Öryggi fyrir alla

Í þessari grein langar mig að fjalla um vallar- og parkaðstöðu við skólann minn Giljaskóla, hvernig hún nýtist krökkunum í hverfinu og hvað mætti betur fara.

Árið 2004 varð knattspyrnusamband Evrópu 50 ára. Í tilefni þess styrkti sambandið aðildarlönd sín til þess að byggja sparkvelli. Knattspyrnusamband Íslands tók málið í sínar hendur, fékk enn meiri styrki frá Alþingi og íslenskum fyrirtækjum og setti sér það markmið að byggja um 40 sparkvelli víðs vegar um landið. Hugmyndin með sparkvöllunum var að skapa öruggt og skemmtilegt leiksvæði fyrir alla aldurshópa (Knattspyrnusamband Íslands, 2004).

Sparkvöllurinn við Giljaskóla hefur verið vel nýttur að mínu áliti. Þangað koma krakkar á öllum aldri og stundum fullorðnir líka til þess að spila fótbolta. Má segja að sparkvöllurinn hafi orðið að eins konar samkomustað okkar krakkanna utan skólatíma, sérstaklega eldri bekkjanna. Núna í sumar bættist við parkaðstaða við hlið sparkvallarins. Þar gefst tækifæri til þess að leika sér á hjólabrettum og hlaupahjólum. Parkaðstaðan hefur verið vel nýtt síðan hún kom og er góð viðbót við þá aðstöðu sem fyrir er.

Eitt veldur mér þó áhyggjum en það er veggurinn sem aðskilur völlinn og parkaðstöðuna. Með tilkomu parkaðstöðunnar kemur í ljós að þessi veggur er ekki nógu hár þar sem að boltinn af sparkvellinum fer oft yfir í parkaðstöðuna og veldur það slysahættu fyrir þá sem eru á hjólabrettum og hlaupahjólum. Þeir sem stunda parkaðstöðuna ná oft miklum hraða í æfingum sínum og því getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar ef þeir fá bolta í sig.

Samkvæmt bæklingi KSÍ um sparkvelli á að vera einföld girðing úr stöðluðum einingum í kringum vellina, 1, 2 m á hliðum, 2 og 2,6 m við endalínur ásamt 60 cm vegg yfir mörkum (Knattspyrnusamband Íslands, 2004). Þessi 1,2 m hliðarveggur virðist ekki vera nógu hár þegar parkaðstaða er komin við hliðina á honum.

Mín skoðun er sú að það mætti endurskoða girðinguna utan um völlinn hjá Giljaskóla með tilliti til nýkominnar parkaðstöðu svo að öryggi allra sem nýta sér svæðið sé tryggt.

Kári Þórðarson