Leikskáld í Giljaskóla

Leikverk eftir þær Bergrós Níelsdóttur og Kolfinnu Stefánsdóttur nemendur í 8. bekk Giljaskóla var frumsýnt í Borgarleikhúsinu þann 17. nóvember síðastliðinn. Kolfinnu og Bergrós var að sjálfsögðu boðið á sýninguna þar sem þær voru klappaðar upp og afhent rósir í lok verksins eins og siður er í leikhúsinu. 

 

Tildrög þessa skemmtilega viðburðar má rekja til þess að þær vinkonurnar sömdu leikritið ,,Undarlega eikartréð” þegar þær voru í 6. bekk og sendu inn í samkeppnina ,,Sögur”. Sögur eru samstarfsverkefni margra stofnana sem eiga það sameiginlegt að vinna að barnamenningu og sköpun. Tilgangur verkefnisins er að auka læsi og áhuga barna á bókmenntum og sagnagerð. Hér má sjá nánari upplýsingar um verkefnið:

https://krakkaruv.is/sogur/sogu-verkefnid/

 

Hápunktur verkefnisins er svo ,,Sögur - verðlaunahátið barnanna” sem haldin er árlega og verk barnanna verðlaunuð og þau fá tækifæri til að verðlauna sjálf það menningarefni sem þeim finnst skara fram úr.

 

Leikrit Bergrósar og Kolfinnu var annað tveggja leikrita sem valið var til verðlauna í beinni útsendingu á RÚV þann 5. júní sl. Leikritin eru valin i samvinnu við Borgarleikhúsið og eru þau sett á svið sem útskriftarverk leiklistarskóla Borgarleikhússins í samvinnu við handritshöfunda.

Þetta hefur verið mikið ævintýri fyrir þær vinkonur og mun án efa fara í reynslubankann fyrir verkefni framtíðarinnar.