Þú ert frábær eins og þú ert!

Léleg sjálfsmynd er eitthvað sem hrjáir alltof stóran hluta íslensku þjóðarinnar og þar af er langstærsti hópurinn ungir kvenmenn. Léleg sjálfsmynd stuðlar oftast að óöryggi með líkama, útlit, gáfur eða annað, okkur finnst við ekki nógu góð, við afsökum okkur um of, við erum háð áliti annarra, við þurfum á öðrum að halda, við trúum ekki á okkur sjálf, við reynum að taka sem minnst pláss, við erum afbrýðisöm, annað fólk ógnar okkur o.s.frv.

Margir þolendur kynferðislegs- eða heimilisofbeldis glíma við lélega sjálfsmynd af einhverju tagi þar sem fórnarlömb slíkra árása eiga það til að kljást við mikla skömm, sektarkennd og depurð. Aðilar með lesblindu, athyglisbrest eða aðra erfiðleika við lærdóm eiga það til að vera með lélega sjálfsmynd þar sem þeir telja sig ekki jafn hæfa eða gáfaða og aðra jafninga þeirra. Þeir sem eru með lélega sjálfsmynd einblína yfirleitt alltof mikið á eigin galla eða bera sig saman við þær staðalímyndir sem finnast í samfélaginu. Útlitsdýrkun spilar oft stórt hlutverk í brotinni sjálfsmynd. Hver kannast ekki við alla þessa flottu kvenmenn í bíómyndum, sjónvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum? Útlitsdýrkun er eitthvað sem allir ættu að þekkja. Vera með flott hár, vera vel vaxin og falleg og líta vel út í augum annarra. Eru þetta réttlátar kröfur til ungs fólks? Eða getur þetta verið ástæðan fyrir því að svona margir glíma við lélega sjálfsmynd? Langflestir unglingar eru gagnteknir af útliti og vilja líta út eins og þessar týpísku staðalímyndir. Getur verið að fullorðna fólkið sem á að setja gott fordæmi fyrir yngri kynslóðina sé sá hópur sem kemur þessum hugmyndum inn í hausinn á unglingum - að svona þurfi þeir að vera.

Gleyma foreldrar ekki oft að hrósa börnum fyrir að vera þau sjálf? Börn þurfa líka að heyra að þau séu dýrmæt og að þau skipti máli. Oftast nær er börnum bara hrósað ef þau gera eitthvað vel eða læra eitthvað nýtt. Með þessu er ég ekki að setja út á uppeldi foreldra heldur að benda þeim á að hrósa börnunum sínum fyrir að vera einstök eða öðruvísi. Slíkt hrós getur komið í veg fyrir að fólk líti niður á sjálft sig. Ef stuðlað er að því strax í æsku eru mjög miklar líkur á að þegar að barnið eldist verði það ánægðara með sjálft sig og láti ekki segja sér hvernig það á að vera. Í Þjóðfélagsfræði eftir Garðar Gíslason segir í kaflanum Sjálfsmyndin "Þá höfum við öll persónuleg sérkenni sem gera okkur einstök og ólík öðrum". Þetta er einmitt það sem er svo frábært við okkur. Enginn er eins.

En hvað ætli sé hægt að gera til að laga þetta? Hvað er til ráða? Bæta sjálfsmyndina? Númer 1, 2 og 3 er að hætta að bera sig saman við þessa staðalímyndir. Það sem skiptir mestu máli er að gera það besta úr því sem maður hefur. Gott er að segja einn fallegan hlut við sjálfan sig á dag og ekki alltaf það sama heldur finna fleiri jákvæða hluti um sig. Þú ert frábær eins og þú ert. Allir eru einstakir. Fara vel með líkamann sinn. Borða hollan mat og vera hraust. Maður þarf samt ekki að líta út eins og súpermódel. Bara hugsa vel um líkamann sinn.

Hver er svo niðurstaðan? Hún er sú að það skiptir engu máli hvernig þú ert svo lengi sem þú ert sátt með sjálfa þig. Hugsaðu vel um þig og líkamann þinn. Maður verður sáttur með sig þegar maður hættir að pæla í hvað öðrum finnst og segir eitthvað jákvætt um sig á hverjum degi. Það er algjört aðalatriði að hugsa fallega um sig. Segja eitthvað jákvætt um sig á hverjum degi þó það sé ekki nema „ ég er með sætar tær!“

Ríkey Lilja Steinsdóttir 10.BKÓ

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum.