Samræmd könnunarpróf

Árið 1929 hófu samræmdu prófin göngu sína á Íslandi og hafa verið í gangi síðan. Upphaflega var einungis könnuð geta nemenda í 10.bekk og þá ekki í 4.- og 7.bekk eins og hefur verið gert frá árinu 1995. Gegnum tíðina hafa prófin tekið umtalsverðum breytingum.

Upphaflega voru prófin eingöngu ætluð 10.bekk og voru þau þá hugsuð sem inngöngupróf fyrir framhaldsskóla. Ungmennaráð samfés kom því svo í gegn að prófin yrðu ekki inngöngupróf í framhaldsskóla. Það finnst mér vera rétt breyting, vegna þess að kannski gengur þér illa í þessum prófum en mjög vel allt skólaárið. Er þá rétt að þú fáir ekki inngöngu í framhaldsskóla? Góð breyting að mínu mati. En þá spyr maður sig; er einhver tilgangur með prófunum ef þau „gilda“ í rauninni ekki neitt? Eru þau ekki svolítið úrelt? Spila þau ekki á móti nútíma kennsluaðferðum og gera meira slæmt en gott? Ég fór í samræmd próf fyrir stuttu. Þau voru 23.september – 25.september. Á mánudeginum var íslenska, þriðjudeginum enska og miðvikudeginum stærðfræði. Ég tel mig ekki eiga í miklum erfiðleikum með nám en ég vildi að sjálfsögðu læra mikið undir prófin. Í skólanum mínum, Giljaskóla, vorum við nánast allan tímann frá því að við byrjuðum í skólanum og fram að prófunum að undirbúa okkur fyrir prófin. Mér hefur verið sagt að prófin gegni því hlutverki að prófa stöðu nemenda svo að þeir geti bætt sig þar sem þeir standa í erfiðleikum það sem eftir lifi vetrar. En svo fór næstum allur tími í undirbúning. Passar þetta saman? Það sem ég hef heyrt af fólki í kringum mig er aðallega neikvætt um prófin og aðallega um íslenskuprófið. Nú hafið þið sennilega heyrt mikla umfjöllun í fjölmiðlum, mikla gagnrýni. Nýverið var skólastjóri í Hagaskóla, Hafsteinn Karlsson, að tjá sig um málið. Honum fannst íslenskuprófið alls ekki nógu gott. Segir prófið villandi og prófi nemendur í því sem skiptir ekki máli í íslensku. Ég er mjög svo sammála honum. Einn textinn í lesskilningi var um 800 ára gamall! Hvaða gagn hefur nemandi á 21. öldinni í 10.bekk af því að lesa 800 ára gamla forníslensku? Doktor í íslensku gat ekki klárað prófið eins og segir á vísi.is sem gefur kannski í skyn hversu prófið var erfitt eða kannski meira villandi. Sumt í samræmdu prófunum er alveg út í hött og þarf að bæta, jafnvel leggja endanlega niður. Ég tel að þau eigi sér ekki stoð lengur í nútíma menntun grunnskólanema og séu mjög oft villandi.

Það þarf eitthvað að gerast fljótlega. Það gengur ekki að nemendur finni fyrir óþarfa kvíða og fari í villandi próf sem er nánast gert til þess að leiða þá í gildrur. Gleymum því þó ekki að allt mannlegt er háð mannlegum vitsmunum og því ekki fullkomið. Ég tel að það sé kominn tími til að endurskoða prófin og bæta þau en frekar.

 

Sigurður Már Steinþórsson 10. JAB