Lífsgæðakapphlaup unglinga

Lífsgæðakapphlaup? Hvað er það? Lífsgæðakapphlaup segir sig nú eiginlega sjálft en margir vita nú ekki hvað það er. Það getur verið stórt vandamál sem kannski er ekki hægt að leysa. Dæmi um hvernig svona vandamál kemur upp hjá unglingum er þegar þeir kaupa sér nýja síma, tölvur,sjónvörp föt eða slíkt.

Lífsgæðakapphlaup er vandamál. Í rauninni er það mjög stórt vandamál. Flestallir unglingar tilheyra þessum hópi. Flestallir unglingar eiga iphone eða macbook eða slík tæki. Það er alveg rosalega gaman að eiga nýja og dýra síma og tæki og svoleiðis en er það þess virði? Er maður hamingjusamari að eiga dýr föt eða dýra síma? Nei ég held nú barasta ekki. Oft er þetta gamla góða bara margfalt betra. Þurfum við að fá allt það nýjasta strax? Er ekki bara málið að bíða með það sem maður á og fara bara vel með það? Það er ekki auðvelt fyrir okkur unglingana að taka ekki þátt í þessu kapphlaupi um nýjustu tækni því það dynur á okkur á hverjum degi og við verðum bókstaflega að kaupa allt það nýjasta og allt það flottasta. Netið er svo fljótt að láta okkur vita af nýjum tækjum, tólum og tísku. Auglýsingar eru margslungnar og virka hvetjandi og vel á yngri kynslóðina. Þetta er nú voðalegt hjarðeðli þetta vandamál. Allir verða að eiga eins og ef einn á ekki eins og aðrir þá er hann asnalegur. Þetta kapphlaup getur orðið svo mikið að það getur valdið unglingum hugarangri. Þeim líður illa. Þeir eru vansælir og óhamingjusamir því þeir eiga ekki það sama og hinir. Kapphlaupið tíðkast ekki bara hjá unglingum heldur auðvitað líka fullorðna fólkinu. Þau eru auðvitað fyrirmyndin.
Hvar byrjar þetta? Það má nú eiginlega segja að þetta byrji allt saman í leikskólanum þegar krakkar eru að metast um leikföng og föt. Í leikskólum Hjallastefnunar eru skólabúningar, allir eru í eins buxum og peysum og þá er enginn að gera neinar sérstakar athugasemdir um fatnaðinn. Foreldrarnir eru líka ábyrgir fyrir þessu kapphlaupi þegar þeir keppast við að vinna fyrir dýrum hlutum og kannski of stórum húsum og bílum og þá smitast börnin fljótt. Hér á Íslandi hefur verið svolítið mikið um lífsgæðakapphlaup og margir hafa farið misvel út úr því. Við þurfum öll að taka okkur á í þessu kapphlaupi því lífið er svo stutt.
Við þurfum öll að hægja á ferðinni og vera meðvituð um það sem við gerum og kaupum, vera þakklát og ánægð með það sem við eigum. Við megum ekki láta efnishyggjuna alveg klára okkur. Lífið er svo stutt. Það er alltof stutt til að eyða því í þrældóm fyrir eitthvað drasl sem við hendum eftir stuttan tíma. Maður á að standa með því sem maður á og aldrei að skammast sín fyrir eitthvað gamalt. Vöndum valið þegar við kaupum eitthvað nýtt því þetta eru okkar peningar sem við erum búin að vinna fyrir. Fáum ráð hjá foreldrum og vinum áður en við tökum einhverjar skyndiákvarðanir í tækjakaupum. Spyrjum okkur líka spurninga. Þarf ég þetta?

Í þessum pistli er ég búinn að skrifa um lífsgæðakapphlaupið, hvað það er og hvað er til ráða. Það væri sjálfsagt hægt að skrifa margra blaðsíðna ritgerð um þetta efni en ég ætla nú bara að stikla á stóru í þetta sinn. Ég held að þetta sé nú bara undir okkur sjálfum komið og hvernig við viljum lifa. Í framtíðinni þroskumst við og vonandi vitkumst einnig og finnum út úr því hvað gerir okkur hamingjusöm. Við höfum það svo gott hér á Íslandi og við megum alls ekki gleyma rótum okkar og því lífi sem fólkið lifði hér á árum áður.

Egill Már Vignisson 10. JAB

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.