Skápar í Giljaskóla

Ég held að ég sé ekki sá eini sem finnst vanta einhverslags geymslurými fyrir skóladót nemenda á unglingastigi. Jafnvel þó að það væri bara lítil skúffa í kennslustofu eða lítill skápur á ganginum. Í þessari fréttagrein mun ég aðallega fjalla um skápa, staðsetningu þeirra, útlit og tilgang.

Þegar hugmyndin um skápa í grunnsólum er skoðuð nánar þarf að velta fyrir sér staðsetningu þeirra. Um er að ræða skápa sem hugsaðir eru sem geymslurými fyrir nemendur á unglingastigi. Í Giljaskóla gætu þeir komið í staðinn fyrir þá snaga sem eru á veggjum ganganna hjá unglingastiginu, rétt fyrir ofan ofnana. Þannig myndu þeir ekki taka auka pláss heldur koma í staðin fyrir það sem er fyrir. Nemendur gætu sett yfirhafnir og önnur föt í skápana og því væri ekki lengur þörf á snögum.

Hvernig ættu þessir skápar að líta út? Mér finnst að þeir ættu að vera háir til að föt gætu hangið þar og breiddin þarf að passa fyrir tösku og bækur. Það ætti að vera snagi efst og kannski tvær hillur neðst. Það þyrftu líka að vera litlar rifur eða göt á hurðum skápanna til að lofta um t.d. ef blaut föt eru hengd inn í þá.

Af hverju finnst mér þurfa skápa? Því að þá þurfa nemendur unglingastigs ekki að bera þunga skólatösku um allt bæði innan skólans á milli tíma og svo á leiðinni til og frá skólanum. Það er álag fyrir bakið að bera þungar töskur, sérstaklega á unglingsárunum þegar líkaminn er að vaxa. Einnig fer betur um bækurnar að vera í góðri geymslu frekar en að þvælast í töskum allan daginn. Þá eru líka minni líkur á að skólabækurnar gleymist heima en hins vegar gætu þær á móti gleymst í skólanum sem er sennilega eini gallinn á hugmyndinni. Nemendur vilja líka hafa einhverslags persónulegt rými í skólanum til að geyma hluti eða verðmæti.

Hér hef ég talað um skápa sem geymslurými fyrir nemendur unglingastigs. Ég veit að það munu örugglega ekki koma skápar í skólann á meðan ég er í honum. Ég vona þó að komandi árgangar muni loks fá skápa.

Kristján Máni Þórhallson 9.BIS