Skápar og þungar töskur

Þegar nemendur eru komnir upp á unglingastig, sem sagt í 8. bekk, fer námsbókunum að fjölga. Töskurnar þyngjast og erfiðara verður að ganga með þær. Ég veit að það er hægt að skipuleggja sig betur og setja bækurnar sem maður þarf í töskuna áður en lagt er af stað í skólann. Ég geri þetta en það er bara eitt vandamál. Þetta tekur tíma og það þýðir einfaldlega að ég kem þá frekar seint í skólann.  Ég er alltaf að setja bækurnar í töskuna og taka þær upp úr aftur. Ég er sífellt að skipta á milli og það er frekar leiðinlegt. Með því að skipuleggja sig betur er þetta örugglega minna mál en þetta er samt sem áður bara vesen!  Það er til lausn á vandamálinu. Skápar. Ef það væru skápar á göngunum gæti maður geymt bækurnar í skólanum í staðinn fyrir að flytja þær stöðugt á milli staða. Með skápunum mætti draga úr bakmeiðslum/verkjum svo allt yrði þægilegra og myndi auðvelda hlutina frekar mikið.

Skáparnir þurfa ekki að vera dýrir. Til að ná upp í kostnað má hugsa sér að leigja þá út til nemenda þangað til peningurinn sem fór í kaupin á þeim kemur til baka. Staðsetning á skápunum er kannski smá vandamál. Að mínu mati má rífa fatahengin niður á 3. hæðinni til að koma skápunum fyrir. Þau eru mjög lítið notuð. Aðeins einn og einn notar þau til að hengja fötin sín á. Ef skortur verður á fatahengjum er vel hægt að hengja fötin fyrir framan stofuna næst forstofunni. Þar eru fatahengi sem eru yfirleitt full en það er hægt að hengja fleiri fatahengi á vegginn á móti.

Það er skemmtilegra að vakna á morgnana vitandi að í skólanum bíða skápar sem geyma námsbækurnar. Með því þarf maður að gera minna áður en farið er í skólann. Og þreyttir unglingarnir þurfa ekki að bera 30 kg. töskurnar sínar í skólann. Svo ekki sé nú minnst á að tvisvar í viku eru íþróttir og einu sinni í viku sund en þá þarf maður að mæta með tvær töskur. Takk fyrir mig. 

Hilmir Gauti Garðarsson 9. BKÓ

Með skápum á göngunum mætti koma í veg fyrir óþarfa vesen!