ÞAÐ SEM MÉR FINNST?

Táknmál er eitthvað sem allir þyrftu að læra, ekki bara fatlaðir, heyrnarlausir og mállausir. Mér finnst mjög mikilvægt að við lærum táknmálið. Við til dæmis lærum ensku og dönsku þannig að við ættum einnig að læra táknmálið. Þannig getum við öll talað saman. Erum við ekki að gleyma heyrnarlausum og fötluðum?

Þau þurfa að tala við okkur eins og við þurfum að tala við þau. Ef mállausir eru til dæmis að fara á fund þurfa þeir að hafa túlk með sér. En ef allir hefðu lært táknmál í grunnskóla væri þetta kannski ekki svona.

En vitum við öll hvað táknmál er? Táknmál er fullkomið mál rétt eins og íslenska, danska, enska og önnur raddmál. Táknmál hefur líka málfræði rétt eins og öll önnur tungumál. Táknmál er tjáð með samspili handa, höfðus, líkama og munn- og andlitshreyfingum. Samkvæmt síðunni wfdeaf.org eru 70 milljónir manns heyrnarlausir og tala táknmál í heiminum. Táknmál er eins og öll önnur tungumál. Það er íslenskt táknmál fyrir ísland og franskt fyrir Frakkland og svo framvegis. Fólk með fötlun t.d. fólk með einhverfu nýtur sér tákn með tali sem er ekki það sama og táknmál. Þau tákn hjálpa þeim að gera sig skiljanleg og láta í ljós vilja sinn og óskir sem þau annars gætu ekki gert. Í sumum leikskólum hér á landi eru tákn með tali kennd. Það bæði örvar málþroska barnanna og bætir stöðu hins fatlaða í nemendahópnum. Mér finnst að það ætti að halda áfram með þessa kennslu upp í grunnskóla í stað þess að hætta með kennsluna eftir leikskóla. Það kemur í veg fyrir að maður gleymi því sem maður nú þegar hefur lært.

Ég get ekki ímyndað mér líf án tungumáls. Ég get ekki ímyndað mér líf þar sem maður getur ekki tekið þátt í samskiptum við annað fólk og tjáð hug sinn, greint frá reynslu, upplifun eða líðan. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að lifa í þögn. Ímyndaðu þér hvernig það væri að vera innilokaður í þessari þögn innan um aðra sem ættu sér sameiginlegt tungumál sem gerði þeim kleift að skilja hvern annan.

Ég ákvað að fjalla um þetta táknmál því mér finnst þetta mjög mikilvægt málefni og að fólk geri sér grein fyrir því hvað það er mikilvægt að allir kunni eitthvað fyrir sér í táknmáli.

Hildur Katrín Óladóttir 10.JAB