Of lítill undirbúningur fyrir menntaskólann!

Í mörgum grunnskólum er mikið heimanám. Fínt er að auka heimanámið eftir því sem nemendur verða eldri. Þegar þeir eru búnir með grunnskólann og fara í menntaskóla tekur oft mikið heimanám við og eru nemendur yfirleitt ekki tilbúnir fyrir það. Heimanámið í grunnskóla var aldrei það mikið.

Hér í Giljaskóla finnst mér heimanám vera allt of lítið. Yfirleitt þegar við fáum  heimavinnu þá er hún annað hvort sú að læra undir próf eða að vinna upp heima þegar við höfum ekki getað klárað í tímanum. Oft eru mörg próf í hverju fagi fyrir sig og hitta stundum þannig á, að þau eru 2-4 í viku. Kennararnir taka samt oft tillit til nemenda. Ef við biðjum þá að fresta prófi um viku eða nokkra daga  geta þeir oftast orðið við því. Sjálfri finnst mér mjög óþægilegt að hafa svona mörg próf vegna þess að maður er í íþróttum og í vali oft í viku. Í staðinn fyrir próf er hægt að hafa eitt stórt verkefni eða nokkur lítil sem nemendur geta unnið heima og gilda kannski svipað mikið og próf. Þessi próf fara mjög oft illa í marga nemendur og fá sumir kvíðakast eða þaðan af verra. Þá koma þessi verkefni við sögu. Hægt er að láta nemendur vinna saman í hóp og síðan að hafa eitt lítið próf úr því sem þeir eru búnir að gera. Auðvitað er ekki hægt að gera það í öllum fögum en í samfélagsfræði, náttúrufræði, dönsku, íslensku og mörgu öðru er það hægt. Sumir krakkar eru líka með lesblindu eða annars konar frávik þannig að þeir eiga erfitt með að einbeita sér við að læra/lesa undir próf.

Ég tel að krakkar sem fái reglulega heimanám í grunnskóla séu betur undirbúnir fyrir menntaskólann en aðrir og að það sé hægt að leyfa nemendum að vinna verkefni í staðinn fyrir að taka próf. Þeir kynnast ef til vill bekkjarfélögum sínum betur og verða ekki eins stressaðir fyrir próf.

Guðrún Birna Örvarsdóttir 9.RK