Meiri fjölbreytni í sundi og íþróttum

Íþróttatímar í Giljaskóla eru í íþróttamiðstðinni við Giljaskóla. Þar er nýlegt íþróttahús með fullkominni aðstöðu fyrir fimleikaþjálfun en nemendur fá þó sjaldan að nýta þau tæki í íþróttatímum. Sundkennsla fer hins vegar fram í sundlaug Akureyrar við Skólastíg og þurfa nemendur að fara með rútu frá Giljaskóla í sundtíma. Aðstaðan í Akureyrarlaug er mjög góð með stórri sundlaug og fjölbreyttum heitum pottum og vaðlaugum.

Ég ætla að byrja á því að segja frá skoðun minni í sambandi við sundkennslu í Giljaskóla. Mín skoðun er sú að sund er bara vesen.  Sem dæmi um þetta er að  nemendur vilja ekki fara í sund, of lítil mæting, ekki gaman, of kalt og svo framvegis.  Við kunnum að synda, það er ekki eins og við séum að læra eitthvað nýtt. Mín reynsla er sú að margar stelpur reyna að sleppa við sund.  Ástæður eru þær sem ég hef minnst á hér að ofan. Sund er bara ekki fyrir alla. Lítill tími er líka eftir sund og þurfum við alltaf að drífa okkur  til að missa ekki af rútunni. Í mörgum skólum er það þannig að það er sundkennsla aðra önnina en ekki báðar og væri það strax betra að mínu mati. Mér finnst að skólinn mætti vera sanngjarn hvað þetta varðar, þ.e mér  finnst þetta  vera góð lausn að það sé sund hálfan veturinn en ekki allan.

Mér finnst íþróttir alltaf skemmtilegar og ég veit að margir eru sammála mér með það. Mér finnst samt oft vera of tímafrekt að setja upp dótið eða áhöldin. Ef fyrsti tíminn er íþróttir þá þarf að setja upp áhöld, nemendur þurfa að  hita upp og kennarinn þarf að vera með nafnakall. Þetta allt  tekur  kannski rúmlega  hálfan tíma og þá  er kannski  bara korter eftir af tímanum. Mér finnst  að tímarnir ættu að vera lengri því íþróttir eru hollar fyrir alla. Af hverju ekki að hafa þær tvo kennslutíma, sem sagt 2x 40 mínútur? Eins og ég hef nefnt þá er leiðinlegt hvað allur undirbúningur tekur langan tíma. Sem er synd af því að íþróttirnar eru skemmtilegar.  Að lokum má nefna að það mætti vera meiri fjölbreytni í sundi og íþróttum. Til dæmis er mjög sjaldan handbolti í íþróttatíma og í sundi mætti vera meira af leikjum inn á milli. Þetta finnst mér að mætti bæta eða jafnvel hugsa nýjar leiðir til þess að gera kennsluna ennþá skemmtilegri. Það er því mín skoðun eins og hér kemur fram að fækka ætti sundtímum og fjölga íþróttatímum. Krakkar í bekknum mínum hafa miklu meira gaman af íþróttum en sundi og sjá lítinn tilgang með sundtímunum. Íþróttatímarnir hafa sama tilgang það er að krakkar fái að hreyfa sig en þykja einfaldlega skemmtilegri en sundtímarnir.

 

Jóhanna Júlía Valsdóttir 9. RK