Öryggismál og aðrar pælingar

Ég ætla að fjalla um nokkur atriði sem snerta daglegt líf í Giljaskóla.  Í fyrsta lagi er það hættan sem fylgir því að vera með lítil handrið. Í öðru lagi kem ég lítillega inn á námslega stöðu okkar nemenda sem og matinn og stólana í skólanum. 

Öryggi er mikilvægt fyrir heilsu manna. Mér finnst vanta meira öryggi þegar kemur að handriðunum í skólanum. Þau eru ekki nógu há að mínu mati. Hvað finnst þér? Hvað ef einhver dettur niður? Það eru kannski ekki miklar líkur á að það gerist en enginn veit sína ævina fyrr en öll er! Skólinn ber ábyrgð ef illa fer. Við þurfum að passa okkur á hlutum sem við fyrstu sýn virðast hættulausir. Ekki nóg með að mér finnist að handriðin eigi að vera hærri.  Ég tel einnig að það þurfi að setja upp gler til að koma í veg fyrir að fólk missi hluti niður og til að fólk príli ekki eða detti. Sumum finnst gaman að príla en það eykur adrenalínið. Þeir sem eru adrenalínfíklar eru því í meiri hættu að mínu mati. Það væri í flestum tilfellum hentugra að hafa skólann á einni hæð en ekki alltaf. Ég hitti starfskonu í Giljaskóla sem sagði aðalhættuna vera þá að nemendur væru að missa hluti niður og það gæti skapað hættu. Auðvitað gerist það sjaldan sem betur fer en það kemur þó reglulega fyrir. Ég veit sjálfur dæmi þess að hlutum hafi verið kastað viljandi niður í forstofuna en þar geyma unglingarnir skóna sína. Þetta getur skapað mikla hættu ef maður fær þungan hlut á sig. Starfskonan sagði einnig að stundum væri verið að klifra upp handriðin og að það væri stórhættulegt. Við verðum að taka á þessu og herða á reglum.

Svo er það námsleg staða í Giljaskóla. Hún er mjög góð að mínu mati. Bekkurinn minn vinnur mikið í dagbókum í vetur eins og reyndar síðastliðinn vetur. Það hefur greinilega skilað sér. Á meðan eru 25% stráka í 10. bekk í Reykjavík sem geta ekki einu sinni lesið sér til gamans. Er þetta vegna þess að foreldrarnir nenna ekki að hjálpa börnunum sínum að lesa? Mér finnst þetta skrítið. Hvað finnst þér um þetta?

Maturinn í Giljaskóla hefur skánað mikið. Hann er allt í lagi núna en var ekki góður á tímabili. Svo er það stólarnir. Það er frekar vont að sitja lengi á þeim.

Mér finnst annars allt gott um Giljaskóla að segja þó svo að það sé ekki allt fullkomið. Það er ekkert fullkomið!

 

Karl Jóhann Sveinsson 10. KJ.