekkjum. Í 8. bekk er skrifað um Giljahverfi, í 9. bekk er skrifað um Eyjafjörð og í 10. bekk er skrifað um Ísland.

Brynjar Karl Óttarsson er með greinaskrifin og er hann búinn að vera með þau frá því um 2010. Steinunn Kristín Bjarnadóttir er líka búin að vera með greinaskrifin en hún byrjaði með þau 2012-13. Og nú hef ég heyrt að Sigfús Aðalsteinsson sé að fara að byrja með skrifin.

Fyrsta árið voru greinarnar ekki birtar en greinar frá 2011-12 voru birtar á heimasíðu Grenndargralsins. Nú eru greinarnar birtar á heimasíðu Giljaskóla og á heimasíðu Grenndargralsins. Það er líka búið að birta sumar greinar í Akureyrarblaðinu og viljum við nú stefna á að birta einhverjar greinar í stærri blöðum eins og Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Ég er núna í 9. bekk og hef því skrifað tvær greinar. Sú fyrri var um haustið 2014 og sú seinni vorið 2015. Þessi grein er því sú þriðja.

En til hvers eru greinaskrifin? Eru þau til einhvers?

Margar greinar hafa fjallað um eitthvað sem nemendur vilja breyta eða laga í skólanum. Lengi hefur verið kvartað  yfir of þungum töskum og gömlum og lélegum tölvum. Líka hafa nokkrir skrifað um að það vanti Park hjá skólanum. Og núna loksins fengum við skápa og nýjar tölvur. Við fengum einnig Park sem var byggt við hliðina á Giljaskóla. Parkið er mjög mikið notað af litlum sem stórum krökkum.

Mér finnst mjög sniðugt að hafa þessar greinar þar sem nemendur geta sagt sitt um skólann. Mér finnst líka að fleiri skólar eigi að hafa svona verkefni fyrir nemendur sína þar sem þeir geta tjáð sig í sínum orðum um skólann sinn.

Ásdís Jana Ólafsdóttir 9. RK