Meiri útivist ,lengri og fjölbreyttari íþróttatímar

Útivist og hreyfing krakka er eins og margir vita mjög mikilvæg. Hreyfing í skólum er ekki slæm en hún fer minnkandi eftir því sem líður á unglingsárin. Símar eiga pottþétt stóran þátt í þessu en hvað er hægt að gera?

Í Giljaskóla er það þannig að unglingastig þarf ekki að fara út í frímínútum. Nemendur eiga mun auðveldara með að komast upp með að sleppa sundi og íþróttum. Einnig fá þeir minna út úr íþróttatímunum þar sem þeir nenna litlu enda má alveg auka fjölbreytnina. Byrjum á útivistinni. Þar væri hægt að hafa fleiri útivistardaga eða kennslustundir. Það þyrfti ekki að vera langt, einfaldlega væri hægt að labba skólahringinn segjum einu sinni í viku. Það gæti hjálpað krökkum með einbeitingarleysi eða eitthvað álíka til að slaka á. Þá myndu frímínútur af og til þar sem unglingastig þyrfti að fara út vera fín lausn. Útivistin innan skólans myndi þannig aukast til muna. Ég meina, það er aðeins skárra að hanga úti í símanum en inni. Í sambandi við íþróttatímana þá vantar fjölbreytni og margir eru sammála mér hér. Hægt væri að lengja þá og hafa meiri hreyfingu í hverjum tíma. Ég fæ oft meiri hreyfingu af því að labba upp stigana eftir íþróttir en í tímanum sjálfum. Önnur leið er að krakkarnir fái líka svolítið að gera það sem þeir vilja. Í byrjun annar væri hægt að skipuleggja önnina með krökkunum á unglingastigi. Símanotkun unglinga eykst með hverjum degi sem líður og samskipti milli vina minnka. Eins og ég segi, hreyfing, og samvera krakka fer í annað sæti. Það er einfaldlega hægt að loka á þetta. Ég veit að skólastjórnendur hafa talað um það en gera samt aldrei neitt. Þeir hafa samt fullt vald til að stjórna þessu innan skólans.

Það vantar meiri hreyfingu og útivist á unglingastigi, lengri íþróttatíma og stutta göngutúra annað slagið og minni símanotkun. Þessi 3 ár á unglingastigi eru toppurinn á tilverunni og vil ég að krakkarnir sem koma á eftir okkur geti notið þess að vera með vinum sínum í góðum félagsskap og átt möguleika á aukinni hreyfingu, útivist og skemmtilegum íþróttatímum.

 

Embla Blöndal 9. RK