Lestrarhvetjandi umhverfi í Giljaskóla.

Allir nemendur ættu að vita hversu mikilvægt er að lesa. Lestur styrkir okkur sem námsmenn. Hann kemur ekki bara að miklu gagni í námi heldur líka í lífinu. Við tengjumst öðru fólki og menningarheimum í gegnum bækur. Þær veita okkur þekkingu og fræðslu og halda tungumálinu okkar uppi. Læsi eflir okkur og fylgir um aldur og ævi. Þess vegna eru það slæmar fréttir þegar rannsóknir sýna að lesskilningur unglinga á Íslandi fari ört hrakandi. Orðaforði okkar er að minnka og ensku-skot orðin áberandi.

Í alþjóðlegri rannsókn kom fram að 21% íslenskra 15 ára unglinga fannst tímasóun að lesa og áttu erfitt með að klára bók. Auðvitað getum við ekki horft fram hjá því að unglingar lesa og skrifa mikið á tölvur og senda smáskilaboð á facebook eða með sms. En skjárinn hentar illa til þess að lesa langa og flókna texta og oftar en ekki er einungis skimað yfir þá. Þannig öðlast lesandinn lítinn sem engan skilning fyrir innihaldinu. Texti á netinu á það líka til að vera einfaldur og stuttur. Slíkur texti hjálpar ekki við að auka skilning á hefbundnum textum eða skrifa þá. Þess vegna er svo mikilvægt að hvetja unglinga til að bretta upp ermarnar strax í dag og byrja að lesa. En hvernig á að fara að því?

Mikilvægt er að hafa fyrirmyndir. Foreldrar eru mjög duglegir við að styðja börnin sín við lestur fyrstu árin. Svo þegar börnin eru orðin sjáflbjarga í lestrinum er taumunum sleppt og kæruleysi tekur við. Börnin eiga að geta valið sér sjálf bók og lesið. Á þessum tímapunkti getur margt farið úrskeiðis. Þau geta lent á rangri bók eða aldrei reynt að lesa. Hér eiga skólasafnskennarar að koma hvetjandi inn og bjóða upp á ráðgjöf um spennandi bækur. Rétt val á bókum getur haft jákvæð og varanleg áhrif á lestraráhuga barna. Safnskennarinn þarf samt að þekkja nemendurna nokkuð vel til þess að geta hjálpað þeim með valið. Því er æskilegt að hann viti hvar áhugi þeirra og styrkleiki í læsi liggur. Umsjónarkennarinn og safnskennarinn verða að vinna vel saman og bera saman bækur sínar. En hvernig á safnskennarinn að þekkja nemendurna ef þeir koma aldrei á safnið?

Hér er mikið verk óunnið. Erfitt er að kveikja á lestaráhuga hjá nemendum í 10. bekk sem hafa varla tekið upp bók í frítíma sínum sér til skemmtunar. Í Giljaskóla er hægt að bæta ýmislegt fleira þegar kemur að lestri. En ég vil heldur benda á margt sem er gott. Margir íslenskukennarar í skólanum byrja t.d. einn íslenskutíma í viku á frjálslestri og lesa af og til upphátt fyrir bekkinn. Einnig er búið að setja upp nokkrar hillur með bókum á ganginum á þriðju hæð. Allt þetta skapar lestrarhvetjandi hefðir. Skýr lestrarstefna í skólum hefur mjög jákvæð áhrif.

Lestur er gríðarlega mikilvægur og undirstaðan í námi. Lesskilningi fer ört hrakandi hjá unglingum á Íslandi. Orsakirnar eru meðal annars lítill bókalestur og mikil tölvunotkun. Foreldrar verða að styðja börnin sín strax í upphafi við lesturinn. Kennarar taka svo við og þá er gott að hjálpa til við að velja hina réttu bók. Í Giljaskóla er lagt áherslu á lestur. Það er mjög jákvæð þróun. Þverrandi lestraráhugi er barátta sem alls ekki má gefast upp á heldur verður að grípa til aðgerða strax.

Þóra Höskuldsdóttir 10.BKÓ