Lestrarkennsla

Ég ætla að skrifa um lestrarkennslu í Giljaskóla.   Í fyrsta bekk eru margir krakkar orðnir nokkuð vel læsir, kannski sérstaklega stelpurnar. Fyrstu skólaárin fara mikið í að kenna okkur að lesa.    Heimanámið í fyrstu bekkjunum var mikill lestur.

Bækurnar á bókasafninu í skólanum fannst mér ágætar meðan ég var á yngsta stigi.  Ég las helst Skúla-skelfi og Bert. Þegar ég var kominn á miðstig   fannst mér frekar lítið úrval af spennandi  bókum. Ég held að flestum strákunum í bekknum mínum hafi fundist  lestur  frekar leiðinlegur. Í heimalestri þurftum við oft að lesa sömu blaðsíðuna þrisvar  bara til að ná meiri hraða.  Þetta fannst mér glatað. Mér finnst  frekar ætti að hugsa um hvort maður skilji hvað maður er að lesa heldur en að lesa sem hraðast.

Hvernig væri draumalestarkennsla fyrir strák eins og mig?  Jón Baldvin myndi „henda í“ ipad, maður gæti farið á netið og kíkt á síður eins og fotbolti.net, 433.is, menn.is, mbl.is og visir.is

Ég er alveg viss um að þetta gæti hjálpað strákum sem eru ekki bókaormar til að ná betri árangri í lesti.  Það skiptir máli að fá að lesa um hluti sem manni finnst skemmtilegir. Svo er ég eiginlega alveg viss um að þetta gæti hjálpað lesblindum.

Það væri mun skemmtilegra að taka hraðlestur niður Powerade slúðrið heldur en um Bert og stelpurnar.

Á yngsta stigi man ég að bekkurinn fór í verkefni þar sem við áttum að velja okkur poka með bók sem við áttum að lesa og þarna voru líka einhver leikföng sem við áttum að tengja við söguna. Ég valdi fótboltapokann fyrst, þar áttum við að búa til lið og ég man að það fylgdi með ágætis fótboltabók. Eftir nokkrar vikur varð þetta ekki eins spennandi. Verkefnið var kannski bara of langt þannig að í lokin voru þeir pokar sem maður átti eftir að kíkja í ekki eins áhugaverðir.

Mér finnst við ættum að prófa nýja hluti í lestrarkennslunni og vera í takt við nýja tækni. Það sem ég les í dag er allt á ipadinum og stór hluti af því tengist íþróttum. Það sem er kannski aðalvandamálið að okkur strákana skortir áhuga á bókunum og finnst frekar leiðinlegt að sitja inni og lesa. Þess vegna er svo gott að geta fengið að lesa um hluti sem manni finnst áhugaverðir.

Heimir Óðinsson, 8. SKB