Proffakaffi

Giljaskóli er ágætur skóli og hefur sína kosti og galla. Námsefnið er fjölbreytt og kennararnir eru metnaðarfullir og leggja sig fram um að undirbúa okkur fyrir framtíðina. Eitt af því sem ég myndi vilja sjá öðruvísi er proffakaffið. Proffakaffið er pítsuveisla sem er fyrir nemendur sem fengið  hafa minna en sex punkta yfir veturinn. Þetta punktakerfi getur því verið mjög hvetjandi en getur líka verið slæmt.

Nemendur fá punkta fyrir til dæmis að vinna ekki heimavinnuna sína, koma of seint í tíma, vera með læti eða vinna ekki í kennslustundum. Tökum dæmi og segjum að ég væri á ferðalagi og myndi svo mæta í skólann eftir frí án heimavinnu. Ég myndi þá fá einn punkt. Eða að ég myndi gleyma pennaveskinu eða skólabókum heima því ég var að læra eða þá að ég myndi sofa aðeins yfir mig og koma of seint. Þetta eru auðvitað allt bara óhöpp en samt tilefni til að gefa mér punkt, auðvitað er þetta eitthvað sem kemur fyrir hjá flestum okkar einhvern tímann. Það er samt engin afsökun fyrir því að vera með læti eða vinna ekki í kennslustundum svo það er eðlilegt að fá punkt fyrir það. Skróp eða fjarvist er líka notað í þessu punktakefi. Þegar nemendur nenna ekki í tíma eða labba út úr miðjum tíma fá þeir fjarvist eða skróp. Þetta er líka notað ef nemendur missa af rútunni í sund.
Kostur við þetta punktakerfi er sá að nemendur passa sig og athuga á Mentor hvort það sé heimavinna, passa að vera með allar skólabækur, reyna mæta á réttum tíma í skólann eða í kennslustundir og fleira. Gallinn við þetta punktakerfi er sá að þegar nemendur eru búnir að koma einu sinni of seint, gleyma heimavinnunni, vinna ekki í tímum o.s.frv og komnir yfir sex punkta er þeim alveg sama. Þeim er alveg sama hvort þau koma of seint því þeir eru hvort sem er komnir yfir sex punkta og þegar nemendur eru komnir yfir sex punkta finnst þeim kannski eins og það sé enginn tilgangur með þessu punktakerfi lengur. Það skiptir ekki máli hvort þú ert með sjö eða átta punkta þú kemst ekki í proffakaffið. Auðvitað langar alla í pítsuveisu í skólanum og reyna því sitt besta í byrjun skólaársárs til að passa að fá ekki of marga punkta. 
Annað sem mig langar að fjalla um í sambandi við þetta proffakaffi er nemendaráð. Krakkar sem eru í nemendaráði í Giljaskóla fá að fara í proffakaffið, hvort sem þeir eru með tvo punkta eða 30. Það er alveg í lagi að umbuna krökkum í nemendaráði fyrir störf sín en skrýtið kannski að tengja það við þetta. Þessi umbun ætti kannski frekar að snúast um nám heldur en félagslíf.
Svo er annað. Nemendur sem leggja hart að sér í náminu fá kannski enga umbun eða verðlaun fyrir það og pæla kannski meira í því að gera heimavinnuna, mæta ekki of seint og muna eftir gögnum. Proffakaffi á ekkert skylt við framfarir eða námsárangur. Auðvitað vilja allir fá verðlaun fyrir að standa sig vel. Mér finnst mikilvægara að nemendur standi sig vel í námi heldur en að mæta ekki of seint í tíma og svoleiðis og ég held að flestir séu sammála mér um það.

Mín skoðun er því sú að proffakaffi og punktakerfi eins og þetta geti virkað hvetjandi á nemendur. Það þarf samt að hugsa um þá sem alltaf standa skil á sínu, fá góðar einkunnir og eru duglegir, jafnvel þó þeir mæti stöku sinnum seint í tíma eða gleymi gögnum heima. Punktakerfið mætti taka mið af þessu.

Elva Júlía Róbertsdóttir 9. KJ