SKÓLAKERFIÐ

Ég er 15 ára og er í Giljaskóla. Reyndar hef ég verið í skóla í 10 ár og einu betur þar sem ég var í Ísaksskóla þegar ég var 5 ára. Sem sagt búinn að vera í skóla mikinn meirihluta ævi minnar. Til hvers? Hvað ef foreldrar mínir hefðu ekki sett mig í skóla og komist upp með það? Hvað ef meirihluti barna færi ekki í skóla? Myndi samfélagið hrynja? Allir að segja „mér langar“! OK, sennilega færi allt til helvítis. En hver ákveður hvað þarf að kenna krökkum í skóla til að allt gangi upp? Náttúru-, stærð-, efna- og samfélagsfræði, ensku, dönsku, íslensku, íþróttir, sund, smíðar, tónmennt, heimilisfræði og allskonar. Svo fer maður t.d. í menntaskóla og svo háskóla og svo getur maður farið að vinna eitthvað, eins og að lækna fólk eða jarða það.

Hver fann upp á skóla - að hafa hús þar sem fólk vinnur við að setja fróðleik inn í höfuðið á börnum? Hvar byrjaði þetta allt saman? Hugmyndin um að koma fólki saman á einn stað þar sem einhver miðlaði fróðleik, kom fyrst fram á tímum Forn-Grikkja. Grískumælandi Rómverjar á fornöld byrjuðu með skólakerfi sem innihélt grunnskóla. Talið er að skólakerfið eins og við þekkjum það, sé upprunnið hjá Prússum fyrir u.þ.b. 200 árum. Prússar voru mikið í stríðum og þurftu að ala upp hlíðin ungmenni fyrir her. Þeim gekk vel í stríðum svo að margir fóru að trúa því að skólakerfið þeirra virkaði vel og það breiddist hratt út.

Auðvitað hefur skólakerfi Prússanna verið þróað eitthvað en samt er það í grunninn eins. Fyrir utan hefðbundnar námsgreinar s.s. stærðfræði, íslensku og annað sem er í stundatöflunni læra nemendur fleiri hluti eins og samskipti við aðra og hvernig á að haga sér. Allt er þetta mikilvægt fyrir samfélagið. Til að geta unnið og leyst ýmiss mál sem koma upp í lífinu og tekið ákvarðanir út frá skynsemi þarf að byggja á einhverri þekkingu.

Menntamálayfirvöld ákveða út á hvað skólastarfið gengur og hvað er kennt. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvaða áhrif það hefði að hafa bara listgreinar eða íþróttir í skólanum! Eða með öðrum orðun; er skólakerfið eins og við viljum hafa það?

 

Kristján Máni Þórhallsson – 10. SKB