Lífið á unglingastigi

Þegar maður fer á miðstig breytist mjög mikið frá því á yngsta stigi. Námið þyngist og prófin og heimalærdómur verður meiri. Maður þarf að leggja meira á sig til að standa sig vel. En þegar maður fer frá miðstigi og upp á efsta stig eða unglingastig þá breytist ennþá meira. Heimanámið verður miklu meira og prófin þyngjast og verða fleiri. Maður fer að læra fleiri greinar, valgreinarnar bætast við og svo er maður með fleiri kennara en áður.

Það verða líka margar skemmtilegar breytingar þegar maður fer á unglingastig. Maður fer að umgangast aðra krakka á unglingastigi meira og tala meira við þá, maður gerir stuttmyndir, spilar og margt skemmtilegt er gert. Á unglingastigi er lögð meiri áhersla á að búa mann undir framhaldsskóla og talað meira um það við mann. Maður spáir meira í því hvað mann langar að læra og gera í framtíðinni.

Mér finnst að við í 9.bekk fáum alltof mikið heimanám. Mér finnst við ættum að læra meira í bókunum í staðinn fyrir að glósa. Sumir kennararnir leiðbeina manni ekki nógu vel og sýna manni ekki nógu vel réttu aðferðirnar. Sumir kennarar gera allt með manni upp á töflu og ef maður skilur ekki er manni bara sagt að lesa af töflunni í staðinn fyrir að útskýra. Svo finnst mér ég stundum vera að læra eitthvað sem skiptir ekki máli að læra í grunnskóla. Til dæmis í íslensku erum við að læra helling um myndmál og svoleiðis. Ég skil ekkert í því og ég skil ekki hvað það mun gagnast mér í framtíðinni. En kannski vantar einmitt að útskýra það fyrir manni hvaða þýðingu námið hefur fyrir mann í framtíðinni.

Mér fyndist að við mættum vera í meiri samskiptum við  vinabekkinn okkar í skólanum og að eldri krakkarnir kynnist yngri krökkunum líka. Hittast reglulega og kynnast betur. Jafnvel vinna einhver verkefni saman, meira en er gert núna.

Það er ljóst að það verða miklar breytingar við að flytjast á unglingastig bæði félagslega og varðandi námið. Maður þarf að vera ábyrgari og hugsa meira um framtíðina. Það er líka eins og samskipti við aðra krakka en þá sem eru á unglingastigi minnki og því mætti breyta t.d. með því að vinna saman að verkefnum.

María Björk

9.SÞ