Samskipti unglinga og foreldra

Mér finnst samskipti foreldra og barna/unglinga oft ekki vera til fyrirmyndar, allavega í langflestum tilvikum sem ég hef séð. Unglingar eru oft með stæla við foreldra sína og taka ekki almennilega tillit til þeirra. Þetta eru foreldrar manns sem eru búnir að ala mann upp í mörg ár og unglingarnir launa þeim með því að vera leiðinlegir og hundsa reglur þeirra. Það er ástæða fyrir að foreldrar setja reglur fyrir börnin sín. Þeir vilja þeim bara það besta. Mér finnst reyndar unglingar almennt ekki bera nógu mikla virðingu fyrir þeim fullorðnu. Það þyrfti að kenna þeim almennilega að bera virðingu fyrir öðru fólki ekki síður en sjálfum sér. Ágætt dæmi um hvar reynir á samskipti unglinga og foreldra er þegar kemur að verkaskiptingu á heimilum. Einnig geta komið upp erfiðleikar varðandi tölvunotkun.

Ég á von á því að á flestum heimilum hvíli meginábyrgð heimilisstarfa á fullorðnum. Ég geri ekki ráð fyrir því að unglingar í dag taki fullan þátt í þeim. Í gamla daga tóku allir á heimilinu þátt við vinnu á heimilinu. Pabbinn vann úti, konan var inni að þrífa húsið og elda og krakkarnir hjálpuðu til á báðum stöðum og við að passa litlu krakkana. Þessu hefur farið hrakandi síðustu ár. Að vísu er verkaskiptingin mikið breytt nú til dags miðað við í gamla daga. Mennirnir eru farnir að vinna meira á heimilinu og konurnar eru farnar að vinna fyrir peningum líka. Á þetta þá bara eftir að enda þannig að börnin flytji ekkert frá foreldrum sínum og foreldrarnir þurfi að mata þau alla tíð? Kannanir hafa verið gerðar um það hvort krökkum í 10. bekk finnist sum störf hæfa öðru kyninu betur en hinu. Fyrir um 20 árum voru svörin á þá leið að  flest störf væru bæði fyrir karla og konur, þó voru einstöku störf sem voru meira kynjaskipt. Nýlega var gerð samsvarandi könnun og þá kom í ljós að svörin hafa breyst gríðalega mikið. Í þeirri könnun var miklu meira um að krakkarnir svöruðu þannig að sum störf væru bara fyrir karla og önnur aðeins fyrir konur. Síðustu ár hefur verið reynt að gera muninn á milli hlutverka kynjanna minni en samt lítur út fyrir að það hafi ekki náð til unglinganna. Þeir líta svo á að það séu sérstök „konustörf“ og sérstök „karlastörf“ og fara bara að hlæja við tilhugsunina um karl að vinna við barnapössun eða konu sem vinnur á verkstæði. Mér finnst rangt að hugsa svona. Karlar geta alveg verið jafn góðir og jafnvel betri en konur að gæta barna og eins geta konur léttilega unnið á verkstæði alveg eins og karlarnir.

Ég held að tölvunotkun hjá unglingum hafi gífurlega mikið að segja um samskiptin á heimilinu og einnig heimilisverkin. Þegar krakkar fara í tölvuna er eins og allt hverfi og það verður ekkert eftir nema tölvan. Þeir gleyma alveg tímanum, heimalærdóminum og húsverkunum. Ég held að það yrði gott ráð að minnka tölvunotkun hjá unglingum. Þá hafa þeir meiri tíma í námið, hitta vini og geta eytt einhverjum tíma með fjölskyldunni. Til dæmis að hafa ákveðna tíma á dag til að vera í tölvu og fylgja þeirri reglu eftir. Einnig tel ég að sjónvarpsáhorf hafi mikið að segja um það hvernig unglingar eða bara fólk almennt lítur á aðra. Í myndum sér maður oft unglinga sem eru alltaf til vandræða, eru með dólg, fólk að berjast og fólk í dópi. Ef unglingar eru mikið að horfa á myndir þar sem fólk er að berjast og koma illa fram við hvert annað gætu þeir alveg tekið upp á því sama og fundist það bara allt í lagi. Ég er ekki að segja að allt sé unglingum að kenna og að þeir séu eina ástæða þess að samskipti eru ekki upp á sitt besta. Foreldrar geta líka verið slæmir í svona málum, jafnvel búnir að gleyma hvernig það er að vera ungur, áhyggjulaus og vera ekkert alltof mikið að hugsa um lífið og framtíðina. Foreldrar ættu að geta sett sig í spor unglinganna, reyna að vera sanngjarnir við þá og þegar unglingarnir eru að biðja um eitthvað, að íhuga það með opnum huga.

Í stuttu máli finnst mér samskipti milli foreldra og unglinga oftast alls ekki til fyrirmyndar bæði hvernig fólk talar hvert við annað og bara hvernig það er hvert við annað almennt. Ég er ekki að segja að það sé svona hjá öllum en ég hef séð þetta hjá mjög mörgum og mér finnst að það ætti að gera eitthvað í málinu. Það þarf ekki að vera neitt stórmál. Til dæmis að hafa eitt kvöld í viku þar sem fjölskyldan er öll saman bara að spjalla eða spila og skipta húsverkum jafnt á milli þannig að það lendi ekki allt á einum aðila á heimilinu.

Sandra Björk Arnarsdóttir 10. IDS

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.